Að þrifta
Um daginn var hér spurt um merkingu orðsins þrifta sem kom fyrir í grein eftir Hólmfríði Jennýjar Árnadóttur í Heimildinni þar sem sagði: „Þá er gott að hafa í huga vistspor og gæði vörunnar, notagildi og muna að við getum keypt notað eða þriftað.“ Í umræðum var bent á að þarna lægi að baki enska sögnin thrift en hún merkir 'to look for or buy something from a thrift store or another place that sells used things such as clothes, books, or furniture' eða 'að leita að eða kaupa eitthvað í endursöluverslun eða annars staðar þar sem seldir eru notaðir hlutir svo sem föt, bækur eða húsgögn'. Sögnin hefur því víðtækari merkingu en bara 'kaupa notað' – merkir líka 'svipast um eftir notuðu' og á sér því enga fullkomna samsvörun í málinu.
Elsta dæmi sem ég finn um sögnina þrifta í íslensku er á Twitter 2020: „Besta við að þrifta var að rekast á óvæntar gersemar.“ En að öðru leyti eru einu dæmin um orðið í greininni sem vitnað var til í upphafi, og í annarri grein sama höfundar í Vísi fyrr á árinu. Í fljótu bragði kann að líta svo út sem þarna sé um hráa ensku að ræða og sumum kann að finnast það gera sögnina óæskilega. En eins og einnig var bent á í umræðu um þetta er ekki allt sem sýnist, því að enska nafnorðið thrift sem sögnin er dregin af er komið af norræna nafnorðinu þrift sem kemur fyrir í fornu máli og er skýrt 'velmegun, velgengni, gengi' í Íslenskri orðabók. Þetta nafnorð kemur ekki fyrir sem samnafn í nútímamáli en hefur verið notað sem nafn á fyrirtæki og hryssunafn.
Sögnin þrifta kemur hins vegar hvorki fyrir að fornu né nýju, fyrr en nú, en er eðlileg afleiðsla af nafnorðinu og því ekkert við hana að athuga sem slíka. Spurningin er hins vegar hvort eðlilegt sé að nota hana í þessari merkingu. Í ensku þróaðist merking nafnorðsins thrift yfir í að vera 'nýtni' eða 'hagkvæmni' eða eitthvað slíkt og þaðan yfir í nútímamerkinguna sem áður var nefnd. Sú þróun er í sjálfu sér eðlileg og skiljanleg en hún hefur auðvitað ekki orðið í íslensku, heldur er enska nútímamerkingin tekin upp og stokkið yfir þróunarstigin og það er vitaskuld hægt að hafa mismunandi skoðanir á réttmæti þess. En ég sé ekki betur en sögnin fari vel í málinu og ég sé ekkert að því að taka hana upp í áðurnefndri merkingu.