Posted on Færðu inn athugasemd

Viljum við láta kalla okkur vansköpuð?

Fjöldi íslenskra orða byrjar á van-. Í Íslenskri orðsifjabók segir að þetta sé „alg[engur] forliður neikvæðrar merkingar“ og í Íslenskri nútímamálsorðabók segirvan- sé „fyrri liður samsetninga sem táknar vöntun eða neitun“. Í Íslenskri orðabók er merking forskeytisins brotin upp í tvennt – 'ekki nóg, ófullnægjandi' eins og í vanhirða, vanhæfur, vanefndir, vanræksla, vannærður, vansvefta, vanborga, vanþakka; og 'mis-, rang-, illa' eins og í vansköpun, vanvirða, vanskapaður, vansæmandi, vanhelga, vanprýða. Það sem hér vekur athygli og skiptir máli er sú neikvæða ára sem er yfir flestum þessum orðum – þau fela ekki eingöngu í sér vöntun eða neitun, heldur hafa á sér neikvæðan blæ og lýsa jafnvel stundum skömm eða fyrirlitningu.

Eitt þeirra orða sem þarna eru nefnd er lýsingarorðið vanskapaður sem skýrt er 'með (sýnilegan) fæðingargalla' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'ekki rétt skapaður, með skakkt eða óeðlilegt sköpulag' í Íslenskri orðabók. Það er gamalt í málinu, kemur fyrir í Guðbrandsbiblíu frá 1584, og hefur lengi verið algengt þótt e.t.v. sé eitthvað að draga úr tíðni þess. Skylt því eru nafnorðin vansköpun sem skýrt er 'afbrigðileg myndun eða þroski tiltekins líkamshluta' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'galli, lýti, vanskapnaður' í Íslenskri orðabók, sem og vanskapningur sem skýrt er 'vanskapað dýr eða maður; afskræmd vera' í Íslenskri nútímamálsorðabók og notað sem samsvörun við enska orðið monster í orðasafninu „Læknisfræði“ í Íðorðabankanum.

Ég fór að hugsa um þetta í tengslum við herferðina „Orðin okkar“ sem Jafnréttisstofa stendur fyrir „til að hvetja fólk til umhugsunar um áhrifamátt orða sinna. Orð geta sært, sundrað og brotið niður en þau geta einnig nært, huggað og sameinað“. Ég veit ekki hvort orðin vanskapaður og vansköpun eru notuð mikið um og við fólk núorðið. Ég vona ekki, en er hræddur um að þau séu stundum notuð til að niðurlægja fólk – „þá ertu vanskapaður hálviti verð ég að seigja“ segir á Hugi.is 2001; „djöfull ertu vanskapaður“ á sama miðli 2002; „ert þú eitthvað vanskapaður í hausnum?“ á sama miðli 2005; „troðið þessu inní vanskapaða hausinn á ykkur“ á Bland.is 2010; „shit, þú ert vansköpuð“ á sama miðli sama ár – og margt fleira.

Ég veit um mann sem fæddist með ákveðna fötlun sem olli honum ýmsum óþægindum og hugarangri. Þegar efnt var til leitar að fegursta orðinu í íslensku fyrir tíu árum sagðist hann ekki vera í vafa um hvaða orð hann myndi velja sem ljótasta orð málsins. Það var lýsingarorðið vanskapaður. Þetta orð heyrði hann stundum notað um sjálfan sig þegar hann var barn og tengir ýmsar óþægilegar minningar við það – sem er ekkert undarlegt í ljósi þess sem sagt er hér að framan um orð af þessu tagi. Auðvitað var ekkert illt á bak við notkun þessa orðs – þetta var bara það orð sem fólk á þessum tíma þekkti og notaði um meðfædda fötlun og vitanlega hvarflaði ekki að neinum að verið væri að meiða barnið með því. Nú vitum við betur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að krefjast þjórfés

Í frétt á mbl.is um helgina stóð „Sjálfsafgreiðsluvélar krefjast þjórfés“. Þarna er um að ræða samsetningu af hvorugkynsorðinu og þótt hvorugkynsorð fái venjulega endinguna -s í eignarfalli eintölu er undantekning – af sögulegum ástæðum beygist það venjulega óreglulega og er fjár í eignarfalli þannig að þarna hefði mátt búast við myndinni þjórfjár. Það er þó ekki einsdæmi að fái reglulega beygingu – elsta dæmi um fés í Ritmálssafni Árnastofnunar er frá 17. öld. Í Íslenzkri málmyndalýsingu eftir Halldór Kr. Friðriksson frá 1861 segir: „fje er […] óreglulegt í eig.eint. er það er þar fjár; þó er myndin fjes til, en miklu óvanalegri.“ Í Islandsk Grammatik Valtýs Guðmundssonar frá 1922 segir: „fje […] (G.Sg. fjár […] og (sj.) fjes.“

Þótt bæði þessi rit telji myndina fés sjaldgæfa er hún nefnd þar án fordæmingar og gömul dæmi um hana má finna á tímarit.is, en hún hefur þó lengi verið talin röng. Í Málfarsbankanum segir: „: Eignarfallið er ekki „fés“, með greini „fésins“, sbr. fjármálaráðherra en ekki „fésmálaráðherra“.“ Þetta vísar til þess að fyrir um 40 árum notaði þáverandi fjármálaráðherra eignarfallsmyndina fés í ræðu og var eftir það uppnefndur fésmálaráðherra. Jón G. Friðjónsson taldi þessa beygingu orðsins ótvírætt ranga í Morgunblaðinu 2008 en sagði: „Beyging þess er að ýmsu leyti alveg einstök og því bregður óreglulegum myndum alloft fyrir.“ Gísli Jónsson sýndi notkun myndarinnar fés nokkurn skilning í þætti sínum í Morgunblaðinu 1980 og sagði:

„Hinu er ekki að neita, að orðið fé er býsna sérstakt. Það er eina hvorugkynsorðið í íslensku, þeirra er hafa sterka beygingu, sem ekki endar á s í eignarfalli, er því í sama beygingarflokki og hönd og köttur (u-stofn). Þar af kemur hið sérkennilega eignarfall sem var fé-ar, sbr. hand-ar og katt-ar. Orðmyndin féar breyttist síðar í fjár […]. En mikil vorkunn má það vera fólki að vilja hafa s í eignarfalli þessa orðs, svo sem er í öllum öðrum sterkum hvorugkynsorðum. Mér er nær að halda að orðmyndin fjár hefði alveg glatast og eignarfallið hefði með áhrifsbreytingu orðið fés, ef danska tökuorðið fés í merkingunni andlit (óvirðuleg merking) hefði ekki fyrir guðs miskunn komið í veg fyrir þessa breytingu með tilveru sinni.“

Eignarfallsmyndin fés kemur ekki síður fyrir í samsetningum eins og þjórfés sem vitnað var til í upphafi – á Vísi 2017 segir t.d.: „Vegna þjórfés fá þjónar oftast mun hærri laun en hámenntaðir kokkar.“ Það er athyglisvert hvað hlutfall „röngu“ myndarinnar þjórfés á móti viðurkenndu myndinni þjórfjár er hátt í Risamálheildinni – 11 dæmi á móti 18. Tölurnar eru vissulega ekki háar en þetta þarf ekki að koma á óvart – það er alþekkt að reglulegar beygingarmyndir orða sem annars beygjast óreglulega eru oft notaðar í samsetningum. Sem dæmi má nefna samsetningar með lýsingarorðum sem beygjast óreglulega – í Risamálheildinni eru fleiri dæmi um geðvondari en geðverri og dæmi eru um geðillari, viðskotaillri, geðgóðari, vongóðari o.fl.

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Eignarfallsmyndin fés er röng en henni bregður stöku sinnum fyrir í stað fjár.“ Þannig hefur það alla tíð verið og er enn – alla 20. öldina má finna dæmi um fés á stangli á tímarit.is og nokkuð af dæmum frá þessari öld er í Risamálheildinni, bæði af samfélagsmiðlum og úr formlegri textum. Það er ekki óeðlilegt að fólk hafi tilhneigingu til að beygja eins og önnur hvorugkynsorð sem enda á hlé, hné, spé og tré. Ég ætla ekki að mæla með því að eignarfallsmyndin fés sé tekin upp í stað fjár en mér finnst hún eðlileg og saklaus – hún á sér margra alda samfellda sögu í málinu og hlýtur að hafa unnið sér hefð við hlið fjár. Það eru engin málspjöll þótt talað sé um að krefjast þjórfés.