Maður og kona

Árið 1876 kom út skáldsagan Maður og kona eftir Jón Thoroddsen. Það er ljóst að sá titill hefði ekki verið notaður nema hefð væri komin á að nota orðin maður og kona sem andstæður á þennan hátt, og frá seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20. má nefna nokkur dæmi sem sýna að hinn venjulegi skilningur á orðinu maður (í vísun til einstaklinga) var sá að það merkti 'karlmaður'. Árið 1863 fékk Vilhelmína nokkur Lever að kjósa í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri. Hún var fyrst íslenskra kvenna til að kjósa til sveitarstjórnar, allnokkrum árum áður en konur fengu þann rétt samkvæmt lögum. Talið er að þátttaka hennar í kosningunum hafi byggst á rangri þýðingu á reglugerð um kosningarnar, sem var frumsamin á dönsku.

Í íslensku þýðingunni sagði: „Kosningarétt hafa […] allir fullmyndugir menn, sem ekki eru öðrum háðir sem hjú, og hafa verið búfastir í kaupstaðnum síðasta árið, þegar þeir að minnsta kosti borga 2 ríkisdali í bæjar­gjöld á ári.“ Í danska frumtextanum stendur „Mænd“ sem þýtt var menn á íslensku – en mænd á dönsku þýðir 'karlmenn'. Þetta sýnir að fyrir flestum hafði íslenska orðið menn sömu merkingu, það er 'karl­menn'. Ekki er ólíklegt að Vilhelmína hafi farið fram á að fá að kjósa, með þeim rökum að konur væru líka menn, og að athuguðu máli hafi ekki þótt fært að neita því. En þetta bendir til þess að það hafi ekki hvarflað að þeim sem þýddu danskan texta reglugerðarinnar að menn gæti náð til kvenna.

Annað dæmi frá svipuðum tíma um venjulegan skilning á orðinu maður er úr upphaflegri gerð stjórnarskrár Íslands, þeirri sem Kristján níundi færði okkur 1874 þegar hann kom „með frelsisskrá í föðurhendi“ eins og Matthías Jochumsson orti. Þar er orðið maður, í ýmsum beygingarmyndum, notað samtals þrettán sinnum. Það er hins vegar athyglisvert að í engu þessara dæma er notað samsvarandi nafnorð í dönskum frumtexta stjórnarskrárinnar. Þar er oft óákveðið fornafn eða ábendingarfornafn í staðinn (Ingen, en Anden, Enhver, den), eða annað nafnorð (Borgerne). Stundum er setningagerðin líka önnur þannig að maður kemur ekki í stað neins eins orð í danska textanum. Því fer sem sagt fjarri að þýðingin sé orðrétt.

Í öllum dæmum um orðið maður liggur beint við að álykta að það hafi almenna merkingu, vísi bæði til karla og kvenna, eins og það gerir venjulega í íslensku lagamáli. En það er athyglisvert að orðið skuli notað í 57. grein, „Sérhver vopnfær maður er skyldur að taka sjálfur þátt í vörn landsins“ (leturbreyting mín), því að í danska textanum stendur „Enhver vaabenfør Mand“. Á þessum tíma var örugglega ekki gert ráð fyrir því að konur gripu til vopna og þess vegna er eðlilegt að Mand sé notað í frumtextanum, en að það skuli þýtt með maður sýnir að hinn almenni skilningur Íslendinga á því orði var að það merkti 'karlmaður'. Það verður því ekki betur séð en orðið maður sé notað í tveimur mismunandi merkingum í stjórnarskránni 1874.

Þriðja dæmið sem sýnir hið sama er úr Kvennablaði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur frá 1916 en þar segir: „Úr því minst er á fjárlögin, má geta þess, að á þeim er meðal annars veittur 4000 kr. styrkur hvort fjárhagsárið handa „ungum efnilegum mönnum til verklegs náms erlendis“. Samkvæmt íslenzkri málvenju eru konur líka menn, og gætu því „efnilegir ungir kvenmenn sótt um styrk af þessu fé til verklegs náms erlendis“. Ekki veitti þeim síður af styrknum. Fróðlegt væri að vita, hverju landsstjórnin svaraði slíkri umsókn.“ Það er aug­ljóst að höfundur telur þetta enga „málvenju“ – orðalagi fjárlaganna hafi ekki verið ætlað að ná til kvenna, og það muni koma flatt upp á stjórnvöld ef konur sækja um styrkinn með vísan til þess að þær séu menn.

Hér ber allt að sama brunni – merking orðsins maður á þessum tíma var ʻkarlmaðurʼ og hin almenna merking 'karlar og konur' víðsfjarri í huga flestra málnotenda. Í athugun Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur á sögukennslubókum frá fyrri hluta 20. aldar í Sögu 1996 kemur líka fram að orðið menn vísar þar langoftast eingöngu til karlmanna. Þótt Ugla í Atómstöð Halldórs Laxness frá 1948 segði „Ég vil kaupa mér kápu fyrir þá penínga sem ég hef unnið mér inn af því ég er maður“ og „Og konur eru líka menn“ sé haft eftir Laufeyju Valdimarsdóttur, kvenréttindakonu og dóttur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, var það ekki fyrr en með Rauðsokkunum kringum 1970 sem vígorðið „konur eru líka menn“ var sett á oddinn.