Hvernig spyrjum við um ástæðu?
Íslenskan hefur þrjár meginaðferðir til að spyrja um ástæðu einhvers – orðasamböndin (forsetningarliðina) af hverju og hvers vegna, og spurnaratviksorðið hví. Af orðasamböndunum eru til ýmis tilbrigði svo sem af hvaða ástæðu og vegna hvers en þau eru svo sjaldgæf að þau skipta ekki máli. Í fornu máli kemur eingöngu hví fyrir – orðasamböndin koma ekki til fyrr en á síðari öldum. Um miðja 19. öld er hlutfall af hverju um það bil helmingur af heildartíðni þessara þriggja spurnaraðferða samkvæmt tímarit.is en hvers vegna og hví eru um fjórðungur hvort fyrir sig. Á næstu áratugum eykst tíðni hvers vegna smátt og smátt, einkum á kostnað af hverju, en hví er nokkuð stöðugt milli 20 og 25% fram um 1930 þegar dæmum fer að fækka.
Um miðja 20. öld er hlutfall hvers vegna orðið um tveir þriðju af heildinni en af hverju og hví á bilinu 15-20% hvort. Eftir það lætur hví hins vegar hratt undan síga og er komið niður í 4% af heildinni um síðustu aldamót. Hlutfall af hverju hefur hækkað að sama skapi og af hverju og hvers vegna eru hvort um sig rétt tæpur helmingur af heildinni á þessari öld. Í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá þessari öld sést hvernig þessi þróun heldur áfram. Þar er hlutfall af hverju tæplega ¾ af heildinni, hlutfall hvers vegna rétt tæplega fjórðungur, en hlutfall hví ekki nema rúm tvö prósent. Í textum af samfélagsmiðlum er munurinn enn meiri – þar er af hverju (mjög oft skrifað afhverju) 85,5% af heildinni, hvers vegna 12,5% og hví aðeins 2%.
Ég hef á tilfinningunni að flestum fullorðnum þyki spurnarorðið hví frekar formlegt og ég held t.d. að ég noti það aldrei nokkurn tíma, ekki heldur í ritmáli. En hér var í dag bent á að hví væri orðið algengt í máli ungs fólks og þess getið til að það stafaði af áhrifum enska orðsins why. Það er svolítið erfitt að meta þetta en textar af samfélagsmiðlum endurspegla þó fyrst og fremst óformlegt málfar ungs fólks og því er helst að miða við þá. Vegna eðlis þessara texta er hlutfall spurnarorða mjög hátt þar í samanburði við aðra texta og dæmin um hví því býsna mörg, hálft ellefta þúsund. Hlutfallið er vissulega lágt, aðeins um 2% eins og áður segir, en þó nokkurn veginn það sama og í formlegri textum – ólíkt því sem búast mætti við.
Miðað við hvað hví er – eða var – formlegt orð og hvernig tíðni þess hefur farið ört lækkandi undanfarna áratugi mætti nefnilega búast við að hlutfall þess væri mun lægra í óformlegu máli samfélagsmiðla. Þótt hví hafi verið á hraðri niðurleið undanfarna áratugi eiga ensk áhrif því e.t.v. eftir að framlengja líf þess eitthvað. Vitaskuld eiga hví og why sér sameiginlegan uppruna þannig að það er ekki eins og þarna sé um eitthvert aðskotaorð að ræða, en það er óvanalegt að ensk áhrif verði til þess að efla gamalt orð sem tilheyrði formlegu málsniði og auka notkun þess í óformlegu máli. En að öðru leyti er niðurstaðan sú að notkun af hverju sé orðin langsamlega algengasta aðferðin til að spyrja um ástæðu en hvers vegna og einkum hví séu á hraðri niðurleið.