Ég fíla svo vel að vera Frónari

Hér var í dag spurt um hvenær tökusögnin fíla hefði orðið algeng í íslensku. Elsta dæmi sem þekkt er um hana í íslenskum texta er í Sunnanfara 1898: „Hvernig fílarðu? (þ.e. hvernig líðr þér?).“ Í Eimreiðinni 1901 segir: „Fílarðu ekki illa eftir trippið að norðan?“  Í Voröld 1919 segir, undir fyrirsögninni „Vesturheimska“: „Eg fílaði illa þennan morgun eftir að eg dressaði og fór þess vegna út fyrir vok.“ Í vesturheimska gamanblaðinu Fonnið 1921 segir: „Nú eru margir dagar síðan en ennþá getur maður fílað stinkinn.“ Í Speglinum 1928 segir: „En hvernig fílar þú?“ Í þessum dæmum er fíla ekki notuð á sama hátt og venjulega í nútímamáli, heldur merkir hún hér 'líða'. Í öllum tilvikum er líka verið að hæðast að enskuskotnu máli.

Sama máli gegnir um flest elstu dæmin þar sem sögnin er notuð eins og í nútímamáli en smátt og smátt er farið að nota fíla eins og hverja aðra enskuslettu, án sérstaks háðs. Í Lesbók Morgunblaðsins 1937 segir: „sumir „fíla sig svo illa til sjós“, eins og ungfrú ein tók til orða í heimspekilegri borðræðu um eðli og upptök sjóveikinnar.“ Í Fálkanum 1940 segir: „Og jeg sem fíla mig svo rosasjabbí eftir pimpiríið í gærkveldi.“ Í Heimilisritinu 1944 segir: „Ó, ég fíla mig svo vel hjá þér, elsku Kobbi.“ Í Þjóðviljanum 1954 segir: „Hvernig fílarðu þig í svona djammi?“ Þessi notkun sagnarinnar virðist hafa farið smátt og smátt vaxandi á sjötta áratugnum, ef marka má það sem Árni Böðvarsson segir um hana í Þjóðviljanum 1959:

„Eitt hinna leiðari tökuorða sem orðið hafa allföst í íslenzku á síðari árum í ákveðnum hópi fólks og þá fyrir ensk áhrif, er sögnin að fíla sig, í samböndum eins og „Hvernig fílarðu þig? hann fílar sig vel í þessu“. […] [O]rð eins og þetta er engin íslenzka og getur aldrei orðið. Það veldur málspjöllum, en fyllir ekkert opið skarð í málinu, því að íslenzk tunga á næg orð til að nota í þess stað. Orð af þessu tagi eru innbyrt í talmál nútímans af fólki sem hefur næsta litla þjóðerniskennd um tungu sína og finnst fínt að sletta ensku. Sízt ber að lasta kunnáttu í erlendum málum, en hins vegar mun þeim tamara að sletta útlendum orðum af þessu tagi sem kunna ekki nema hrafl í málinu og jafnvel vitlaust það litla sem þeir hafa nasasjón af.“

Dæmum um fíla fór þó enn fjölgandi og allt annað viðhorf kemur fram í grein um málfar unglinga á „Slagsíðunni“ í Morgunblaðinu árið 1974: „Um hugtök tilfinningalegs eðlis eru notuð hin ýmsu orð svo sem fílingur og að fíla hitt og þetta. Dæmi: „Ég fíla þessa grúppu,“ eða „hann var í ofsa fíling þarna um kvöldið“. Þetta hugtak er eitt af mörgum, sem erfitt er að snara í íslenzku án þess að merking raskist. Tilfinning nær því ekki nógu vel, því að ef maður „fílar einhverja grúppu“ þýðir það í raun eitthvað annað og meira en bara það að hafa tilfinningu fyrir viðkomandi hljómsveit. Ég verða að játa, að mér er ekki kunnugt um neitt orð í íslenzkri tungu, sem nota mætti með góðu móti, þegar talað er um að „fíla eitthvað“.“

Þessu andmælti reyndar Kristinn R. Ólafsson í Morgunblaðinu skömmu síðar: „Tilefni þessa bréfs míns er það, að skrifari greinarinnar kvaðst ekki þekkja neitt íslenskt orð, sem næði til fulls merkingu enska orðsins „feeling“. Langar mig því að benda honum á orðið þel, sem ég tel, að nái merkingunni fullkomlega. Það var geggjað þel í þessu; klístrað þel uppum alla veggi. Að fíla sig heitir því að þela sig eða þelast.“ Hvað sem fólki kann að finnast um þessa tillögu sló hún ekki í gegn, en notkun sagnarinnar fíla hélt áfram að aukast, og tók stökk um 1980 og sérstaklega þó upp úr 2000. Nú er þetta ein af algengari sögnum málsins og í Risamálheildinni eru hátt í áttatíu þúsund dæmi um hana – vissulega öll nema fimm þúsund af samfélagsmiðlum.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er fíla skýrð 'líka (e-ð) vel, hafa dálæti á (e-u)' og merkt „óformlegt“, og í Íslenskri orðabók er hún merkt „slangur“. Þótt sögnin sé vissulega upphaflega komin úr ensku hefur hún slitið sig frá enskum uppruna á ýmsan hátt – hvorki fíla sig fíla þetta samsvarar nokkrum enskum orðasamböndum. Bent hefur verið á að føle sig til í dönsku og því gætu hugsanlega verið einhver áhrif þaðan, en það samband samsvarar þó ekki fíla sig nema að litlu leyti, merkir fremur 'finnast maður vera'. Sögnin fíla fellur fullkomlega að málinu ekki síður en príla, stíla, tvíla, víla o.fl. Út frá aldri sagnarinnar, tíðni, útbreiðslu, merkingu og gagnsemi finnst mér einboðið að viðurkenna hana sem fullgilt íslenskt orð.