Meiri kynfræðslu, takk!

Lengi hefur verið sæmileg sátt í samfélaginu um að mikilvægt sé að börn og unglingar fái einhverja kynfræðslu í skólum. Við vitum að unglingar gera tilraunir með kynlíf hvort sem fullorðnum líkar betur eða verr og þess vegna er fræðsla mikilvæg til að minnka hættuna á að þessar tilraunir leiði til óheilbrigðs kynlífs, ótímabærra barneigna, aukningar kynsjúkdóma o.fl. Markmið fræðslunnar er hvorki að hvetja unglinga til að stunda kynlíf né að koma í veg fyrir kynlíf, heldur að fræða um eðli kynlífsins og ýmislegt sem þarf að varast í því sambandi. Oft hefur samt staðið styr um kynfræðslu í skólum og íhaldsöfl reynt að banna hana eða draga úr henni – í fyrrahaust bar t.d. töluvert á gagnrýni á nýtt kynfræðsluefni frá Menntamálastofnun.

En annars konar kynfræðsla er líka mikilvæg. Í nýlegri blaðagrein var sagt: „Nýlega fréttist að níunda bekkingum væri fyrirskipað að leiðrétta ýmsar setningar í tímum þannig að þær „virkuðu fyrir öll kyn“.“ Nú veit ég ekki sönnur á þessari staðhæfingu, hvað þá að ég viti nákvæmlega hvaða fyrirmæli voru gefin ef einhver slík æfing var lögð fyrir. En æfingar af þessu tagi geta þjónað þeim tilgangi að leiða nemendum fyrir sjónir út á hvað kynhlutleysi í máli gengur og fá þá til að sjá þetta í samhengi. Það er nefnilega meira en að segja það að gera mál sitt kynhlutlaust vegna þess að karlkyn í almennri merkingu er „út um allt“ í íslensku eins og Höskuldur Þráinsson lýsti ágætlega í nýlegri grein. Þess vegna er málfræðileg kynfræðsla nauðsynleg.

Við vitum að sumt fólk er að gera tilraunir með að færa málbeitingu sína í átt til kynhlutleysis og þær tilraunir verða ekki stöðvaðar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þess vegna skiptir máli að fræða fólk um hlutverk og eðli málfræðilegs kyns í tungumálinu og benda á hvers þau þurfa að gæta sem vilja breyta máli sínu í þessa átt. Sú umræða má ekki verða tabú frekar en hin venjulega kynfræðsla. Fræðslan er nefnilega ekki áróður fyrir kynhlutlausu máli – ekki frekar en venjuleg kynfræðsla er áróður fyrir kynlífi. Hún getur einmitt stuðlað að því að fólk fari varlega í slíkum tilraunum með mál sitt eða jafnvel guggni á þeim, rétt eins og venjuleg kynfræðsla getur leitt til þess að unglingar fari varlega í kynlífi eða bíði með tilraunir til kynlífs.

En málfræðileg kynfræðsla þarf að fjalla um miklu fleira en hlutlaust kyn fornafna, töluorða og lýsingarorða. Nú hefur verið viðurkennt í íslenskum lögum að til sé fólk sem hvorki telur sig karlkyns né kvenkyns og tungumálið þarf að taka á því. Það hefur verið gert með nýjum orðum eins og fornafninu hán, nafnorðunum bur, stálp, kvár o.fl., og mikilvægt er að kynna þessi orð og notkun þeirra. Sum þeirra sem skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar vilja láta fornöfn og lýsingarorð sem um þau eru höfð vera í hvorugkyni og því þarf að venjast. Bent hefur verið á að í stað orða sem vísa í kyn eins og strákur og stelpa er oft heppilegra að nota orð án kynvísunar eins og börn eða krakkar. Margt fleira mætti taka fyrir í hinni málfræðilegu kynfræðslu.