Bókstafstrú er varasöm
Í gær var vitnað hér í fyrirsögn á mbl.is, „Þrír köstuðust útbyrðis“ um farþega sem köstuðust út úr rútu, og spurt: „Er þetta ekki undarleg notkun á að kastast útbyrðis?“ Í Málvöndunarþættinum var einnig spurt: „Verður maður ekki að vera um borð í báti til að geta kastast útbyrðis?“ Atviksorðið útbyrðis er skýrt 'fyrir borð' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'utanborðs, fyrir borð' í Íslenskri orðabók. Orðið borð merkir 'fjöl, planki' og eins og nefnt var í umræðu um þetta er því eiginlega aðeins hægt að kastast útbyrðis af tréskipi ef fólk vill skilja útbyrðis alveg bókstaflega. Það hefur samt aldrei verið gerður munur á tréskipum, stálskipum, plastbátum og annars konar skipategundum í notkun þessa orðs, eða annarra skyldra.
En þessi orð – (um) borð, innbyrða, innanborðs, útbyrðis o.fl. – hafa lengi verið notuð um annað en skip. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er borð m.a. skýrt 'innra rými skips eða flugvélar'. Orðið borð hefur lengi verið notað um flugvélar – í Dýraverndaranum 1931 segir: „Á myndinni sést það þegar verið er að flytja stóran kassa fullan af svölum um borð í flugvél.“ Við brottför íslenskra flugvéla frá flugvöllum á Íslandi er líka venja að segja „Gerið svo vel að ganga um borð.“ Sögnin innbyrða hefur líka lengi verið notuð bæði í merkingunni 'taka fisk um borð í skip' og 'neyta (e-s) borða, drekka' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók – „hann er líka stór fiskur og getur innbyrt mikið“ segir um hákarlinn í Ægi 1918.
Þótt atviksorðið útbyrðis sé aðeins skýrt 'fyrir borð' í Íslenskri nútímamálsorðabók eru ýmis dæmi um að það sé notað í öðru samhengi, eins og t.d. í Þjóðinni 1942: „Að taka ekki upp siði og venjur þeirra, en kasta útbyrðis siðum og venjum þjóðar vorrar, kasta frá oss Íslendingseðlinu.“ Aftur á móti er atviksorðið innanborðs skýrt 'um borð í skipi, flugvél eða öðru farartæki' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Degi 1909 segir um Zeppelin-loftfar: „Þá flaug hann og með 2 farþega innanborðs 10 rastir.“ Í Morgunblaðinu 1936 segir: „Jótlandshraðlestin varð föst í gærdag í snjó með 95 farþega innanborðs.“ Í Vísi 1957 segir: „Almenningsbifreið með áttatíu farþega innanborðs ók út af vegi í fjallshlíð og hrapaði mikið fall.“
Þótt kannski sé ekki algengt að tala um að farþegar kastist útbyrðis úr rútu er það ekkert óeðlilegt fyrst þeir geta verið innanborðs í rútunni. Eins og dæmin hér að framan sýna, sem og fjölmörg önnur af ýmsum toga, eru orð sem upphaflega tengjast tréskipum notuð í margs konar yfirfærðri merkingu. Þannig er tungumálið – sem betur fer. Ef við krefjumst þess að orð séu aðeins notuð í upphaflegri, bókstaflegri merkingu og fordæmum allt nýtt, teljum allt rangt sem við könnumst ekki við – höfnum öllum líkingum, myndhverfingum, tilbrigðum og leik með tungumálið – erum við að taka burt það sem gerir málið frjótt, skapandi og lifandi og banna málinu að endurnýja sig. Það er vísasti vegurinn til að drepa áhuga ungs fólks á að tala íslensku.