Handklæði, þerra og þurrka
Fyrir helgi var hér sett inn gamansamt innlegg þar sem spurt var hvers vegna vettlingar heita ekki handklæði. Í því sambandi má rifja upp að handklæði er meðal orða sem urðu nánast fyrir einelti á þeim tíma sem fordómar gagnvart „dönskuslettum“ voru sem mestir – þetta var talið hrá danska, håndklæde. Jón G. Friðjónsson segir t.d. í pistli í Málfarsbankanum: „Tökuorð úr dönsku þóttu ekki til fyrirmyndar þegar undirritaður var í skóla upp úr miðri síðustu öld. Stundum var svo langt gengið að fordæmd voru alíslensk orð fyrir það eitt að þau áttu sér samsvörun eða hliðstæðu í dönsku. Eitt þessara orða var handklæði en eg minnist þess að mér var kennt að betur færi á að nota önnur orð um fyrirbrigðið, t.d. mætti nota þerru.“
Annað dæmi er úr Morgunblaðinu 1990: „Svo dæmi sé tekið – meira til skemmtunar – nefndust rúmlök rekkjuvoðir á mínu bernskuheimili, ekki mátti strauja þvott heldur var lín strokið, og handklæði nefndust þurrkur – þótt síðar fyndust að vísu dæmi þess að „dönskusletta“ þessi stæði á bókum fornum og þarmeð sloppin úr „skammarkróknum“.“ Þarna er væntanlega vísað til þess sem Jón G. Friðjónsson nefnir, að í Njálu segir: „Flosi hugði að handklæðinu og var það raufar einar og numið til annars endans.“ Þetta er reyndar ekki eina dæmið um orðið í fornu máli – alls eru 36 dæmi um það í safni Ordbog over det norrøne prosasprog. Orðið er sem sé norrænt erfðaorð sem hefur lifað bæði í íslensku og dönsku en hvorugt málið þegið það af hinu.
En jafnvel þótt um tökuorð úr dönsku væri að ræða væri það vitanlega ekki næg ástæða til að amast við orðinu handklæði, enda báðir liðir þess íslensk orð. Hitt er annað mál að merking orðsins hefur víkkað – eins og fyrri hluti þess bendir til vísaði það upphaflega eingöngu til klæðis sem notað var til að þurrka sér um hendur, en nú þurrkum við allan líkamann með handklæði. Út frá því má svo sem halda því fram að orðin þerra og þurrka væru heppilegri vegna þess að þau vísa ekki til handanna einna, en á móti kemur að þau bera það ekki með sér að eiga við þurrkun líkamans – bæði eru gefin í Íslenskri orðabók í tveim merkingum, 'handklæði' og 'klútur til að þurrka með'. Er ekki best að halda sig bara við handklæði?