Að krefjast þjórfés
Í frétt á mbl.is um helgina stóð „Sjálfsafgreiðsluvélar krefjast þjórfés“. Þarna er um að ræða samsetningu af hvorugkynsorðinu fé og þótt hvorugkynsorð fái venjulega endinguna -s í eignarfalli eintölu er fé undantekning – af sögulegum ástæðum beygist það venjulega óreglulega og er fjár í eignarfalli þannig að þarna hefði mátt búast við myndinni þjórfjár. Það er þó ekki einsdæmi að fé fái reglulega beygingu – elsta dæmi um fés í Ritmálssafni Árnastofnunar er frá 17. öld. Í Íslenzkri málmyndalýsingu eftir Halldór Kr. Friðriksson frá 1861 segir: „fje er […] óreglulegt í eig.eint. er það er þar fjár; þó er myndin fjes til, en miklu óvanalegri.“ Í Islandsk Grammatik Valtýs Guðmundssonar frá 1922 segir: „fje […] (G.Sg. fjár […] og (sj.) fjes.“
Þótt bæði þessi rit telji myndina fés sjaldgæfa er hún nefnd þar án fordæmingar og gömul dæmi um hana má finna á tímarit.is, en hún hefur þó lengi verið talin röng. Í Málfarsbankanum segir: „Fé: Eignarfallið er ekki „fés“, með greini „fésins“, sbr. fjármálaráðherra en ekki „fésmálaráðherra“.“ Þetta vísar til þess að fyrir um 40 árum notaði þáverandi fjármálaráðherra eignarfallsmyndina fés í ræðu og var eftir það uppnefndur fésmálaráðherra. Jón G. Friðjónsson taldi þessa beygingu orðsins fé ótvírætt ranga í Morgunblaðinu 2008 en sagði: „Beyging þess er að ýmsu leyti alveg einstök og því bregður óreglulegum myndum alloft fyrir.“ Gísli Jónsson sýndi notkun myndarinnar fés nokkurn skilning í þætti sínum í Morgunblaðinu 1980 og sagði:
„Hinu er ekki að neita, að orðið fé er býsna sérstakt. Það er eina hvorugkynsorðið í íslensku, þeirra er hafa sterka beygingu, sem ekki endar á s í eignarfalli, er því í sama beygingarflokki og hönd og köttur (u-stofn). Þar af kemur hið sérkennilega eignarfall sem var fé-ar, sbr. hand-ar og katt-ar. Orðmyndin féar breyttist síðar í fjár […]. En mikil vorkunn má það vera fólki að vilja hafa s í eignarfalli þessa orðs, svo sem er í öllum öðrum sterkum hvorugkynsorðum. Mér er nær að halda að orðmyndin fjár hefði alveg glatast og eignarfallið hefði með áhrifsbreytingu orðið fés, ef danska tökuorðið fés í merkingunni andlit (óvirðuleg merking) hefði ekki fyrir guðs miskunn komið í veg fyrir þessa breytingu með tilveru sinni.“
Eignarfallsmyndin fés kemur ekki síður fyrir í samsetningum eins og þjórfés sem vitnað var til í upphafi – á Vísi 2017 segir t.d.: „Vegna þjórfés fá þjónar oftast mun hærri laun en hámenntaðir kokkar.“ Það er athyglisvert hvað hlutfall „röngu“ myndarinnar þjórfés á móti viðurkenndu myndinni þjórfjár er hátt í Risamálheildinni – 11 dæmi á móti 18. Tölurnar eru vissulega ekki háar en þetta þarf ekki að koma á óvart – það er alþekkt að reglulegar beygingarmyndir orða sem annars beygjast óreglulega eru oft notaðar í samsetningum. Sem dæmi má nefna samsetningar með lýsingarorðum sem beygjast óreglulega – í Risamálheildinni eru fleiri dæmi um geðvondari en geðverri og dæmi eru um geðillari, viðskotaillri, geðgóðari, vongóðari o.fl.
Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Eignarfallsmyndin fés er röng en henni bregður stöku sinnum fyrir í stað fjár.“ Þannig hefur það alla tíð verið og er enn – alla 20. öldina má finna dæmi um fés á stangli á tímarit.is og nokkuð af dæmum frá þessari öld er í Risamálheildinni, bæði af samfélagsmiðlum og úr formlegri textum. Það er ekki óeðlilegt að fólk hafi tilhneigingu til að beygja fé eins og önnur hvorugkynsorð sem enda á -é – hlé, hné, spé og tré. Ég ætla ekki að mæla með því að eignarfallsmyndin fés sé tekin upp í stað fjár en mér finnst hún eðlileg og saklaus – hún á sér margra alda samfellda sögu í málinu og hlýtur að hafa unnið sér hefð við hlið fjár. Það eru engin málspjöll þótt talað sé um að krefjast þjórfés.