Að neita fyrir
Í Málvöndunarþættinum sá ég að verið var að gera athugasemd við orðalagið „neita fyrir mistök“ í Facebookfærslu sem DV tók upp. Það er ekki einsdæmi – þetta orðalag hefur verið tekið fyrir í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu, fyrst 2013: „Ósiður í sókn: „að neita fyrir e-ð“. Hreinn óþarfi, því hægt er að neita því, þverneita því, þræta fyrir það, þvertaka fyrir það og synja fyrir það – vilji maður ekki játa það.“ Árið 2016 sagði svo í sama dálki: „Að neita merkir að segja nei við e-u – eða hafna e-u: neita (til)boði. Ennfremur að þræta fyrir e-ð („Hann neitaði því að hafa borðað allar pönnukökurnar einn“) og þvertaka fyrir e-ð. Að „neita fyrir“ e-ð, sem stundum sést („Reyndu ekki að neita fyrir þetta!“), er líkast til samsláttur.“
Vissulega er neita fyrir ekki mjög gamalt – líklega innan við 40 ára. Elsta dæmi sem ég hef rekist á er í Heimsmynd 1987: „Hún hefur alla tíð neitað fyrir það.“ Í Bæjarins besta 1989 segir „hann gæti því ekki neitað fyrir að sárin væru af manna völdum“ og í sama blaði sama ár segir „Jón Friðgeir kvaðst ekki geta neitað fyrir að þetta væri rétt“. En annars fer þetta ekki að sjást fyrr en eftir aldamót. Í Orðlaus 2002 segir: „Fyrstu viðbrögð hans verða líklega þau að neita fyrir þetta.“ Í sama blaði 2004 segir: „Pollard neitaði fyrir að njósna um Bandaríkin.“ Í DV 2004 segir: „Hann reyndar neitaði fyrir það í samtali við blaðamann eftir leikinn.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Hann sýnir ekki góða fyrirmynd með því að neita fyrir lítið umferðarlagabrot.“
En þar með er ekki öll sagan sögð. Auk grunnsagnarinnar neita eru til samsetningarnar harðneita og þverneita sem merkja það sama – að viðbættri áherslu. Sambandið harðneita fyrir er álíka gamalt og neita fyrir – elsta dæmið er í Vikunni 1988: „Gvendur harðneitaði fyrir að hann hefði neinar syndsamlegar hugsanir í huga.“ En þverneita fyrir er miklu eldra. Í Heimskringlu 1941 segir: „Eg get ekki þverneitað fyrir það.“ Í Fálkanum 1961 segir: „Hauptmann þverneitaði fyrir allt.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1963 segir: „þeir höfðu ekkert látið frá sér fara, sem ekki var hægt að þverneita fyrir.“ Í Dagblaðinu 1979 segir: „Unglingarnir játuðu fyrir honum sömu lexíuna sem þau svo þverneituðu fyrir að nokkrum tíma liðnum.“
Tíðni sambandsins neita fyrir hefur aukist mjög ört á síðustu árum – í Risamálheildinni er a.m.k. á sjöunda hundrað dæma um það. Ástæðan fyrir því að þverneita ryður þarna brautina eru væntanlega einkum áhrif frá þvertaka fyrir eins og áður er nefnt – það má kalla það samslátt ef fólk vill. En við þetta bætast svo önnur sambönd svipaðrar merkingar sem hafa fyrir og einnig voru nefnd áður, eins og þræta fyrir og synja fyrir. Það er mjög eðlilegt og skiljanlegt að neita verði fyrir áhrifum frá þeim, og ekkert athugavert við það. Engin leið er að halda því fram að það sé „rökrétt“ að nota fyrir með þvertaka, þræta og synja en ekki með neita – það er bara venja sem getur breyst. Og hún er að breytast – fyrir íslensk áhrif, ekki ensk. Það er í góðu lagi.