Að setja mörk

Í Sumarblaðinu 1916 er sagt frá nýjum knattspyrnulögum sem Íþróttasamband Íslands sé að gefa út. Þar segir: „Eins og menn vita, hefir með öllu vantað íslenzk orð um hin ýmsu atriði þessarar íþróttar. Menn hafa orðið að gera sér gott af, að nota að eins útlend orð eða þá íslenzk orðskrípi, og hefir mörgum þótt slíkt all-ilt.“ En meðal nýmæla í lögunum verði fjöldi nýrra orða sem flest séu komin frá Guðmundi Björnssyni landlækni og „öll eru falleg og skynsamlega mynduð“. Meðal þeirra eru ýmis orð sem enn eru notuð, eins og rangstæður, réttstæður, vítaspyrna, aukaspyrna – og skora mark í stað gera mark. Þetta er elsta dæmið um skora mark á tímarit.is en eftir það kemst orðið í talsverða notkun og hefur verið mjög algengt alla tíð síðan.

En þótt sambandinu skora mark væri ætlað að leysa gera mark af hólmi hvarf það síðarnefnda ekki úr málinu. Elsta dæmi um það á tímarit.is er reyndar úr þessari sömu grein en annað dæmi er úr Morgunblaðinu frá sama ári: „Þrátt fyrir þessa ágætu sókn, tókst þó Reykjavíkur-mönnum ekki að gera mark hjá Fram.“ Þetta samband hefur alla tíð verið algengt, og sama máli gegnir um sambandið setja mark sem er álíka gamalt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Fréttum 1918: „Enda fór það svo að I. Ólafsson setti mark.“ Í Vísi 1922 segir: „Eftir að Skotarnir settu markið óx Íslendingum ásmegin.“ Í Morgunblaðinu 1928 segir: „leið ekki á löngu þar til Skotar settu mark.“ Í Víði 1931 segir: „K.R. menn birjuðu þegar áhlaup og settu mark á fyrstu mínútunni.“

Þótt sambandið setja mark sé vissulega sjaldgæfara en skora mark hefur það verið töluvert notað alla tíð síðan. Þess vegna er sérkennilegt að tala um það sem „skrýtið málfar“ eins og gert var í viðtali við prófarkalesara í Viðskiptablaðinu nýlega: „Íþróttafréttir eru annar vettvangur þar sem Arinbjörn hefur rekist á skrýtið málfar en þar segja fréttamenn oft að leikmenn „setji mörk“ í stað þess að „skora mörk“.“ Eins og fram hefur komið eiga samböndin skora mark, gera mark og setja mark sér öll meira en hundrað ára óslitna hefð og engin ástæða til að gera upp á milli þeirra. Þvert á móti – það er gott að eiga völ á fleiri en einu sambandi í sömu merkingu. Það lífgar upp á stílinn, sem oft veitir ekki af í íþróttafréttum sem oft hættir til að verða dálítið klisjukenndar.