Ef þörf kræfi
Í dag sá ég sagnmyndina kræfist í frétt á vefmiðli: „Selenskí hafði áður sagt að hann myndi ekki undirrita lögin nema nauðsyn kræfist.“ Þarna er vissulega venja að nota myndina krefðist en kræfist er þó ekki einsdæmi. Elsta dæmið sem ég finn á tímarit.is er í Ísafold 1904: „eg aftalaði það strax daginn eftir, þó gegn því að greiða Jóni Helgasyni af mínum hálfparti […] ef hann kræfist þess.“ Í Munin 1936 segir: „Þetta gæti stafað af því, að námið kræfist slíks.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Mönnum hefir verið sagt að málið væri undirbúið og kræfist framkvæmda.“ En þetta er ekki bundið við miðmynd sagnarinnar krefja – dæmin um kræfi í stað krefði í germynd eru mun fleiri, einkum í samböndunum nauðsyn kræfi og þörf kræfi.
Í ræðu á Alþingi 1911 segir: „Og mundi hún ekki verða notuð, nema ef nauðsyn kræfi.“ Lesbók Morgunblaðsins 1929 segir: „verða þar sæti fyrir 80 áheyrendur, en koma mætti um 100 fyrir, ef nauðsyn kræfi.“ Í Rétti 1938 segir: „Varðliðið var aukið og gefin út skipun um að skjóta á fólkið, ef þörf kræfi.“ Í Fréttablaðinu 2009 segir: „Hraða átti vinnu ráðherranefndar og gera tillögur í samráði við aðila vinnumarkaðarins um viðbótarúrræði ef þörf kræfi.“ Í héraðsdómi frá 2011 segir: „Skyldi gera tímasetta áætlun um framkvæmd úrbóta ef þörf kræfi.“ Alls er á annað hundrað dæma um myndir með kræf- í stað krefð- á tímarit.is og í Risamálheildinni eru dæmin um 100, þar af um 60 í samböndunum nauðsyn kræfi eða þörf kræfi.
Það er nokkuð augljóst að þessi beyging sagnarinnar krefja er tilkomin fyrir áhrif frá beygingu sagna eins og gefa, hefja og sofa. Til (ég) gef svarar (þótt ég) gæfi, til (ég) hef svarar (þótt ég) hæfi, til (ég) sef svarar (þótt ég) svæfi, þannig að það liggur beint við að álykta að til (ég) kref svari (þótt ég) kræfi. Við það bætist að til er í málinu lýsingarorðið kræfur í merkingunni ‚sem unnt er að krefjast‘, sbr. afturkræfur, endurkræfur o.fl. Þetta orð „gæti verið ísl. nýmyndun af krefja til samræmis við hefja: hæfur, skafa: skæfur o.fl.“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Svipaðar áhrifsbreytingar eru ótalmargar í beygingu sagna og annarra beygjanlegra orða í málinu, margar hverjar fullkomlega viðurkenndar. Þessi breyting er það ekki, en er eðlileg og saklaus.