Skýr skilaboð um áhugaleysi ríkisstjórnarinnar
Fyrir rúmri viku vakti ég hér athygli á sakleysislegri fréttatilkynningu sem birtist á vef Stjórnarráðsins sama dag og greindi frá því að nokkrar ráðherranefndir hefðu verið lagðar niður, m.a. sérstök ráðherranefnd um íslenska tungu sem stofnuð var fyrir hálfu öðru ári og var m.a. ætlað að „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. Ég taldi þetta bera vott um minnkandi áhuga ríkisstjórnarinnar á íslenskri tungu. Þá brá svo við að forsætisráðherra blandaði sér í umræðuna og taldi þarna „dregnar miklar ályktanir af litlu tilefni“. Það er vitanlega ánægjuefni að forsætisráðherra taki þátt í umræðu um þessi mál þótt vissulega megi spyrja hvort hann hafi ekki mikilvægari málum að sinna en karpa á Facebook.
Forsætisráðherra sagði að því færi fjarri að niðurlagning ráðherranefndarinnar táknaði einhverja stefnubreytingu í málefnum íslenskunnar: „[S]taðreynd málsins er að allar ráðherranefndir falla niður við það að ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur fékk lausn. Við vorum að ákveða fyrir nýja ríkisstjórn hvaða ráðherranefndir myndu starfa. Fyrir utan þrjár lögboðnar var ákveðið að starfrækja ráðherranefnd um loftslagsmál og aðra um samræmingu mála. Í þessari síðarnefndu sé ég fyrir mér að við ræðum ýmis mál, m.a. mál íslenskrar tungu. Hin sérstaka ráðherranefnd um íslenska tungu hafði ef ég man rétt komið saman í fjögur skipti. Það eru engin þau straumhvörf að verða sem umræða á þessum þræði gefur til kynna. Bara alls ekki.“
Í grein sem Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra skrifaði í Vísi á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2022 segir: „Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin sett íslenskuna í öndvegi með fjölþættum aðgerðum. […] Í núverandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er áfram lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu. […] Í vikunni raungerðist ein varða á þeirri vegferð þegar að ný ráðherranefnd um íslenska tungu var sett á laggirnar.“ Það er því alveg ljóst að stofnun ráðherranefndarinnar átti að senda þau skilaboð til þjóðarinnar að ríkisstjórnin hygðist leggja aukna áherslu á málefni íslenskunnar. Þess vegna er óhjákvæmilegt að túlka niðurlagningu nefndarinnar sem skilaboð um að þessi áhersla sé ekki lengur fyrir hendi.
En það var fleira athyglisvert í því sem forsætisráðherra skrifaði á áðurnefndum þræði. Hann sagðist vilja vekja athygli á því „að samhliða heildrænni nálgun á málefni útlendinga, sem kynnt var nýlega, var tryggt fjármagn í fjármálaáætlun sem getur gagnast í íslenskukennslu“. Þarna er vísað í það að í fjármálaáætlun segir: „Þá er alls gert ráð fyrir að 2,2 ma.kr. verði varið á fyrstu tveimur árum áætlunarinnar til að fylgja eftir aðgerðum sem ríkisstjórnin sammæltist um í málefnum útlendinga.“ Í umræddri aðgerðaáætlun er vissulega talað um að stórauka framboð af íslenskunámi, innleiða hvata til íslenskunáms, tryggja rétt innflytjenda til íslenskunáms og draga úr kostnaðarþátttöku þeirra, og auka aðgengi að starfstengdu íslenskunámi á vinnutíma.
Þetta er allt saman gott og blessað, en ég vek athygli á því að forsætisráðherra segir að þarna sé fé „sem getur gagnast í íslenskukennslu“ – ekki „sem verja skal til íslenskukennslu“. Það táknar auðvitað að ekkert fé er eyrnamerkt íslenskukennslu og megnið af því sem ætlað er til þessarar aðgerðaáætlunar gæti þess vegna farið í einhver önnur brýn úrlausnarefni á þessu sviði. Af þeim er nefnilega nóg eins og fram kemur í áætluninni þar sem talin eru upp mörg mjög fjárfrek verkefni. Eftir stendur því að þrátt fyrir fullyrðingar forsætisráðherra um annað sendir niðurlagning ráðherranefndar um íslenska tungu skýr skilaboð um áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á málinu, og engin aukning á fé til kennslu íslensku sem annars máls hefur verið tryggð.