Íslenska – tvítyngi – fjöltyngi
Ég var að koma af sérlega áhugaverðu málþingi með ofangreindu heiti, og undirtitlinum „Hlutverk og ábyrgð skólans í íslenskukennslu“. Þar voru flutt mjög fróðleg erindi þar sem m.a. var staðfest það sem ég hef oft skrifað um hér: Það er mikil ástæða til að hafa áhyggjur af börnum af erlendum uppruna sem alast upp á Íslandi um þessar mundir. Til að eiga jafna möguleika og börn íslenskra foreldra verða þau að ná góðu valdi á íslensku, og til að það gerist þurfa þau að vera í íslensku málumhverfi a.m.k. 40% vökutímans. En mikil enska í málumhverfi unglinga á Íslandi skerðir tíma íslenskunnar svo mikið að þrátt fyrir að skólamálið sé íslenska ná mörg börn og unglingar þar sem heimilismál er annað en íslenska ekki þessu viðmiði.
Þetta er grafalvarlegt mál vegna þess að það þýðir að sum börn og unglingar ná ekki móðurmálsfærni í neinu tungumáli. Ekki heimilismálinu, ekki ensku, og ekki íslensku – ekkert málanna nær því að vera í málumhverfi þeirra 40% vökutímans. Móðurmálsfærnin er forsenda fyrir árangri og velgengni á svo mörgum sviðum – hún skiptir máli fyrir rökhugsun, tilfinningagreind, félagsþroska, jafnvel verkgreind og fleira. Ef við sjáum ekki til þess að börn og unglingar nái nægilegri færni í íslensku erum við að svipta þau tækifærum til virkrar þátttöku og áhrifa í samfélaginu og dæma þau til láglaunastarfa – búa til lágstétt sem þau eru föst í og eiga enga möguleika á að komast upp úr. Það er vont fyrir fólkið, samfélagið – og íslenskuna.
En það eru ekki bara börn af erlendum uppruna sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Ég var að tala við leikskólakennara sem sagði mér að að á yngstu deildum leikskólanna væri meginhluti starfsfólksins stundum fólk sem kynni sáralitla íslensku. Það væru vissulega reglur um það hversu hátt hlutfall starfsfólks þyrfti að vera íslenskumælandi en eftir þeim reglum væri oft ekki farið vegna þess að íslenskumælandi starfsfólk fengist ekki. Hæfni til leikskólastarfa fer vitanlega ekki eftir móðurmáli fólks og þetta getur verið frábært starfsfólk þótt það tali ekki mikla íslensku. En þarna eru börn á mikilvægasta skeiði máltökunnar þar sem skiptir máli að þau séu á kafi í íslensku málumhverfi og það sé talað sem mest við þau á íslensku.
Á þessu sviði verðum við að taka okkur á svo um munar. Það þarf að sinna börnum af erlendum uppruna miklu betur. Ég efast ekki um að kennarar geri sitt besta en þeir eru undir alltof miklu álagi eins og kom vel fram í Kastljósi í gær. Í aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu sem nú liggur fyrir Alþingi og verður vonandi samþykkt í vor eru ýmsar góðar aðgerðir á þessu sviði en til að hrinda þeim í framkvæmd þarf fé – mikið fé – og í fjármálaáætlun næstu fimm ára sem lögð var fram í gær er ekki að sjá neinar vísbendingar um að það fé sé væntanlegt. Við þurfum líka að gera átak í að hækka hlutfall leikskólakennara og stórbæta kjör leikskólastarfsfólks þannig að unnt sé að fara eftir reglum um hlutfall íslenskumælandi starfsfólks.
Þetta málþing var vel sótt – mér sýndust vera um 80 í ráðstefnusalnum í Grósku og það var sagt að 200 manns fylgdust með í streymi. En mér fannst samsetning þátttakenda mjög athyglisverð. Ég held að það hafi verið einn karlmaður í salnum fyrir utan mig – mál af þessu tagi virðast enn vera álitin viðfangsefni kvenna sem karlmenn ómaka sig ekki við að sinna. Ég saknaði líka áhrifafólks af ýmsum sviðum – mennta- og barnamálaráðherra ávarpaði málþingið í upphafi en þurfti svo að sinna mikilvægari málum (hver sem þau gætu verið). Í hópi áheyrenda sá ég engan alþingismann, engan borgarfulltrúa, enga háskólakennara, o.s.frv. En vitanlega má vera að þetta fólk hafi allt verið að fylgjast með í streymi – ég vona það, því að þetta er svo mikilvægt mál.