Að kjarna, kjarnast og kjarna sig
Í kosningaumræðu þessa dagana sést því oft haldið fram að þessi og þessi kjarni málið vel. Þótt sögnin kjarna sé ekki gömul og óvíst að hún sé öllum kunn vefst varla fyrir fólki að skilja merkinguna í þessu, út frá nafnorðinu kjarni sem hefur m.a. merkinguna 'mikilvægur partur e-s, hluti e-s sem er þungamiðjan' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þar er sögnina kjarna hins vegar ekki að finna, og ekki heldur í síðustu prentútgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002. Hins vegar hefur henni verið bætt inn í vefútgáfuna á Snöru þar sem hún er skýrð 'koma á framfæri meginkjarna e-s, aðalatriði máls eða fyrirbrigðis'. Augljóst er að þessi viðbót er ekki eldri en frá síðasta áratug því að notkunardæmið er þessi skáldsaga kjarnar vel tíðarandann eftir hrunið.
Sögnin virðist hafa komið inn í málið kringum aldamótin. Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Sögumanni Ofurnæfs verður eitt sinn hugsað til þess hvernig listamaður nokkur gat litið yfir farinn veg og kjarnað líf sitt í einni úthugsaðri setningu.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „E.t.v. má segja að Haydn kjarni hina klassísku tónlistarhefð.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Þetta lag kjarnar kannski þessa notalegu einlægni verksins.“ Á Vísindavefnum 2002 segir: „Áhersla skemmtigarðsins á hið barnslega kjarnar þessa staðreynd fyrir Baudrillard.“ Í Morgunblaðinu 2004 segir: „Þessi hugleiðing kjarnar tilraun sögunnar til að ná einhverju tangarhaldið á dauðanum.“ Í Morgunblaðinu 2009 segir: „Þessi orð kjarna í raun þekkingarleysi og fordóma.“
Það er athyglisvert að fyrir utan dæmið af Vísindavefnum eru öll fyrstu dæmin um sögnina úr Morgunblaðinu eða Lesbók Morgunblaðsins – frá tveimur einstaklingum, karli og konu, sem voru hjón á þessum tíma. Þau virðast hafa verið nær ein um að nota orðið fyrsta áratuginn, en upp úr 2010 fer það að breiðast út smátt og smátt, og þó sérstaklega eftir 2015. Alls eru yfir fimm hundruð dæmi um sögnina í Risamálheildinni. Mér finnst þetta ágætt orð og raunar furða að það skuli ekki hafa komið upp fyrr, sérstaklega í ljósi þess að miðmyndin kjarnast hefur verið notuð mun lengur þótt hana sé ekki að finna í orðabókum fremur en germyndina. Það er nokkuð sérkennilegt að miðmyndin skuli koma upp og breiðast út á undan germyndinni.
Elsta dæmi sem ég finn um miðmyndina er í Skírni 1974: „Í Leik að stráum er lýst fyrsta draumi Ugga Greipssonar um framtíð sína er kjarnast í spurningunni.“ Um 1980 fer miðmyndin svo að breiðast út. Í Þjóðviljanum 1980 segir: „markvissar myndhverfingar þar sem kjarnast margvíslegt inntak og skírskotanir í knöppu formi.“ Í Lystræningjanum 1980 segir: „Líkingin er markviss, og í henni kjarnast margvíslegt inntak og djörf skírskotun í knöppu formi“. Í Tímanum 1983 segir: „En heimur Péturs Gunnarssonar kjarnast hins vegar í græskulausum og lífsglöðum hlátri og glettni.“ Alls er á annað hundrað dæma um miðmyndina á tímarit.is og hátt í tvö hundruð í Risamálheildinni, þannig að hún virðist vera að breiðast út eins og germyndin.
En sögnin er líka notuð afturbeygð, kjarna sig, og þá hefur hún dálítið aðra en þó skylda merkingu. Í Skessuhorni 2006 segir: „Orð sem mikið er notað í Hjallastefnunni er orðið kjarni og „að kjarna sig.“ […] [B]örnin eru látin kjarna sig þegar þau þurfa róa sig og ná einbeitingu.“ Þessi merking kemur fram í ýmsum dæmum á seinustu árum, sennilega ættuð frá Hjallastefnunni. Í Fréttablaðinu 2013 segir: „Svínabæli í Flatey er uppáhaldsstaðurinn minn. Þar er gott að kjarna sig.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir: „ Þegar álagið er orðið of mikið klikkar ekki að stinga af í sveitina og kjarna sig aðeins.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Jófríður hefur sjaldan verið jafn jarðtengd og í dag og nýtur þess að kjarna sig á Íslandi.“