Merkir umliggjandi og umlykjandi það sama?
Í dag var hér spurt hvort merkingarmunur væri á lýsingarorðunum umliggjandi og umlykjandi. Bæði orðin enda á -andi og eru því væntanlega upprunnin sem lýsingarháttur nútíðar – það síðarnefnda af sögninni umlykja sem er skýrð 'mynda hring (um e-ð), afmarka (e-ð)' í Íslenskri nútímamálsorðabók, með dæmunum fjöllin umlykja þorpið og sjórinn umlykur eyna. Sögnina umliggja er aftur á móti ekki að finna í orðabókum þótt fáein dæmi séu um hana á tímarit.is sem hugsanlega stafa af misheyrn eða misskilningi. Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Skemmtilegt orð „umliggja“ – þótt það eigi ekki að vera til. Átt mun vera við umlykja en svo skemmtilega vill til að það þýðir einmitt „liggja utan um“. Fagur fjallahringur umlykur sveitina.“
En þótt umliggja sé ekki í orðabókum er umliggjandi í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, skýrt 'omliggende', og fáein dæmi eru um orðið í Ritmálssafni Árnastofnunar, það elsta úr þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu frá 1540. Rúm hundrað dæmi eru um orðið á tímarit.is, það elsta í Heimskringlu 1893: „Eru það því miklir nytsemdarmenn fyrir umliggjandi sveitir, er þessa veiði stunda.“ Í Risamálheildinni eru 50 dæmi um orðið. Þótt umliggjandi geti í fljótu bragði virst vera lýsingarháttur nútíðar af hinni sjaldgæfu sögn umliggja þarf svo ekki að vera. Eins er hugsanlegt, og raunar líklegt í þessu tilviki, að orðið sé myndað af lýsingarhættinum -liggjandi, af liggja, með því að bæta um- fyrir framan hann.
Í eldri dæmum virðist umliggjandi merkja svipað og aðliggjandi sem skýrt er 'sem liggur upp að' í Íslenskri nútímamálsorðabók, með dæminu eigendur aðliggjandi lóða mótmæltu byggingunni. Í Austra 1897 segir: „Þjóðminningardaginn héldu Reykvíkingar og umliggjandi héruð 2. f.m.“ Í Íslendingi 1920 segir: „Gegnir Illugason, einn af beztu fylgismönnum Brands Kolbeinssonar, hefir án efa búið einhversstaðar þar í umliggjandi sveit.“ Þarna ætti umlykjandi í merkingunni ‚liggja utan um‘ tæpast við. Í mörgum dæmum virðist þó einu gilda hvort notað er umliggjandi eða umlykjandi, t.d í Nýja dagblaðinu 1938: „Um sömu mundir var tekið að reisa mikið af nýhýsum með umliggjandi görðum utanvert við borgina.“
Mér finnst ekki ástæða til að efast um að umliggjandi og umlykjandi hafi upphaflega haft svolítið mismunandi merkingu, en í seinni tíð er trúlegt að munurinn hafi að mestu eða öllu leyti máðst út. Í umræðunum var bent á að enginn munur er á framburði þessara tveggja orða (miðað við venjulegan framburð með ófráblásnu k í umlykja) því að sá lengdarmunur sem kann að vera á áherslusérhljóðinu (i/y) í sögnunum liggja og lykja hverfur þegar atkvæði (um-) er bætt framan við og sérhljóðið er ekki lengur í fyrsta atkvæði. Þar sem bæði liggja og lykja eru merkingarlega eðlilegar er ekkert undarlegt að orðin blandist saman þótt vissulega væri æskilegt að halda í þann merkingarmun sem upphaflega virðist hafa verið á þeim.