Á brattan(n) að sækja
Um daginn var spurt hér út í nafnorðið bratti sem fyrirspyrjandi taldi hafa vikið fyrir orðinu brekka. Í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér samböndum eins og leggja á brattann, halda á brattann, leita á brattann, sækja á brattann sem er tekið sem dæmi í Íslenskri stafsetningarorðabók, og fleiri svipuðum. Sambandið eiga á brattann að sækja er gefið í Íslenskri nútímamálsorðabók í merkingunni 'lenda í erfiðleikum, mæta mótstöðu'. Jón G. Friðjónsson tilfærir það einnig í Merg málsins og segir það vera „kunnugt frá síðari hluta 20. aldar.“ Um uppruna sambandsins segir Jón: „Líkingin er trúlega dregin af fjallgöngu fremur en um sé að ræða liðfellt orðasamband þar sem brattan standi sem kk.et.þf. af lo. brattur.“
Sambandið er reyndar eldra en Jón telur – elsta dæmi sem ég finn er í Lögbergi 1909: „Þess vegna langar oss nú til þess, að gera bug á leiðina, fara að leita á brattann og reyna að komast ögn áleiðis upp eftir hæðum lífsins.“ Í Skírni 1913 segir: „Hann er þá ekki einn af þeim sem sækja á brattann og lyfta mannkyninu á hærra stig.“ Í Austurlandi 1920 segir: „Og hann lagði af stað, lagði á brattann í áttina þangað, sem loftið er hreint og heilnæmt og himininn heiður og víðfeðmur.“ Gömul dæmi um brattan má líka finna – í Þjóðólfi 1919 segir: „manninn, sem sótti á brattan í hljóði og hætti þeirri sókn ekki fyr en hann hafði komist upp.“ Í Sunnudagsblaðinu 1926 segir: „Var því á brattan að sækja og margan örðugan hjalla yfir að klífa.“
Alls eru rúm 500 dæmi um á brattan að sækja á tímarit.is, á móti rúmlega 4.500 um á brattann að sækja. Í Risamálheildinni eru hlutföllin svipuð – rúm 400 dæmi um brattan á móti rúmlega 3.400 um brattann. Við þetta bætast svo dæmi um leggja / halda / leita / sækja á brattan(n). Þetta þýðir samt ekki endilega að þau sem skrifa brattan séu í öllum tilvikum að nota lýsingarorð. Líklegt er að stundum telji fólk sig í raun vera að nota nafnorðið bratti en riti það ranglega með einu n-i í stað tveimur – ruglingur á einu og tveimur n-um í endingu er algengasta stafsetningarvillan sem fólk gerir. Eins er vitanlega hugsanlegt að þetta verki í hina áttina – í einhverjum tilvikum skrifi fólk brattann þótt það telji sig vera að nota lýsingarorðið brattur.
Hvað sem þessu líður er ljóst að engar líkur eru á að öll dæmi um brattan með einu n-i séu villur – greinilegt er að mörg skynja þetta sem lýsingarorð með undirskildu nafnorði sem gæti t.d. verið vegur án þess að endilega þurfi að vera hægt að hugsa sér tiltekið nafnorð. Það eru auðvitað ýmis fordæmi fyrir því að lýsingarorð séu notuð á þennan hátt – nefna má dæmið fá sér einn gráan í merkingunni 'fá sér í glas' þar sem ekki er heldur ljóst hvaða nafnorð er undirskilið. Ótvíræð nafnorðsdæmi eru eldri, þótt ekki muni miklu, og ekki ótrúlegt að það sé rétt hjá Jóni G. Friðjónssyni að sá sé uppruni sambandsins. Ekkert mælir þó gegn því að greina brattan sem lýsingarorð og því hlýtur að teljast rétt að skrifa það með hvort heldur n eða nn.