Viljum við láta kalla okkur vansköpuð?

Fjöldi íslenskra orða byrjar á van-. Í Íslenskri orðsifjabók segir að þetta sé „alg[engur] forliður neikvæðrar merkingar“ og í Íslenskri nútímamálsorðabók segirvan- sé „fyrri liður samsetninga sem táknar vöntun eða neitun“. Í Íslenskri orðabók er merking forskeytisins brotin upp í tvennt – 'ekki nóg, ófullnægjandi' eins og í vanhirða, vanhæfur, vanefndir, vanræksla, vannærður, vansvefta, vanborga, vanþakka; og 'mis-, rang-, illa' eins og í vansköpun, vanvirða, vanskapaður, vansæmandi, vanhelga, vanprýða. Það sem hér vekur athygli og skiptir máli er sú neikvæða ára sem er yfir flestum þessum orðum – þau fela ekki eingöngu í sér vöntun eða neitun, heldur hafa á sér neikvæðan blæ og lýsa jafnvel stundum skömm eða fyrirlitningu.

Eitt þeirra orða sem þarna eru nefnd er lýsingarorðið vanskapaður sem skýrt er 'með (sýnilegan) fæðingargalla' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'ekki rétt skapaður, með skakkt eða óeðlilegt sköpulag' í Íslenskri orðabók. Það er gamalt í málinu, kemur fyrir í Guðbrandsbiblíu frá 1584, og hefur lengi verið algengt þótt e.t.v. sé eitthvað að draga úr tíðni þess. Skylt því eru nafnorðin vansköpun sem skýrt er 'afbrigðileg myndun eða þroski tiltekins líkamshluta' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'galli, lýti, vanskapnaður' í Íslenskri orðabók, sem og vanskapningur sem skýrt er 'vanskapað dýr eða maður; afskræmd vera' í Íslenskri nútímamálsorðabók og notað sem samsvörun við enska orðið monster í orðasafninu „Læknisfræði“ í Íðorðabankanum.

Ég fór að hugsa um þetta í tengslum við herferðina „Orðin okkar“ sem Jafnréttisstofa stendur fyrir „til að hvetja fólk til umhugsunar um áhrifamátt orða sinna. Orð geta sært, sundrað og brotið niður en þau geta einnig nært, huggað og sameinað“. Ég veit ekki hvort orðin vanskapaður og vansköpun eru notuð mikið um og við fólk núorðið. Ég vona ekki, en er hræddur um að þau séu stundum notuð til að niðurlægja fólk – „þá ertu vanskapaður hálviti verð ég að seigja“ segir á Hugi.is 2001; „djöfull ertu vanskapaður“ á sama miðli 2002; „ert þú eitthvað vanskapaður í hausnum?“ á sama miðli 2005; „troðið þessu inní vanskapaða hausinn á ykkur“ á Bland.is 2010; „shit, þú ert vansköpuð“ á sama miðli sama ár – og margt fleira.

Ég veit um mann sem fæddist með ákveðna fötlun sem olli honum ýmsum óþægindum og hugarangri. Þegar efnt var til leitar að fegursta orðinu í íslensku fyrir tíu árum sagðist hann ekki vera í vafa um hvaða orð hann myndi velja sem ljótasta orð málsins. Það var lýsingarorðið vanskapaður. Þetta orð heyrði hann stundum notað um sjálfan sig þegar hann var barn og tengir ýmsar óþægilegar minningar við það – sem er ekkert undarlegt í ljósi þess sem sagt er hér að framan um orð af þessu tagi. Auðvitað var ekkert illt á bak við notkun þessa orðs – þetta var bara það orð sem fólk á þessum tíma þekkti og notaði um meðfædda fötlun og vitanlega hvarflaði ekki að neinum að verið væri að meiða barnið með því. Nú vitum við betur.