Íslenska í almannarými er öryggismál
Einhver ykkar muna kannski eftir því að fyrir hálfum mánuði setti ég hér inn mynd af miða í strætó sem var einungis á ensku þrátt fyrir að þar væri m.a. að finna mikilvægar öryggisupplýsingar. Ég setti samdægurs ábendingu um þetta inn í þartilgert kerfi hjá Strætó og fékk umsvifalaust sjálfvirkt svar: „Ábendingin hefur verið móttekin og verður send áfram til úrvinnslu við fyrsta tækifæri. Þakka þér fyrir að upplýsa okkur um málsatvik.“ Daginn eftir fékk ég annan póst: „Ábendingin hefur verið send áfram til úrvinnslu. Við leggjum okkur fram um að ljúka úrvinnslu ábendinga eins fljótt og kostur er og upplýsa viðskiptavini þegar úrvinnslu er lokið.“ Þetta vakti vonir um skjóta málsmeðferð en síðan hefur ekkert heyrst.
Nú er sem sé liðinn hálfur mánuður og ég var orðinn úrkula vonar um að fá nokkur svör. Það kom svo sem ekki sérlega á óvart – ég hef áður sent Strætó ábendingar um sama efni án þess að fá svör. En í þetta skipti ákvað ég að skrifa forstjóranum beint með von um einhver viðbrögð. Mér finnst að opinber fyrirtæki eigi ekki að komast upp með svona hegðun – hvorki að hafa öryggisleiðbeiningar eingöngu á ensku né að svara ekki athugasemdum. Forstjórinn má eiga það að hann svaraði mér um hæl og sagði: „Takk fyrir þetta, okkar stefna er að allar leiðbeiningar séu á íslensku. Þetta er nokkuð nýr vagn hjá akstursaðila sem ekur fyrir okkur og munum við skipta þessu út þegar við erum búin að fá úr prentun miða á íslensku.“
Ég svaraði aftur: „Takk fyrir skjót viðbrögð. Mér finnst reyndar dálítið slappt að hafa ekki fengið svona einfalt svar fyrr – þurfið þið ekki að endurskoða skilvirkni ábendingakerfisins? Það er gott að þetta stendur til bóta. En auðvitað ætti vagninn ekki að fara í umferð fyrr en öryggisupplýsingar eru komnar á íslensku – það getur ekki verið mikið mál að prenta svona miða.“ Þótt sjálfsagt sé að þakka að það standi til að bæta úr þessu er samt nauðsynlegt að vekja athygli á því að þarna virðist stjórnendum Strætó hafa verið ljóst að miðinn væri eingöngu á ensku – en vagninn fór samt sem áður í umferð. Það þykir sem sé allt í lagi að vagninn fari í akstur án þess að mikilvægar öryggisleiðbeiningar í honum séu á íslensku.
Þetta hugarfar er því miður alltof algengt. Væntanlega hefði gegnt allt öðru máli ef t.d. þurrkublöð vagnsins hefðu verið slitin – þá hefði vagninn verið tekinn úr akstri meðan þessu væri kippt í lag í stað þess að aka áfram og vona að það ylli ekki slysi þótt útsýni vagnstjórans væri ekki upp á það besta. Í þessu tilviki var um að ræða upplýsingar um það hvernig koma skuli hjólastól fyrir og það getur augljóslega haft alvarlegar afleiðingar ef fólk skilur ekki leiðbeiningarnar og t.d. snýr stólnum öfugt við það sem til er ætlast. Við þurfum að koma stjórnendum fyrirtækja og stofnana í skilning um að íslenska er ekkert aukaatriði sem má bíða – hún er stundum mikilvægt öryggismál, ekki síður en hvers kyns búnaður.