Það er ekkert rúm fyrir stærra rúmm

Í umræðum hér í dag um orðið fram bar framburð orðsins rúm á góma en þekkt er að það er oft borið fram með stuttu sérhljóði, rúmm. Ég veit ekki hversu gamall sá framburður er, en vísbendingar um hann má finna a.m.k. frá byrjun 20. aldar. Í Ísafold 1902 segir: „Herbergi með rúmmi og húsgögnum óskast til leigu nú þegar.“ Í Stefni 1903 segir: „Í svefnherberginu á að minnsta kosti einn gluggi að vera opinn nótt og dag, og láttu rúmmið standa á miðju gólfi.“ Í Íslendingi 1923 segir: „Hann lét leggja talsíma inn að rúmmi sínu.“ Í Nýjum kvöldvökum 1927 segir: „Kvað hann mig þurfa að halda kyrru fyrir, helst að liggja í rúmminu nokkra daga.“ Í Bræðrabandinu 1931 segir: „Því næst fór hún upp í rúmmið aftur og í sömu stellingar og fyr.“

Í Þjóðviljanum 1960 segir Árni Böðvarsson: „Og í orðinu rúm bera Norðlendingar fram stutt ú og langt m, eins og ritað væri rúmm. Það gera Sunnlendingar ekki.“ Og Árni bætir við: „Fyrir nokkrum áratugum var farið að nota orðmyndina gúm í stað gúmmí, og þótti hún fara betur í íslenzku. Sigurður Nordal prófessor hefur sagt mér að fyrir þeim mönnum sem vöktu þessa orðmynd til lífs hafi það vakað að hún yrði borin fram gúmm, alveg eins og Norðlendingar segja rúmm, þegar flestir aðrir landsmenn segja rúm (með löngu ú-i).“ Þótt ég sé Norðlendingur og hafi verið á máltökuskeiði þegar þetta var skrifað kannast ég ekki við framburðinn rúmm að norðan, en auðvitað gæti hann hafa þekkst annars staðar en í Skagafirði.

Ég hef hins vegar oft heyrt þennan framburð hér í Reykjavík og hann er mjög algengur í nútímamáli – í  Risamálheildinni eru a.m.k. þrjú þúsund dæmi um mm í beygingarmyndum orðsins rúm. En eins og lýst er Íslenskri nútímamálsorðabók hefur orðið ólíkar merkingar –'langt húsgagn með dýnu til að sofa í; pláss, rými; sá hluti tilverunnar sem menn skynja að hægt er að hreyfast í (á alla vegu), vídd' – og í umræðu um þetta kom Ásgeir Berg Matthíasson með góða ábendingu: „Ég tel mig bera „rúm“ fram mismunandi eftir því hver merkingin er. Allavega finnst mér eðlilegt að segja „rúmm“ þegar merkingin er sérstakt húsgagn sem sofið er á og „rúm“ í öðrum merkingum (t.d. „Skv. afstæðiskenningunni eru tími og rúm óaðskiljanleg“).“

Axel Kristinsson bætti svo við: „Einmitt. Orðið er þannig að skiptast í tvö orð með mismunandi merkingu og framburði en stafsetningin hangir í hefðinni og verður þannig óskýrari en talmálið.“ Ég nota ekki framburðinn rúmm og hef enga tilfinningu fyrir þessu en lausleg athugun í Risamálheildinni bendir til þess að fleiri hafi þá tilfinningu að rúmm sé aðeins notað um 'húsgagn til að sofa á' en ekki í öðrum merkingum orðsins. Þannig eru nánast engin dæmi með tveimur m-um í samböndunum tími og rúm eða rúm og tími, og ekki heldur í samböndum eins og rúm fyrir eitthvað. Þetta þyrfti vissulega að skoða miklu nánar, en það er mjög athyglisvert ef orðið rúm er þannig að klofna í tvennt eftir merkingu.