Árvakur eða Árvakran?

Í gær var vakin hér athygli á því að í frétt á vef Ríkisútvarpsins hefði verið talað um „Netárás á Árvakran, útgáfufélag Morgunblaðsins“. Þarna er Árvakur sem sé beygt eins og lýsingarorð en ekki nafnorð eins og venja er, enda hefur fréttinni verið breytt og þar er nú talað um „Netárás á Árvakur“. Orðið árvakur er upphaflega lýsingarorð og merkir 'sem vaknar snemma' en hefur lengi einnig verið notað sem nafnorð – „Þeir hestar heita svo: Árvakur og Alsvinnur“ segir í Snorra-Eddu. Helgi J. Halldórsson segir í Skírni 1975: „Árvakur mun eiga að beygjast eins og akur. Orðið kemur fyrir á tveimur stöðum í Snorra-Eddu og einnig á tveimur stöðum í Sæmundar-Eddu. Þar er eignarfallið Árvakurs.“ En ég hef ekki fundið þessi dæmi.

Í lýsingarorðinu árvakur er -ur ekki ending nefnfalls eintölu í karlkyni eins og t.d. í góður, heldur hluti stofnsins og árvakran er því hárrétt lýsingarorðsbeyging. Jafnframt er eðlilegt að þegar orðið er gert að nafnorði sé -ur sé einnig hluti af stofni þess, eins og Jón Aðalsteinn Jónsson segir í Morgunblaðinu 2001: „Þeir, sem mynduðu þetta nafnorð eftir lo., létu það fallbeygjast eins og no. akur, þ. e. sem a-stofna orð með stofnlægu r-i, sem helzt í öllum föllum et. og ft.: akur, akur, akri, akurs, ft. akrar, akra, ökrum, akra.“ En vitanlega er viðbúið að fólk skynji stundum -ur sem nefnifallsendingu og hafi aukaföllin Árvak, Árvaki og Árvaks – elsta dæmi um það er „Alla byrgir Árvaks mön“ í rímum eftir Árna Böðvarsson frá 1777.

En væri fráleitt að beygja orðið sem lýsingarorð eins og upphaflega var gert í fréttinni? Það má bera þetta saman við orðin hvítur og svartur sem vitanlega eru lýsingarorð en notuð sem nafnorð í skákmáli – svartur á leik, hvítur vinnur. Jón G. Friðjónsson segir í Málfarsbankanum: „Í máli skákmanna geta lo. svartur og hvítur ýmist vísað til þess sem stýrir svörtu/hvítu liðsmönnunum eða svarta/hvíta liðsaflans […]. Í fyrri merkingunni mun nokkuð á reiki hvort farið er með orðin svartur/hvítur sem lýsingarorð (hvítur, hvítan, hvítum, hvíts) eða nafnorð (hvítur, hvít, hvíti, hvíts). […] Ég hef vanist því að nota lo.-beyginguna í dæmum sem þessum en tel engin efni til að amast við no.-beygingunni, hér hlýtur málkennd að ráða […].“

Þegar lýsingarorð standa sjálfstæð án nafnorðs halda þau oft lýsingarorðsbeygingu sinni –sérstaklega ef auðvelt er að hugsa sér eitthvert undirskilið nafnorð þótt það sé ekki skilyrði. Þetta á ekki síst við um málshætti og föst orðasambönd, svo sem haltur leiðir blindan, fá sér einn gráan o.m.fl. En þegar lýsingarorð er gert að sérnafni eins og í þessu tilviki er eðlilegt að það fái nafnorðsbeygingu, sérstaklega þegar ljóst er að það er vilji stjórnenda fyrirtækisins sem um er að ræða. Yfirleitt finnst mér sjálfsagt að fólk, fyrirtæki og stofnanir ráði því hvernig nöfn þeirra eru beygð, svo framarlega sem beygingin brýtur ekki í bága við íslenskt málkerfi. Þótt Árvakran geti í sjálfu sér staðist var það því eðlilegt að breyta því í Árvakur í áðurnefndri frétt.