Posted on Færðu inn athugasemd

Ef þörf kræfi

Í dag sá ég sagnmyndina kræfist í frétt á vefmiðli: „Selenskí hafði áður sagt að hann myndi ekki undirrita lögin nema nauðsyn kræfist.“ Þarna er vissulega venja að nota myndina krefðist en kræfist er þó ekki einsdæmi. Elsta dæmið sem ég finn á tímarit.is er í Ísafold 1904: „eg aftalaði það strax daginn eftir, þó gegn því að greiða Jóni Helgasyni af mínum hálfparti […] ef hann kræfist þess.“ Í Munin 1936 segir: „Þetta gæti stafað af því, að námið kræfist slíks.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Mönnum hefir verið sagt að málið væri undirbúið og kræfist framkvæmda.“ En þetta er ekki bundið við miðmynd sagnarinnar krefja – dæmin um kræfi í stað krefði í germynd eru mun fleiri, einkum í samböndunum nauðsyn kræfi og þörf kræfi.

Í ræðu á Alþingi 1911 segir: „Og mundi hún ekki verða notuð, nema ef nauðsyn kræfi.“ Lesbók Morgunblaðsins 1929 segir: „verða þar sæti fyrir 80 áheyrendur, en koma mætti um 100 fyrir, ef nauðsyn kræfi.“ Í Rétti 1938 segir: „Varðliðið var aukið og gefin út skipun um að skjóta á fólkið, ef þörf kræfi.“ Í Fréttablaðinu 2009 segir: „Hraða átti vinnu ráðherranefndar og gera tillögur í samráði við aðila vinnumarkaðarins um viðbótarúrræði ef þörf kræfi.“ Í héraðsdómi frá 2011 segir: „Skyldi gera tímasetta áætlun um framkvæmd úrbóta ef þörf kræfi.“ Alls er á annað hundrað dæma um myndir með kræf- í stað krefð- á tímarit.is og í Risamálheildinni eru dæmin um 100, þar af um 60 í samböndunum nauðsyn kræfi eða þörf kræfi.

Það er nokkuð augljóst að þessi beyging sagnarinnar krefja er tilkomin fyrir áhrif frá beygingu sagna eins og gefa, hefja og sofa. Til (ég) gef svarar (þótt ég) gæfi, til (ég) hef svarar (þótt ég) hæfi, til (ég) sef svarar (þótt ég) svæfi, þannig að það liggur beint við að álykta að til (ég) kref svari (þótt ég) kræfi. Við það bætist að til er í málinu lýsingarorðið kræfur í merkingunni ‚sem unnt er að krefjast‘, sbr. afturkræfur, endurkræfur o.fl. Þetta orð „gæti verið ísl. nýmyndun af krefja til samræmis við hefja: hæfur, skafa: skæfur o.fl.“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Svipaðar áhrifsbreytingar eru ótalmargar í beygingu sagna og annarra beygjanlegra orða í málinu, margar hverjar fullkomlega viðurkenndar. Þessi breyting er það ekki, en er eðlileg og saklaus.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mál og mannréttindi

Ég var í Eistlandi um páskana og hef verið að hugsa dálítið um samanburð á eistneska málsamfélaginu og því íslenska. Eistneska og íslenska eru óskyld tungumál en eiga það sameiginlegt að vera smáþjóðamál – þótt u.þ.b. þrisvar sinnum fleiri eigi eistnesku að móðurmáli en íslensku er eistneska málsamfélagið samt eitt það minnsta í Evrópu. Eistnesk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á verndun og eflingu eistneskunnar og m.a. sett lög sem taka til bæði opinberra aðila og einkaaðila og kveða á um eflingu og notkun eistnesku á öllum sviðum, t.d. í heitum staða og fyrirtækja, á hvers kyns skiltum, í auglýsingum og upplýsingum um vörur, í sjónvarps- og útvarpsefni, á vefsíðum o.fl. Mér sýnist að þessu sé fylgt fast eftir.

Lagasetning um notkun þjóðtungna eins og íslensku og eistnesku hefur það markmið að stuðla að notkun málanna á öllum sviðum samfélagsins og styrkja þau gagnvart ásókn erlendra tungumála. Það er eðlilegt og göfugt markmið – tungumálið er mikilvægur hluti af sjálfsmynd einstaklinga og menningu þjóðarinnar. Sérhvert tungumál er hluti af sameiginlegum menningararfi mannkyns sem æskilegt er að varðveita og smáþjóðatungumál eins og íslenska og eistneska eru í sérlega viðkvæmri stöðu vegna þess að þau nýtast hvergi utan heimalandsins. Við lagasetningu sem á að tryggja hagsmuni eins opinbers tungumáls verður hins vegar að gæta þess vel að ekki sé gengið óeðlilega á rétt þeirra sem tala önnur tungumál.

Í Eistlandi er stór rússneskumælandi minnihluti, u.þ.b. fjórðungur íbúa landsins – hluti þeirra afkomendur fólks sem var flutt til Eistlands á Sovéttímanum. Það sem gerir málið sérstaklega viðkvæmt er að rússneska er mál stórþjóðarinnar sem var löngum herraþjóð í Eistlandi – í rúm tvö hundruð ár fram til 1918 og aftur í nærri hálfa öld frá seinni heimsstyrjöldinni, og ógn frá Rússlandi vofir vitanlega enn yfir. Þess vegna er mjög eðlilegt að eistnesk stjórnvöld vilji efla eistnesku og draga úr notkun rússnesku í landinu – rússneskan tengist svo mörgu óþægilegu í sögu landsins og minnir á rússnesk yfirráð og kúgun. Við getum auðvitað tengt þetta við Danahatur og andúð á dönsku hér á landi þótt slíkt sé blessunarlega liðin tíð.

Lagasetning til styrktar eistneskunni leiðir óhjákvæmilega til þess að málleg réttindi þeirra sem eiga hana að móðurmáli verða mun meiri en réttindi þeirra sem eiga rússnesku að móðurmáli. Í ljósi þess að eistneskan er þjóðtunga og móðurmál mikils meirihluta þjóðarinnar er það ekki óeðlilegt, en spurningin er samt sú hvort stundum sé of langt gengið – hvort gengið sé á eðlileg og sjálfsögð mannréttindi hins rússneskumælandi minnihluta. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur lýst áhyggjum sínum af því að svo kunni stundum að vera en þetta er álitamál sem ég skal ekki dæma um. Hvað sem því líður er ljóst að þarna geta orðið ýmsir árekstrar milli réttinda þjóðtungunnar annars vegar og mannréttinda borgaranna hins vegar.

Staðan á Íslandi er vitanlega allt önnur en í Eistlandi. Hér hafa ekki verið nein minnihlutamál – til skamms tíma höfðu nánast allir íbúar landsins íslensku að móðurmáli og engin þörf var á að taka tillit til annarra tungumála enda er ekki vikið að stöðu annarra mála en íslensku og íslensks táknmáls í Lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011. Öfugt við eistnesku lögin taka þau eingöngu til opinberra aðila en ekki einkaaðila, og að auki hefur þeim verið mjög slælega framfylgt. Vegna þessa hefur enska getað orðið sífellt meira áberandi í almannarýminu á undanförnum árum, bæði í raunheimi og stafrænum heimi, án þess að verulega hafi verið spornað við því – stjórnvöld og almenningur hafa látið það viðgangast.

Þetta sinnuleysi hefur leitt til þess að enskan hefur unnið sér eins konar hefðarrétt – það er mjög erfitt að snúa til baka og hverfa frá þessari miklu enskunotkun án þess að það hafi margvíslegar afleiðingar. Fólk hefur flust hingað og búið hér árum saman án þess að til þess hafi verið gerðar kröfur um íslenskukunnáttu – hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúum landsins nálgast 20% og á án efa eftir að hækka, og verulegur hluti þessa fólks talar ekki íslensku. Þess vegna væri umdeilanlegt að setja mjög takmarkandi reglur um enskunotkun fyrirvaralaust – það mætti segja að þar væri komið aftan að fólki. Því fara að vakna spurningar um málleg réttindi þeirra sem eiga annað móðurmál en íslensku – er tími til kominn að kveða á um þau í lögum?

Að mínu mati skiptir meginmáli í þessu hvaða skilyrði við búum fólki sem hingað kemur til að læra íslensku. Ef íslenska á áfram að standa undir nafni sem þjóðtunga þurfum við að leggja megináherslu á að fólk sem sest hér að læri málið, sjá því fyrir ókeypis íslenskunámskeiðum, gera því kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma og flétta það saman við starf sitt, og vera jákvæð og hvetjandi gagnvart ófullkominni íslensku. En ef við sinnum þessu ekki leiðir það til þess að sífellt stærri hluti íbúanna verður ekki íslenskumælandi, og þá hlýtur að koma að því að við verðum að veita öðrum tungumálum en íslensku meiri réttindi í samfélaginu en þau hafa nú. Annað væri beinlínis bæði andstætt mannréttindum og hættulegt lýðræðinu.