– eða þannig (sko)

Eitt gagnlegasta orðasamband málsins er eða þannig. Þetta orðasamband er mjög algengt í nútímamáli – hátt í fjögur þúsund dæmi eru um það í Risamálheildinni. Sambandið er einnig til í afbrigðinu eða þannig sko sem var algengt á níunda áratugnum en virðist vera nær horfið – aðeins rúm 20 dæmi í Risamálheildinni. Því er oft hnýtt aftan í það sem sagt er í ýmsum tilgangi. Í Íslenskri orðabók er sambandið sagt „óformlegt“ og skýrt 'eða eitthvað í þá veru, e-ð svoleiðis'. Þannig er það vissulega oft notað, t.d. þegar við treystum okkur ekki til eða viljum ekki eða nennum ekki að útskýra nákvæmlega það sem um var rætt eða lýsa því, og treystum á að viðmælendur eða lesendur þurfi ekki eða hafi ekki áhuga á að vita öll smáatriði.

Fáein dæmi: Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Ekki er öll hagkvæmni hagkvæm eða þannig.“ Í Austurglugganum 2010 segir: „Skuli skipulagi breytt þarf að bera ákvörðunina undir þá sem næst búa, eða þannig.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Ég geystist áfram með vindinn í hárinu og fannst ég geta allt … eða þannig.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Þetta gekk í rauninni ágætlega eða þannig.“ Í Monitor 2011 segir: „Platan kom út í byrjun september og var gefin út bæði hérlendis og í rauninni út um allan heim eða þannig.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Diskóið er einmitt svo mikill glimmerharmur eða þannig.“ Í héraðsdómi frá 2018 segir: „Þeir hafi farið og stoppað þetta, en þeir hafi ekkert verið að kýla hvor annan eða þannig.“

Oft er einnig um að ræða meðvitaðar ýkjur eða úrdrátt, t.d. í Morgunblaðinu 2010: „Stekk hinn hressasti fram úr, tek stigann í tveimur stökkum eða þannig“ og í Morgunblaðinu 2011: En hún […] reis upp að nýju, aldrei raunar jafngóð, en viðkvæðið alltaf þetta: Ég er ágæt eða þannig.“ En samhengi sýnir að sambandið er líka oft notað í kaldhæðni, í merkingunni 'eða hitt þó heldur'. Í Breiðholtsblaðinu 2010 segir: „Ég byrjaði heldur seint að drekka eða þannig. Ekki fyrr en 12 ára.“ Í frétt um kosningar í Norður-Kóreu í Fréttablaðinu 2019 segir: „Búast má við spennandi kosningum, eða þannig.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Þess á milli að horfa á Skonrokkþætti eða stelast í plötur systkina okkar með ómældri ánægju þeirra, eða þannig.“

Það er hægt að negla uppruna þessa sambands mjög nákvæmlega niður. Að vísu er á tímarit.is dæmi í Templar frá 1907 sem svipar til nútímanotkunarinnar: „hafa þau ætíð verið geymd til síðustu stundar og verið þá rædd sem hvert annað aukaatriði, í hálfan kl.tíma eða þannig.“ Annað dæmi er í auglýsingu í Morgunblaðinu 1977: „Slúbert er farinn að vinna og vinnur bara vel, þrælduglegur og stendur sig vel, enda góðrar ættar í báða fætur, eða þannig.“ En að öðru leyti sprettur sambandið fram í árslok 1979 og strax í ársbyrjun 1980 kemur fjöldi dæma um það. Þegar að er gáð kemur í ljós að sambandið má rekja til Þórhalls Sigurðssonar, Ladda – bankastjóra Brandarabankans sem var fastur liður í Stundinni okkar í Sjónvarpinu um það leyti.

Í Vísi 1980 er rætt við bankastjórann sem var „svolítið viðutan og þjáist af alls konar kækjum“. Á eftir undirfyrisögninni „...eða þannig“ segir: „Allir, sem einhver viðskipti hafa við brandarabankann, kannast við að bankastjórinn viðhefur alltaf viss orðatiltæki, eða þannig. Laddi er spurður hvernig maðurinn hafi vanið sig á þetta. „Ég er sjálfur með þennan kæk, eða þannig,“ segir hann. „En bankastjórinn gerir meira úr honum en ég. Þetta er eiginlega orðið hans eigið vörumerki, eða þannig.“ Og það er ekki laust við, að fleiri hafi tekið þetta upp eftir bankastjóranum. Að minnsta kosti virðist undirrituðum blaðamanni Vísis, sem heimsótti þá félaga í brandarabankanum, að þetta sé farið að heyrast æ víðar, – eða þannig sko.“