Vonlaus ákvörðun að taka
Um daginn rakst ég á setninguna „Þetta er vonlaus ákvörðun að taka“ í frétt á mbl.is og staldraði við, því að þessi setningagerð sést ekki ýkja oft á prenti þótt hún sé vissulega vel þekkt. Þarna er sem sé merkingarlegt andlag (vonlaus ákvörðun) sagnar (taka) haft á undan sögninni og í nefnifalli, óháð því hvaða falli sögnin stýrir annars – ef andlagið kæmi á eftir væri þetta taka vonlausa ákvörðun í þolfalli. Skyld þessu er setningagerð sem t.d. kemur fram í Pressunni 2018, „Þessi ákvörðun var ekki erfið að taka“, í stað það var ekki erfitt að taka þessa ákvörðun. Þessi setningagerð er vel þekkt í ensku og gengur þar undir nafninu „tough movement“, kennd við lýsingarorðið tough sem er mjög algengt í slíkum setningum – this decision was tough to make.
En slíkar setningar eru ekki allra, og vegna þess að vitað er að tilfinning fólks fyrir þessari setningagerð er mismunandi hefur verið spurt um hana í tveimur viðamiklum rannsóknum á síðustu árum. Í ritinu Tilbrigði í íslenskri setningagerð er greint frá niðurstöðum úr samnefndri rannsókn sem Höskuldur Þráinsson stýrði fyrir tæpum 20 árum. Í öðru bindi ritsins kemur fram að í íslensku eru setningar af þessu tagi algengastar með lýsingarorðunum erfiður og auðveldur, rétt eins og með samsvarandi orðum í ensku. Þar er sagt frá mati málnotenda á setningunum Þess vegna eru stólarnir mjög auðveldir að þrífa og Þær eru svo auðveldar að lesa. Rétt rúmur helmingur aðspurðra hafnaði fyrri setningunni en um þriðjungur þeirri seinni.
Í rannsókninni „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ sem við Sigríður Sigurjónsdóttir stjórnuðum fyrir nokkrum árum var spurt um mat á fjórum setningum af þessu tagi: Greinarnar voru vel skrifaðar. Þær voru auðveldar að lesa. Textarnir innihéldu erfið orð. Þeir voru flóknir að skilja. Þessi réttur var frábær. Hann var einfaldur að elda. Guðrún keypti nýjan dúk. Hann er erfiður að þrífa. Svarendur voru á aldrinum frá þrettán ára og til rúmlega níræðs. Um og rétt yfir 40% þeirra sögðu að þrjár fyrstu setningarnar væru frekar eða alveg eðlilegar, en aðeins rúm 20% sögðu það sama um þá síðustu. Hlutfallið var heldur hærra hjá fólki undir tvítugu en lægra hjá elstu hópunum en aldursmunur var þó tiltölulega lítill.
Ég hefði að óreyndu talið að mismunandi mat málnotenda á þessari setningagerð benti til þess að hún væri tiltölulega ný í málinu og ekki ólíklega tilkomin fyrir ensk áhrif. En við nánari athugun reynist svo ekki vera, heldur má rekja setningagerðina a.m.k. til 19. aldar. Í Skuld 1878 segir t.d.: „Hún er auðveld að skilja og sýnist vera sérlega vel sniðin eftir þörfum þeirra, sem hún er ætluð.“ Í Tímariti hins íslenzka bókmentafélags 1885 segir: „sum eru mjög erfið að lesa, af því af handritið er orðið skaddað, og öll eru þau meira og minna seinleg að lesa.“ Í Búnaðarritinu 1899 segir: „Hann þrífst vel, þótt jörð sje eigi feit, auðveldur að gróðursetja, og vex skjótt.“ Í Þjóðólfi 1903 segir: „ítalskan er hljómfögur og auðveld að bera fram.“
Fjölmörg hliðstæð dæmi frá allri 20. öld má finna, og dæmi nákvæmlega hliðstæð setningunni „Þetta er vonlaus ákvörðun að taka“ sem vitnað var til í upphafi eru ekki heldur ný – í Vísi 1964 segir: „Þetta er erfið ákvörðun að taka.“ Í Vísi 1976 segir: „Það er samt ekki auðveld ákvörðun að taka.“ Í Tímanum 1981 segir: „Þetta var ekki auðveld ákvörðun að taka fyrir Indiru Gandhi og ríkisstjórn hennar.“ Í Morgunblaðinu 1982 segir: „Þetta er erfið ákvörðun að taka í tvímenningi.“ Í Morgunblaðinu 1983 segir: „Ég vil byrja á að segja að það var ekki auðveld ákvörðun að taka, að segja öllu sínu fólki upp.“ Í DV 1986 segir: „Þetta var auðvitað mjög erfið ákvörðun að taka, að rífa sig upp með þrjú börn og flytjast til Bandaríkjanna.“
Það er ekki hægt að leita að ákveðnum setningagerðum í rafrænum textum heldur verður að tengja leitina við tiltekin orð og þess vegna er trúlegt að mun fleiri og fjölbreyttari dæmi, og e.t.v. eldri, sé í raun að finna í textunum en þau sem ég hef rekist á. En þetta er mjög áhugavert dæmi um setningagerð sem er gömul í málinu og hefur lifað í a.m.k. hálfa aðra öld án þess að verða hluti af málkerfi nema sumra málnotenda – frá rúmlega 40 og upp í nærri 70% þeirra finnst slíkar setningar frekar eða mjög óeðlilegar. Það hefði mátt búast við að setningagerðin annaðhvort lognaðist smátt og smátt út af eða næði til alls málsamfélagsins, en e.t.v. hafa líkindi við ensku komið óorði á hana í seinni tíð. Þetta þarfnast þó mun ítarlegri rannsóknar.