Reykneskur
Ég var spurður hvort hægt væri að nota lýsingarorðið reykneskur, af Reykjanes – hliðstætt reykvískur, af Reykjavík. Svarið við því er ekki alveg einfalt. Yfirleitt er hægt að búa til lýsingarorð af staðaheitum með viðskeytinu -sk(ur), en oft þarf að gera ákveðnar breytingar á grunnorðinu, bæði hljóðbreytingar og styttingar. Af staðaheitum sem enda á -fjörður eru leidd lýsingarorð sem enda á -firskur, svo sem hafnfirskur, súgfirskur; af -vík kemur -vískur, svo sem reykvískur, húsvískur; , af -dalur kemur -dælskur, svo sem bárðdælskur, svarfdælskur; af -ey kemur -eyskur, svo sem færeyskur, grímseyskur; o.fl. Yfirleitt er fyrri hluti grunnorðsins styttur í eitt atkvæði – Hafnar- > hafn-, Súganda- > súg-, Reykja- > reyk-, Svarfaðar- > svarf-, o.s.frv.
Vissulega eru til í málinu fjölmörg orð sem enda á -neskur en þau eru ekki komin af staðheitum sem enda á -nes eins og ætla mætti, heldur er um að ræða viðskeytið -nesk(ur) sem er komið af germanska viðskeytinu *-iska – eins og -sk(ur). Afbrigðið -nesk(ur) varð til í orðum eins og himinn þar sem stofninn endar á -n – himin+isk verður himn-isk sem verður himnesk, og síðan er farið að skilja orðið á þann hátt að n-ið úr stofninum tilheyri viðskeytinu – himn-esk > him-nesk. Þannig verður í raun og veru til sjálfstætt viðskeyti með sömu merkingu og -sk(ur) sem síðan er notað í fjölmörgum lýsingarorðum dregnum af erlendum staða- eða þjóðflokkaheitum – baskneskur, keltneskur, lettneskur, rússneskur, slavneskur, svissneskur, tyrkneskur o.s.frv.
En þótt viðskeytið -sk(ur) sé mjög virkt í myndun lýsingarorða af margs konar staðaheitum eins og áður segir eru lýsingarorð af einhverjum ástæðum yfirleitt ekki mynduð á þennan hátt af staðaheitum sem enda á -nes. Við höfum ekki *álftneskur, *borgneskur, *drangsneskur, *langneskur – og ekki heldur *reykneskur. Samt ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að mynda slík orð – það verður ekki betur séð en þau séu í fullu samræmi við önnur orð mynduð með -sk(ur). Hugsanlegt er að málnotendur forðist (ómeðvitað) slíka orðmyndun af því að þessi orð myndu líta út eins og þau væru mynduð með -nesk(ur). Það viðskeyti er aðeins notað á erlend heiti, og e.t.v. höfum við tilfinningu fyrir því að það eigi ekki við á íslensk staðaheiti.