Gildisrýr gildi?

Á vef Ríkisútvarpsins sá ég fyrirsögnina „Verður forseti sem leggur áherslu á gildi“. Þetta var haft eftir Katrínu Jakobsdóttur en fleiri forsetaframbjóðendur hafa talað á svipaðan hátt. „Halla hrærð og vísar í íslensku gildin“ var fyrirsögn á mbl.is í upphafi kosningabaráttu Höllu Hrundar Logadóttur, Halla Tómasdóttir hefur birt auglýsingu með fyrirsögninni „5 gildi íslensku þjóðarinnar“, Arnar Þór Jónsson segir „ég byggi mitt líf á kristnum gildum“ og vel má vera að Baldur Þórhallsson, Jón Gnarr og fleiri frambjóðendur hafi rætt um gildi sín eða þjóðarinnar án þess að ég hafi rekist á það í fljótu bragði. Ég minnist þess ekki að þetta orð hafi áður verið svo áberandi í kosningabaráttu og fannst þess vegna forvitnilegt að skoða notkun þess aðeins nánar.

Í framangreindum dæmum merkir gildi 'grundvallarviðmið í hópi eða hjá einstaklingi sem markar afstöðu og athafnir' eins og segir í Íslenskri orðabók. En þótt þessi merking sé svo algeng í nútímamáli að nánast sé hægt að tala um gildi sem tískuorð virðist hún ekki vera gömul, sem marka má af því að hana er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók, ekki í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, og ekki heldur í prentútgáfum Íslenskrar orðabókar. Í vefútgáfu bókarinnar á Snöru er hins vegar búið að bæta við skýringunni sem að framan greinir, með dæmunum kristileg gildi og hafa í heiðri gömul og góð gildi. Tekið er fram að í þessari merkingu sé um fleirtöluorð að ræða en í öðrum merkingum er orðið notað í eintölu.

Í flestum elstu dæmum um þessa notkun orðsins gildi er það notað í þeim orðasamböndum sem nefnd eru í Íslenskri orðabók. Elsta dæmið er í Kirkjublaðinu 1935: „Í trúarbrögðunum hefir ný þekking og gagnrýni valdið mörgum efasemdum og veikt traust margra á gömul gildi.“ Í Tímanum 1944 segir: „Gömul gildi eru sífellt tekin til nýrrar gagnrýni og endurmat þeirra fer fram.“ Í Tímanum 1968 segir: „hafði því opin augu fyrir nýungum, en var um leið fastheldinn á gömul og góð gildi.“ Í Vísi 1980 segir: „Við reynum að leiða fólki fyrir sjónir, hvað hin kristnu gildi eru mikil.“ Í Tímanum 1981 segir: „þessir menn, sem tekið hafa kristileg gildi og snúið þeim upp á pólitík, [...] eru orðnir að staðreynd í bandarísku stjónmálalífi.“

Seinna er svo farið að tala um íslensk gildi – elsta dæmi sem ég finn um þau er í Þjóðviljanum 1980: „Afnám refsinga vegna eignar eða notkunar kannabisefna í einrúmi er samhljóða hefðbundnum íslenskum gildum um persónulegt valfrelsi, frelsi einstaklingsins og réttinum um friðhelgi einkalífsins.“ Í viðtali í Skagablaðinu 1988 segir: „ég er í raun meiri íslendingur í mér en Dani. Íslensku gildin höfða meira til mín, jafn fáránleg og þau eru nú sum hver.“ Í Morgunblaðinu 1990 segir: „Hin gömlu íslensku gildi, gestrisni og nægjusemi, voru alls ráðandi.“ Önnur gildi sem dæmi eru um fram til 1990 eru hefðbundin gildi, lýðræðisleg gildi, borgaraleg gildi, vestræn gildi, kvenleg gildi, siðferðileg gildi, mjúk gildi og fleiri.

Um 1990 tekur notkun orðsins mikið stökk, og þó sérstaklega um aldamótin, og er enn að aukast – dæmi um hana í Risamálheildinni skipta mörgum þúsundum og jafnvel tugum þúsunda. Þótt gildi sé auðvitað gott og gilt íslenskt orð að uppruna er ekki fráleitt að ætla að mikla notkun þess megi að einhverju leyti rekja til áhrifa frá enska orðinu value en þar hefur fleirtalan values líka aðra merkingu en eintalan, þ.e. 'the beliefs people have, especially about what is right and wrong and what is most important in life, that control their behaviour'. Auðvitað er ekkert að því að forsetaframbjóðendur leggi áherslu á gildi – en hætt er við að mikil notkun orðsins valdi því að oft komi það út sem merkingarlaus klisja án nokkurs raunverulegs innihalds.