– og öfugt
Í nýlegum viðtalsþætti í Ríkissjónvarpinu sagði maður um konu sína: „Ég vil að henni líði mjög vel með mér og það er held ég alveg öfugt.“ Í Málvöndunarþættinum var vakin athygli á þessu og spurt hvort hann hefði ekki átt að segja gagnkvæmt í stað öfugt. Flest þeirra sem tóku þátt í umræðu um þetta töldu að gagnkvæmt hefði verið eðlilegt þarna – sem ég get tekið undir – og sum þeirra töldu að rökrétt merking setningarinnar væri sú að konunni væri ekki umhugað um líðan mannsins. En er líklegt að ætlun mannsins hafi verið að segja það? Er trúlegt að hann hefði farið að nefna það í sjónvarpsviðtali ef svo væri? Vitanlega ekki – en getur það staðist að nota þetta orðalag í þeirri jákvæðu merkingu sem maðurinn hefur örugglega lagt í það?
Það er löng hefð fyrir því að nota sambandið og öfugt um einhvers konar gagnkvæmni í samskiptum eða samspili tveggja aðila eða fyrirbæra. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið skýrt ‚og gagnstætt‘ með dæminu við getum lært margt af þessari þjóð og öfugt – þ.e., þjóðirnar geta lært margt hvor af annarri. En oft er þetta flóknara, eins og í Skólablaðinu 1907: „Gulbrúnir og gulir litir fara t. d. vel við blátt; rauðmálað trjávirki á vel við grænan vegg, og öfugt.“ Hér er ekki hægt að setja og gagnkvæmt eða og gagnstætt í staðinn fyrir og öfugt. Væntanlega merkir það ekki og grænn veggur á vel við rauðmálað trjávirki, heldur að víxla megi litunum, þ.e. og öfugt standi fyrir og grænmálað trjávirki á vel við rauðan vegg.
Annað dæmi um flóknari vensl má finna í Norðlingi 1881. Þar er sagt að útgjöld skuli skrifa í kostnaðardálk en tekjur í afrakstursdálk og síðan sagt: „Við lok reiknings ársins leggur maður saman summurnar í dálkunum og dregur minni töluna frá hinni meiri; þá kemur út skaði eða ábati, sem hefir orðið á hverri skákinni það ár. Hafi kostnaðardálkurinn stærri töluna lýsir það því að skaði hefir orðið, og öfugt.“ Hér væri ekki heldur hægt að setja og gagnkvæmt eða og gagnstætt í stað og öfugt – það stendur annaðhvort fyrir en ef kostnaðardálkurinn hefur minni töluna hefur orðið gróði eða en ef afrakstursdálkurinn hefur stærri töluna hefur orðið gróði. Það kemur út á eitt hvorn kostinn við veljum – merkingin í þessu fer ekkert á milli mála.
Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Þeir búa yfir ákveðnum kostum sem ég hef ekki og öfugt.“ Þrátt fyrir að kostirnir séu ekki nefndir vefst ekkert fyrir okkur að skilja setninguna – ljóst er að þeir sem um er rætt hafa ekki sömu kosti og bæta þannig hvor annan upp. Í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2010 segir: „Í kumlinu á Grímsstöðum í Mývatnssveit […], þar sem tveir hestar höfðu verið lagðir í gröfina, höfðu dýrin verið hlutuð í tvennt og víxlað þannig að frampartur annars lá með afturparti hins og öfugt.“ Hvernig ættum við að orða það sem og öfugt stendur fyrir? Það væri ekki hægt að segja og afturpartur annars lá með framparti hins, eða frampartur hins lá með afturparti annars. En það vefst samt ekkert fyrir okkur að skilja þetta.
Það gagnstæði eða sú gagnkvæmni sem og öfugt felur í sér er sem sé með ýmsu móti og ekki alltaf auðvelt að orða hana á annan hátt, og oft mætti halda því fram að notkunin á og öfugt sé ekki „rökrétt“. En út frá aðstæðum og samhengi er samt yfirleitt enginn vafi á því hver merkingin er. Það sem ruglar fólk e.t.v. í ríminu í dæminu sem vísað var til í upphafi er innskotið „og [það er held ég alveg] öfugt“ sem leiðir til þess að öfugt hefur þarna setningarstöðu lýsingarorðs frekar en atviksorðs. En það segir sig samt sjálft að merkingin hlýtur að vera 'hún vill að mér líði mjög vel með sér'. Það er góð regla í mannlegum samskiptum að leggja það sem annað fólk segir út á besta veg en beita ekki orðhengilshætti þótt „rökréttur“ kunni að vera.