Tilgangslaus umræða – ræðum það sem skiptir máli
Ég held að það sé fullreynt í þessum hópi að ræða kynhlutlaust mál. Sú umræða skilar engu nema leiðindum. Ég hef verið hikandi við að eyða hér innleggjum og athugasemdum um þetta efni vegna þess að ég hef verið sakaður um að leyfa ekki annað en það sem samræmist mínum skoðunum. Það er rangt – hér leyfist málefnaleg umræða og rökstuddar skoðanir um hvaðeina sem varðar tungumálið. En þessi umræða fer strax út í eitthvað annað. Eins og ég hef oft sagt get ég vel skilið andstöðu við breytingar í átt til kynhlutlauss máls, og fyrir henni má færa málefnaleg rök. En því miður er megnið af því sem hér er skrifað gegn kynhlutlausu máli – með nokkrum heiðarlegum undantekningum – ómálefnalegt og útúrsnúningur.
Ég verð hins vegar að segja að málflutningur þeirra sem styðja breytingar í átt til kynhlutlauss máls, eða hafa skilning á þeim, er yfirleitt mun málefnalegri, þótt á því séu vissulega undantekningar líka. Ég hef sjálfur skrifað hér á sjötta tug pistla um þetta málefni þar sem ég hef reynt að ræða og útskýra ástæður og eðli breytinganna án þess að vera með einhvern sérstakan áróður fyrir þeim og mun halda því áfram, enda er einn megintilgangur þessa hóps að birta fræðandi pistla um tungumálið frá ýmsum hliðum. Málefnalegir pistlar annarra, sem byggjast á rannsóknum og rökum, verða að sjálfsögðu einnig leyfilegir, en að öðru leyti frábið ég mér fyrirspurnir, athugasemdir og umkvartanir um kynhlutlaust mál.
Það er nefnilega svo margt annað mikilvægara sem við þurfum að ræða: „Mér finnst svo sorglegt að fólk skuli eyða svona mikilli orku og púðri í áhyggjur yfir þessum saklausu blæbrigðum og smekksatriðum málsins, þegar íslenskan er í raunverulegum lífsháska út af miklu stærri og alvarlegri hlutum. Það þarf að gera svo stóran skurk í íslenskukennslu, bæði fyrir innfædda og aðflutta, útgáfu á íslensku, textun, túlkun, þýðingum og talsetningu, og því að gera fleirum kleift að lifa á því að hugsa og skrifa á íslensku. Þess í stað fer allur krafturinn í að fjargviðrast yfir því að sumt af yngra fólkinu, sem þykir vænt um málið og reynir að nota það vel, skuli beita því þannig að það falli að þeirra heimsmynd og hugmyndum.“
Þetta skrifaði Sigríður Hagalín Björnsdóttir, rithöfundur og fréttamaður, í umræðu um þessi mál á síðu Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar, og ég leyfi mér að taka það upp hér vegna þess að þetta er svo mikilvægt. Fólk getur haft mismunandi skoðanir á breytingum í átt að kynhlutlausu máli en þær verða ekki til þess að drepa íslenskuna og leiða ekki til hnignunar hennar. Þvert á móti – þær sýna áhuga fólks á málinu. Ég vitna áfram í Sigríði sem segist þó hafa „frekar íhaldssama máltilfinningu“: „Og mér finnst bara dásamlegt að fólki þyki nógu vænt um íslenskuna og hafi svo mikla trú á henni að það vilji þróa hana áfram. Íslenskan er rúmgóð og örlát, hér er nóg pláss fyrir bæði menn og fólk, þá og þau.“