Að rýma fólk(i)
Í frétt á Vísi nýlega stóð: „Rýma þurfti fólk úr íbúðarhverfi í nágrenni við golfvellina vegna hvassviðris.“ Ég sá að gerðar voru athugasemdir við þetta orðalag í hópnum Skemmtileg íslensk orð, enda er sögnin rýma vissulega notuð þarna á óvenjulegan hátt. Hún er skýrð 'gera (e-ð) autt, laust' og 'tæma (byggingu) vegna hættuástands' í Íslenskri nútímamálsorðabók og því hefði mátt búast við rýma þurfti íbúðarhverfi af fólki eða álíka. En þess eru þó ýmis dæmi að andlagið vísi ekki til rýmisins sem losað er eða tæmt, heldur til þess sem er fært úr rýminu. Þá tekur rýma venjulega með sér orð eða orðasamband sem vísar til rýmisins sem losað er eða tæmt – forsetninguna úr, atviksorð eins og brott eða burt(u), eða þá forsetningar- eða atvikslið.
Í Skírni 1837 segir: „var þá 392 skógarmönnum rýmt úr héraðinu.“ Í Þjóðólfi 1895 segir: „og bað sendiherrana jafnframt liðveizlu til að rýma fólkinu úr kirkjunum.“ Í Læknablaðinu 1920 segir: „Ekki er gott að flytja barnaveiku börnin inn á einhverja sjúkrastofuna, og rýma fólkinu þaðan burtu.“ Í Heimilisblaðinu 1922 segir: „Hún ætlaði sér nú alveg að rýma honum úr huga sínum.“ Í Vísi 1975 segir: „Ef skyndilega þyrfti að rýma fólki af Reykjavíkursvæðinu og nágrenni þá er ekki með góðu móti hægt að komast neitt.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „Landsbjörg tilkynnti í dag að björgunarsveitir höfðu verið kallaðar út í kringum svæðið til að rýma fólki.“ Sambandið rýma (einhverjum) úr vegi var líka nokkuð algengt áður fyrr.
Í þessum dæmum merkir rýma því ekki 'losa, tæma' heldur 'fjarlægja, færa' og það má bera saman við samsetninguna útrýma – við tölum um að útrýma fólki (af landsvæði) en ekki *útrýma landsvæði, þótt við segjum rýma landsvæði (af fólki). Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 eru nokkur dæmi, m.a. „Hann útrýmdi hórkalla af landinu“ og „En Sebúl útrýmdi Gaal og hans bræður so þeir máttu ekki vera í Síkem“. Merking útrýma hefur reyndar breyst dálítið – áður merkti hún 'fjarlægja, færa' eða 'vísa brott', og þá fylgdi henni oft vísun til þess rýmis sem fólki var vísað brott úr, en eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók merkir hún nú oftast 'eyða (e-u) alveg'– „ætlun nazista var að útrýma Gyðingum í heild“ segir í Frjálsri þjóð 1963.
Dæmin úr Guðbrandsbiblíu sýna að útrýma stýrði áður þolfalli en tekur nú ævinlega þágufall eins og rýma gerir oftast þegar hún vísar til þess sem fært er (rýma fólki). En dæminu sem vísað var til í upphafi stýrir sögnin þó þolfalli eins og hún gerir þegar andlagið vísar til þess sem er losað eða tæmt (rýma húsið). Einstöku önnur nýleg dæmi má finna um þetta – „Þannig þau þurfa að taka á sig smá krók til að komast vestur fyrir sprunguna til að rýma fólk þaðan frá“ segir t.d. í Fréttablaðinu 2021; „Byggingar eru fyrst og fremst hannaðar til að standast eld nægilega lengi til að rýma fólk úr þeim“ segir á Málefnin.com 2008. Trúlegt er að þar sé um að ræða áhrif frá hinni venjulegu notkun rýma þar sem ævinlega er notað þolfall eins og áður segir.
Dæmin sem ég hef tilfært um notkun rýma þar sem andlagið vísar til þess sem er fært eða fjarlægt (rýma fólki), og ekki síst samanburður við sögnina útrýma þar sem andlagið hefur hliðstæða merkingu (útrýma fólki), sýna að dæmið sem vísað var til í upphafi, „Rýma þurfti fólk úr íbúðarhverfi“, er alls ekki jafn fráleitt og virst gæti að óathuguðu máli. Ég ætla samt ekki að leggja til að við förum að tala um að rýma fólk(i) – ég held að það sé heppilegast að halda sig við hina venjulegu notkun sagnarinnar. Tilgangurinn með þessari umfjöllun er bara að minna á að fara varlega í fordæmingu á því sem okkur virðist fráleitt eða óskiljanlegt í fljótu bragði – það á sér oft skýr fordæmi eða hliðstæður í málinu. Sýnum skilning og umburðarlyndi!