Posted on Færðu inn athugasemd

Að þrifta

Um daginn var hér spurt um merkingu orðsins þrifta sem kom fyrir í grein eftir Hólmfríði Jennýjar Árnadóttur í Heimildinni þar sem sagði: „Þá er gott að hafa í huga vistspor og gæði vörunnar, notagildi og muna að við getum keypt notað eða þriftað.“ Í umræðum var bent á að þarna lægi að baki enska sögnin thrift en hún merkir 'to look for or buy something from a thrift store or another place that sells used things such as clothes, books, or furniture' eða 'að leita að eða kaupa eitthvað í endursöluverslun eða annars staðar þar sem seldir eru notaðir hlutir svo sem föt, bækur eða húsgögn'. Sögnin hefur því víðtækari merkingu en bara 'kaupa notað' – merkir líka 'svipast um eftir notuðu' og á sér því enga fullkomna samsvörun í málinu.

Elsta dæmi sem ég finn um sögnina þrifta í íslensku er á Twitter 2020: „Besta við að þrifta var að rekast á óvæntar gersemar.“ En að öðru leyti eru einu dæmin um orðið í greininni sem vitnað var til í upphafi, og í annarri grein sama höfundar í Vísi fyrr á árinu. Í fljótu bragði kann að líta svo út sem þarna sé um hráa ensku að ræða og sumum kann að finnast það gera sögnina óæskilega. En eins og einnig var bent á í umræðu um þetta er ekki allt sem sýnist, því að enska nafnorðið thrift sem sögnin er dregin af er komið af norræna nafnorðinu þrift sem kemur fyrir í fornu máli og er skýrt 'velmegun, velgengni, gengi' í Íslenskri orðabók. Þetta nafnorð kemur ekki fyrir sem samnafn í nútímamáli en hefur verið notað sem nafn á fyrirtæki og hryssunafn.

Sögnin þrifta kemur hins vegar hvorki fyrir að fornu né nýju, fyrr en nú, en er eðlileg afleiðsla af nafnorðinu og því ekkert við hana að athuga sem slíka. Spurningin er hins vegar hvort eðlilegt sé að nota hana í þessari merkingu. Í ensku þróaðist merking nafnorðsins thrift yfir í að vera 'nýtni' eða 'hagkvæmni' eða eitthvað slíkt og þaðan yfir í nútímamerkinguna sem áður var nefnd. Sú þróun er í sjálfu sér eðlileg og skiljanleg en hún hefur auðvitað ekki orðið í íslensku, heldur er enska nútímamerkingin tekin upp og stokkið yfir þróunarstigin og það er vitaskuld hægt að hafa mismunandi skoðanir á réttmæti þess. En ég sé ekki betur en sögnin fari vel í málinu og ég sé ekkert að því að taka hana upp í áðurnefndri merkingu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að setja mörk

Í Sumarblaðinu 1916 er sagt frá nýjum knattspyrnulögum sem Íþróttasamband Íslands sé að gefa út. Þar segir: „Eins og menn vita, hefir með öllu vantað íslenzk orð um hin ýmsu atriði þessarar íþróttar. Menn hafa orðið að gera sér gott af, að nota að eins útlend orð eða þá íslenzk orðskrípi, og hefir mörgum þótt slíkt all-ilt.“ En meðal nýmæla í lögunum verði fjöldi nýrra orða sem flest séu komin frá Guðmundi Björnssyni landlækni og „öll eru falleg og skynsamlega mynduð“. Meðal þeirra eru ýmis orð sem enn eru notuð, eins og rangstæður, réttstæður, vítaspyrna, aukaspyrna – og skora mark í stað gera mark. Þetta er elsta dæmið um skora mark á tímarit.is en eftir það kemst orðið í talsverða notkun og hefur verið mjög algengt alla tíð síðan.

En þótt sambandinu skora mark væri ætlað að leysa gera mark af hólmi hvarf það síðarnefnda ekki úr málinu. Elsta dæmi um það á tímarit.is er reyndar úr þessari sömu grein en annað dæmi er úr Morgunblaðinu frá sama ári: „Þrátt fyrir þessa ágætu sókn, tókst þó Reykjavíkur-mönnum ekki að gera mark hjá Fram.“ Þetta samband hefur alla tíð verið algengt, og sama máli gegnir um sambandið setja mark sem er álíka gamalt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Fréttum 1918: „Enda fór það svo að I. Ólafsson setti mark.“ Í Vísi 1922 segir: „Eftir að Skotarnir settu markið óx Íslendingum ásmegin.“ Í Morgunblaðinu 1928 segir: „leið ekki á löngu þar til Skotar settu mark.“ Í Víði 1931 segir: „K.R. menn birjuðu þegar áhlaup og settu mark á fyrstu mínútunni.“

Þótt sambandið setja mark sé vissulega sjaldgæfara en skora mark hefur það verið töluvert notað alla tíð síðan. Þess vegna er sérkennilegt að tala um það sem „skrýtið málfar“ eins og gert var í viðtali við prófarkalesara í Viðskiptablaðinu nýlega: „Íþróttafréttir eru annar vettvangur þar sem Arinbjörn hefur rekist á skrýtið málfar en þar segja fréttamenn oft að leikmenn „setji mörk“ í stað þess að „skora mörk“.“ Eins og fram hefur komið eiga samböndin skora mark, gera mark og setja mark sér öll meira en hundrað ára óslitna hefð og engin ástæða til að gera upp á milli þeirra. Þvert á móti – það er gott að eiga völ á fleiri en einu sambandi í sömu merkingu. Það lífgar upp á stílinn, sem oft veitir ekki af í íþróttafréttum sem oft hættir til að verða dálítið klisjukenndar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að hafna í fyrsta sæti

Í viðtali við prófarkalesara í Viðskiptablaðinu nýlega segir m.a.: „Íþróttafréttir eru annar vettvangur þar sem Arinbjörn hefur rekist á skrýtið málfar en þar […] sé oft sagt að íþróttamenn hafi „hafnað í öðru eða þriðja sæti“ í stað þess að hafa „náð öðru eða þriðja sæti“.“ Þetta minnti mig á bréf sem ég fékk þegar ég sá um útvarpsþáttinn „Daglegt mál“ um skeið sumarið 1984, fyrir réttum fjörutíu árum. Þar var vitnað í fyrirsögnina „Ísland vann Finna og hafnaði í 2.‑3. sæti“ og sagt: „Orðtiltækið að hafna í einhverju sæti í keppni hefur verið mikið í tísku að undanförnu og þeir, sem nota það, virðast ekki skilja merkingu þess. Að hafna í einhverju sæti þýðir að mínu mati að vera aftarlega í röð. […] Svona heimska má ekki viðgangast.“

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin hafna skýrð 'lenda (einhvers staðar)' og í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002 er hún skýrð 'lenda, enda'. Þessi merking virðist hins vegar vera fremur nýleg því að hana er ekki að finna í tveim fyrri útgáfum bókarinnar, frá 1963 og 1982. Þar er sögnin aftur á móti gefin í merkingu sem er augljóslega skyld, 'taka höfn, leggja(st) við akkeri' með dæminu skipið hafnar sig. Í Þjóðólfi 1858 segir t.d.: Póst-gufuskipið Victor Emanuel hafnaði sig hér að kvöldi 15. þ. mán.“ Þessi notkun sambandsins hafna sig var mjög algeng á seinni hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu, og einnig kemur fyrir afleidd merking: „Að þessu loknu hélt svo X af stað og hafnaði sig á veitingahúsi einu“ segir í Stormi 1931.

Hin venjulega nútímanotkun sagnarinnar er augljóslega sprottin af þessari afleiddu merkingu, auk þess sem sögnin er ekki lengur notuð afturbeygð. Meðal notkunardæma um sögnina bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók er boltinn hafnaði í netinu en í Vísi 1915 segir frá úrslitaleik Knattspyrnumóts Íslands milli Fram og KR: „Leikurinn berst nú fram og aftur um svæðið, þar til Frammenn ná knettinum og leika honum svo snildarlega á milli sín, að hann hafnaði sig í neti Reykjavíkurmanna.“ En í Þjóðviljanum 1944 segir: „Þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leik skaut Bastin voðaskoti með hægra fæti og knötturinn hafnaði í markinu.“ Einhvern tíma á fyrri hluta 20. aldar virðist hafna því hafa misst afturbeyginguna.

Í Skólablaðinu 1907 segir: „Sannleiksleitinni yrði hætt með öllu, og heimurinn allur hafnaði í kyrstöðu, yrði aðsteingervingi.“ Í Unga Íslandi 1912 segir: „Ole Bull hafnaði í Ameríku, og var honum þar tekið með ofsa-fögnuði og opnum örmum, hvar sem hann fór.“ Í Alþýðublaðinu 1922 segir: „kúlan, sem lenda átti í hjarta sjómannsins, hafnaði í fæti hans.“ Í Helgafelli 1942 segir: „obbinn af skáldskap þeim, er út kom á Norðurlöndum, hafnaði í hillum mínum.“ Í Skólablaðinu 1944 segir: „Jón varð stúdent við sæmilegan orðstír og hafnaði í guðfræðideildinni, er hann áleit hæfilegan vettvang fyrir andlega atgervi sína.“ Í Tímanum 1947 segir: „Hann ætlaði að hlaupa út, en villtist og hafnaði í svefnherbergi hjónanna.“ Eftir þetta fer dæmum mjög fjölgandi.

Elsta dæmi sem ég finn um hafna með sæti er í Íþróttablaðinu Sport 1949: „Guðm. Guðmundsson bætti sinn fyrri tíma um 6/10 og hafnaði í fjórða sæti.“ Í Allt um íþróttir 1950 segir: „Guðjón M. Sigurðsson hafnaði í öðru sæti og er það vel af sér vikið.“ Í Íþróttablaðinu 1951 segir: „Það, er kom einna mest á óvart á mótinu var, að Víkingur með sína ungu og óreyndu leikmenn hafnaði í 3ja sæti.“ Í Hamri 1956 segir: „Sigurgeir náði glæsilegum árangri, hann hafnaði í 2.-4. sæti.“ Í Þjóðviljanum 1960 segir: „skákmeistari Sovétríkjanna Victor Korshnoj, sem hafnaði í efsta sæti, tapaði fyrir skákmeistara Nýja Sjálands.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Í svigkeppninni stóð Hákon Ólafsson sig með stakri prýði og hafnaði í öðru sæti.“

Því fer sem sagt fjarri að sögnin hafna sé eingöngu notuð um að lenda neðarlega í keppni, þótt sú notkun sé vissulega algeng. En svo að ég vitni í sjálfan mig í „Daglegu máli“ 1984: „Það sem er hins vegar sameiginlegt með þessum dæmum er að sá sem hafnar einhvers staðar hefur ekki stefnt að því vitandi vits; enginn er sjálfráður um það hvar hann hafnar. Við getum varla sagt ég ætla að hafna í góðri stöðu. Þetta er kannski ástæðan fyrir því að sumum finnst neikvæð merking tengjast þessari sögn.“ Eins og dæmin sýna hefur alla tíð verið hægt að nota sögnina hafna í hlutlausri merkingu, og þegar hún er notuð um stöðu í keppni hefur hún alla tíð getað vísað til efstu sæta. Engin ástæða er til að forðast tal um að hafna í fyrsta, öðru eða þriðja sæti.