Posted on Færðu inn athugasemd

– eða þar

Fyrir nokkru skrifaði ég hér um orðasambandið eða þannig sem oft er notað í enda segðar „þegar við treystum okkur ekki til eða viljum ekki eða nennum ekki að útskýra nákvæmlega það sem um var rætt eða lýsa því, og treystum á að viðmælendur eða lesendur þurfi ekki eða hafi ekki áhuga á að vita öll smáatriði“. En annað ekki ósvipað samband sem oft er notað í hliðstæðri merkingu er eða þar. Það er mjög algengt í óformlegu talmáli en kemst mjög sjaldan á prent og þess vegna er erfitt að átta sig á hversu gamalt það er í málinu. Ég hef ekki fundið nein dæmi um það á tímarit.is en þau gætu þó vissulega leynst þar – vegna tíðni sambandsins eða þar í annarri notkun (ekki síst hér eða þar) er erfitt að leita af sér allan grun.

Eitt dæmi er að finna í héraðsdómi frá 2018: „Þeir hafi ekið „sveitaleiðina“ sunnan megin við Selfoss og komið inn rétt hjá Ljónsstöðum eða þar.“ Annað dæmi er á vef Ríkisútvarpsins 2014: „Það er ekkert sem stoppar Jökulsána að fara yfir í Kreppu, innan við Upptyppinga eða þar.“ En auk þess eru í Risamálheildinni um 50 dæmi af samfélagsmiðlum, það elsta á Bland.is 2002: „Þær voru keyptar í Kringlunni í búðinni á móti Auganu eða þar.“ Á Hugi.is 2004 segir: „þetta er svona ljósrofi, þarna litli hvíti kassinn í miðjunni eða þar.“ Á Bland.is 2005 segir: „Ég er nefnilega búin að vera með verk hægramegin í mjöðminni eða þar.“ Á Bland.is 2006 segir: „Skómarkaðnum úti á Fiskislóð minnir mig, æ þarna hjá Granda eða þar.“

Eins og þarna sést er elsta dæmið frá 2002, en það sýnir aðeins að þessi notkun er a.m.k. meira en 20 ára gömul – gögn af samfélagsmiðlum ná ekki lengra aftur í tímann. Þetta samband gæti þess vegna verið mun eldra. Eins og dæmin sýna er eða þar notað þegar mælandinn er ekki viss á staðsetningu eða getur ekki tilgreint hana nánar – eða óþarfi er að nefna nákvæma staðsetningu. Þetta getur vísað til hvers kyns staðsetningar – bæði utanhúss og innan, og einnig á líkamanum. Það er freistandi að tengja þetta við sambandið eða þannig sem oft er notað á mjög svipaðan hátt eins og nefnt er í upphafi. Það samband er frá því um 1980 þannig að mér þykir líklegt að þessi notkun sé a.m.k. ekki eldri, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.