Að hafna í fyrsta sæti
Í viðtali við prófarkalesara í Viðskiptablaðinu nýlega segir m.a.: „Íþróttafréttir eru annar vettvangur þar sem Arinbjörn hefur rekist á skrýtið málfar en þar […] sé oft sagt að íþróttamenn hafi „hafnað í öðru eða þriðja sæti“ í stað þess að hafa „náð öðru eða þriðja sæti“.“ Þetta minnti mig á bréf sem ég fékk þegar ég sá um útvarpsþáttinn „Daglegt mál“ um skeið sumarið 1984, fyrir réttum fjörutíu árum. Þar var vitnað í fyrirsögnina „Ísland vann Finna og hafnaði í 2.‑3. sæti“ og sagt: „Orðtiltækið að hafna í einhverju sæti í keppni hefur verið mikið í tísku að undanförnu og þeir, sem nota það, virðast ekki skilja merkingu þess. Að hafna í einhverju sæti þýðir að mínu mati að vera aftarlega í röð. […] Svona heimska má ekki viðgangast.“
Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin hafna skýrð 'lenda (einhvers staðar)' og í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002 er hún skýrð 'lenda, enda'. Þessi merking virðist hins vegar vera fremur nýleg því að hana er ekki að finna í tveim fyrri útgáfum bókarinnar, frá 1963 og 1982. Þar er sögnin aftur á móti gefin í merkingu sem er augljóslega skyld, 'taka höfn, leggja(st) við akkeri' með dæminu skipið hafnar sig. Í Þjóðólfi 1858 segir t.d.: Póst-gufuskipið Victor Emanuel hafnaði sig hér að kvöldi 15. þ. mán.“ Þessi notkun sambandsins hafna sig var mjög algeng á seinni hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu, og einnig kemur fyrir afleidd merking: „Að þessu loknu hélt svo X af stað og hafnaði sig á veitingahúsi einu“ segir í Stormi 1931.
Hin venjulega nútímanotkun sagnarinnar er augljóslega sprottin af þessari afleiddu merkingu, auk þess sem sögnin er ekki lengur notuð afturbeygð. Meðal notkunardæma um sögnina bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók er boltinn hafnaði í netinu en í Vísi 1915 segir frá úrslitaleik Knattspyrnumóts Íslands milli Fram og KR: „Leikurinn berst nú fram og aftur um svæðið, þar til Frammenn ná knettinum og leika honum svo snildarlega á milli sín, að hann hafnaði sig í neti Reykjavíkurmanna.“ En í Þjóðviljanum 1944 segir: „Þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leik skaut Bastin voðaskoti með hægra fæti og knötturinn hafnaði í markinu.“ Einhvern tíma á fyrri hluta 20. aldar virðist hafna því hafa misst afturbeyginguna.
Í Skólablaðinu 1907 segir: „Sannleiksleitinni yrði hætt með öllu, og heimurinn allur hafnaði í kyrstöðu, yrði aðsteingervingi.“ Í Unga Íslandi 1912 segir: „Ole Bull hafnaði í Ameríku, og var honum þar tekið með ofsa-fögnuði og opnum örmum, hvar sem hann fór.“ Í Alþýðublaðinu 1922 segir: „kúlan, sem lenda átti í hjarta sjómannsins, hafnaði í fæti hans.“ Í Helgafelli 1942 segir: „obbinn af skáldskap þeim, er út kom á Norðurlöndum, hafnaði í hillum mínum.“ Í Skólablaðinu 1944 segir: „Jón varð stúdent við sæmilegan orðstír og hafnaði í guðfræðideildinni, er hann áleit hæfilegan vettvang fyrir andlega atgervi sína.“ Í Tímanum 1947 segir: „Hann ætlaði að hlaupa út, en villtist og hafnaði í svefnherbergi hjónanna.“ Eftir þetta fer dæmum mjög fjölgandi.
Elsta dæmi sem ég finn um hafna með sæti er í Íþróttablaðinu Sport 1949: „Guðm. Guðmundsson bætti sinn fyrri tíma um 6/10 og hafnaði í fjórða sæti.“ Í Allt um íþróttir 1950 segir: „Guðjón M. Sigurðsson hafnaði í öðru sæti og er það vel af sér vikið.“ Í Íþróttablaðinu 1951 segir: „Það, er kom einna mest á óvart á mótinu var, að Víkingur með sína ungu og óreyndu leikmenn hafnaði í 3ja sæti.“ Í Hamri 1956 segir: „Sigurgeir náði glæsilegum árangri, hann hafnaði í 2.-4. sæti.“ Í Þjóðviljanum 1960 segir: „skákmeistari Sovétríkjanna Victor Korshnoj, sem hafnaði í efsta sæti, tapaði fyrir skákmeistara Nýja Sjálands.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Í svigkeppninni stóð Hákon Ólafsson sig með stakri prýði og hafnaði í öðru sæti.“
Því fer sem sagt fjarri að sögnin hafna sé eingöngu notuð um að lenda neðarlega í keppni, þótt sú notkun sé vissulega algeng. En svo að ég vitni í sjálfan mig í „Daglegu máli“ 1984: „Það sem er hins vegar sameiginlegt með þessum dæmum er að sá sem hafnar einhvers staðar hefur ekki stefnt að því vitandi vits; enginn er sjálfráður um það hvar hann hafnar. Við getum varla sagt ég ætla að hafna í góðri stöðu. Þetta er kannski ástæðan fyrir því að sumum finnst neikvæð merking tengjast þessari sögn.“ Eins og dæmin sýna hefur alla tíð verið hægt að nota sögnina hafna í hlutlausri merkingu, og þegar hún er notuð um stöðu í keppni hefur hún alla tíð getað vísað til efstu sæta. Engin ástæða er til að forðast tal um að hafna í fyrsta, öðru eða þriðja sæti.