Posted on Færðu inn athugasemd

Skriffinnur og Skraffinnur

Í gær var hér spurt um uppruna nafnorðsins skriffinnska sem er skýrt '(óhófleg) umsýsla sem tefur framkvæmdir' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið skýrt '(bureaukratisk) Pedanteri' og það rímar vel við elstu dæmi um orðið – það fyrsta er í Þjóðólfi 1877: „þetta er eitt skriffinnsku-bragð (Bureaukratismus) og hindurvitni, sem vart á sinn líka.“ Næsta dæmi er í Fróða 1881: „Stríðið í bræðralandi voru Noregi heldur jafnt og þjett áfrarn milli stjórnarinnar annars vegar, sein styðst við skriffinnskuna (bureaukratíið), og þingsins hins vegar, sem styðst við þjóðarviljann.“ Í báðum dæmunum er orðið skýrt með erlendri samsvörun innan sviga sem bendir til þess að það sé nýtilkomið á þessum tíma.

Það er augljóslega skylt nafnorðinu skriffinnur sem skýrt er 'skrifstofumaður í stjórnsýslu' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'sá sem skrifar mikið, blekbullari' í Íslenskri orðabók þar sem það er sagt „niðrandi“, en í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 er það skýrt 'Smörer, Skribler; Bureaukrat'. Elsta dæmi um það er á svipuðum aldri, úr Ísafold 1878: „Gortsjakoff hafði svarað brjefi Salisburys, og gengur í gegn atriðum hans eins og góður og reyndur „skriffinnur“, sem þvælir mál í dómi.“ Orðið var algengt á fyrri hluta síðustu aldar og fram yfir 1980 en hefur dalað á síðustu áratugum, enda sagt „gamaldags“ í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið skriffinnska á sér svipaða sögu en dæmum um það hefur þó ekki fækkað nálægt því jafn mikið.

Í grein í Stundinni 2016 benti Jóhannes Benediktsson á að einnig er til orðið skraffinnur og vitnaði í Sigurð A. Magnússon í Samvinnunni 1970: „Skal skriffinnum blaða og skraffinnum útvarps vinsamlega bent á að taka sér ungu kynslóðina til fyrirmyndar um ábyrgðarfullan og umbúðalausan málflutning.“ Augljóst er að þessum orðum er þarna stillt upp sem hliðstæðum um málæði, annars vegar í riti og hins vegar í tali – skraffinnur er skýrt 'masgefinn maður, málskrafsmaður' í Íslenskri orðabók og skraffinnska er þar skýrð 'málæði'. En skraffinnur er miklu eldra orð en skriffinnur og kemur fyrir í fornu máli – „Hver yðar sveina vill hjálpa skraffinni þessum, svo hann komist af fjallinu?“ segir í Bárðar sögu Snæfellsáss.

Heimildirnar benda til að skriffinnur sé myndað seint á 19. öld, væntanlega með hliðsjón af skraffinnur. Fyrri liðirnir, skrif- og skraf­-, eru auðskiljanlegir og eðlilegir miðað við merkingu orðanna – en hvaðan kemur seinni liðurinn, -finnur? Um það veit ég ekkert, en get bara komið með ágiskanir. Skraffinnur er stundum notað sem mannsnafn – „hann kallaði hann aldrei nema Skraffinn“ segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Hugsanlega er sú notkun upprunaleg og Skraffinnur myndað í stíl við  mannanöfn eins og Dagfinnur, Geirfinnur, Þorfinnur o.fl. án þess að -finnur hafi einhverja merkingu – gæti eins verið Skrafmundur, Skrafgeir eða eitthvað slíkt. A.m.k. er ólíklegt að hægt sé að tengja skriffinnur og skraffinnur við ákveðinn Finn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.