Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenska í almannarými er öryggismál

Einhver ykkar muna kannski eftir því að fyrir hálfum mánuði setti ég hér inn mynd af miða í strætó sem var einungis á ensku þrátt fyrir að þar væri m.a. að finna mikilvægar öryggisupplýsingar. Ég setti samdægurs ábendingu um þetta inn í þartilgert kerfi hjá Strætó og fékk umsvifalaust sjálfvirkt svar: „Ábendingin hefur verið móttekin og verður send áfram til úrvinnslu við fyrsta tækifæri. Þakka þér fyrir að upplýsa okkur um málsatvik.“ Daginn eftir fékk ég annan póst: „Ábendingin hefur verið send áfram til úrvinnslu. Við leggjum okkur fram um að ljúka úrvinnslu ábendinga eins fljótt og kostur er og upplýsa viðskiptavini þegar úrvinnslu er lokið.“ Þetta vakti vonir um skjóta málsmeðferð en síðan hefur ekkert heyrst.

Nú er sem sé liðinn hálfur mánuður og ég var orðinn úrkula vonar um að fá nokkur svör. Það kom svo sem ekki sérlega á óvart – ég hef áður sent Strætó ábendingar um sama efni án þess að fá svör. En í þetta skipti ákvað ég að skrifa forstjóranum beint með von um einhver viðbrögð. Mér finnst að opinber fyrirtæki eigi ekki að komast upp með svona hegðun – hvorki að hafa öryggisleiðbeiningar eingöngu á ensku né að svara ekki athugasemdum. Forstjórinn má eiga það að hann svaraði mér um hæl og sagði: „Takk fyrir þetta, okkar stefna er að allar leiðbeiningar séu á íslensku. Þetta er nokkuð nýr vagn hjá akstursaðila sem ekur fyrir okkur og munum við skipta þessu út þegar við erum búin að fá úr prentun miða á íslensku.“

Ég svaraði aftur: „Takk fyrir skjót viðbrögð. Mér finnst reyndar dálítið slappt að hafa ekki fengið svona einfalt svar fyrr – þurfið þið ekki að endurskoða skilvirkni ábendingakerfisins? Það er gott að þetta stendur til bóta. En auðvitað ætti vagninn ekki að fara í umferð fyrr en öryggisupplýsingar eru komnar á íslensku – það getur ekki verið mikið mál að prenta svona miða.“ Þótt sjálfsagt sé að þakka að það standi til að bæta úr þessu er samt nauðsynlegt að vekja athygli á því að þarna virðist stjórnendum Strætó hafa verið ljóst að miðinn væri eingöngu á ensku – en vagninn fór samt sem áður í umferð. Það þykir sem sé allt í lagi að vagninn fari í akstur án þess að mikilvægar öryggisleiðbeiningar í honum séu á íslensku.

Þetta hugarfar er því miður alltof algengt. Væntanlega hefði gegnt allt öðru máli ef t.d. þurrkublöð vagnsins hefðu verið slitin – þá hefði vagninn verið tekinn úr akstri meðan þessu væri kippt í lag í stað þess að aka áfram og vona að það ylli ekki slysi þótt útsýni vagnstjórans væri ekki upp á það besta. Í þessu tilviki var um að ræða upplýsingar um það hvernig koma skuli hjólastól fyrir og það getur augljóslega haft alvarlegar afleiðingar ef fólk skilur ekki leiðbeiningarnar og t.d. snýr stólnum öfugt við það sem til er ætlast. Við þurfum að koma stjórnendum fyrirtækja og stofnana í skilning um að íslenska er ekkert aukaatriði sem má bíða – hún er stundum mikilvægt öryggismál, ekki síður en hvers kyns búnaður.

Posted on Færðu inn athugasemd

Það er farið að auðnast

Í Málvöndunarþættinum var nýlega spurt hvort fólk kannaðist við þá merkingu sagnarinnar auðnast sem hún hefur greinilega í setningunni „Þetta er eini skaflinn sem ekki náði að auðnast í hlákunni.“ Nokkrir þátttakendur í umræðunni sögðust kannast við þetta, einkum úr Skaftafellssýslum en einnig úr Dölunum. Notkun lýsingarorðsins auður í þessari merkingu er vitanlega vel þekkt, auð jörð, og nafnorðið auðna er líka til í merkingunni 'ís- eða snjólaus blettur', 'auð jörð'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og í Íslenskri orðabók er einnig nefnt að germyndarsögnin auðna komi fyrir í ópersónulegri notkun, það auðnar, í merkingunni 'snjó (ís) leysir'. Hins vegar er þessa merkingu miðmyndarinnar ekki að finna í orðabókum.

Í Ritmálssafni Árnastofnunar er þó að finna fjögur dæmi um þessa merkingu, það elsta úr Þjóðólfi 1890: „nú aptur blíða og jörð að auðnast.“ Það dæmi er úr fréttum sem blaðinu höfðu verið sendar úr Norður-Múlasýslu, og tvö önnur dæmi frá því upp úr 1970 eru tengd Múlasýslum. Yngsta dæmið er svo frá 1979, úr bókinni Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð Tómasson: „Það er að byrja að auðnast sagði fólk, er auðir blettir tóku að rjúfa fönnina vegna sólbráðar eða hláka.“ Þetta bendir til þess að orðið hafi verið sjaldgæft og því þótt ástæða til að skýra það. Vegna samfalls við sögnina auðnast í merkingunni 'takast' sem er mjög algeng er erfitt að leita að dæmum í rafrænum textum, en þó hef ég fundið nokkur dæmi á tímarit.is.

Í Heimskringlu 1904 segir: „Ef jörð auðnast, þá væri það mikill munur.“ Í Hlín 1949 segir: „Hreindýr hafa verið gestir okkar í kringum túnin í langan tíma, en eru nú held jeg horfin, síðan fór að auðnast.“ Í Tímanum 1951 segir: „Var í gærkveldi farið að auðnast í Blönduhlíð og Lýtingsstaðahreppi, og víða farnir að koma upp rindar.“ Í Veðrinu 1961 segir: „Síðan var éljagangur og snjókoma í þrjá daga með nokkru frosti, en þ. 30. hlýnaði og fór að rigna, svo jörð auðnaðist á ný.“ Í Morgunblaðinu 1973 segir: „Veðráttan hefur verið ákaflega góð upp á síðkastið og það er mikið farið að auðnast.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Í baksýn sést inn Jökuldalinn þar sem sést í kolsvartan sandbakkann sem er fylgifiskur þess þegar jörð auðnast.“

Ég hef fundið fáein dæmi í viðbót, en það síðastnefnda er yngsta dæmi sem ég hef fundið. Nær öll dæmin er hægt að tengja við Múlasýslur þannig að það er ljóst að þessi notkun hefur einkum tíðkast þar og í Skaftafellssýslu. Hún virðist þó alltaf hafa verið sjaldgæf í ritmáli eins og marka má bæði af fæð dæma og af því að hún er ekki gefin í orðabókum. Hins vegar benda undirtektir í umræðu í Málvöndunarþættinum til þess að hún sé enn bærilega lifandi í töluðu máli. Þetta sýnir okkur enn og aftur að orð geta geymst í máli almennings áratugum og öldum saman án þess að komast á prent að ráði. En þetta ætti líka að hvetja okkur til fordómaleysis því að það sýnir vel að ástæðulaust er að afgreiða allt sem við þekkjum ekki sem bull og vitleysu.