Enn ein snilldin – margar snilldir?

Áðan deildi ég hér pistli um hið stórmerkilega íslenskuátak á Ísafirði og lét fylgja umsögnina „Enn ein snilldin frá Gefum íslensku séns“. Þetta skrifaði ég umhugsunarlaust, en svo fékk ég bakþanka: Ef þetta er enn ein snilldin hljóta að vera komnar einhverjar snilldir áður – en orðið snilld er aldrei haft í fleirtölu, er það? Það er skýrt 'eitthvað snjallt, mikil leikni, miklir hæfileikar' í Íslenskri nútímamálsorðabók og sú merking býður ekki upp á fleirtölu enda hljóma margar snilldir eða þrjár snilldir nokkuð torkennilega. En þegar að er gáð reynist fleirtalan vera gefin upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og það hlýtur að þýða að einhver dæmi séu um hana – enda reynist svo vera, þegar að er gáð.

Í ferðaminningum Tómasar Sæmundssonar frá 1832 segir: „Hér af má sjá, að við sjónarleikinn eru flestar snilldir viðhafðar“ og í ræðu Tómasar frá 1841 segir: „þar eiga og allar hinar fögru snilldirnar heima“. Þarna merkir snilld eiginlega 'list'. Í rímu eftir Jón Þórðarson frá 1864 sem birtist í Strandapóstinum 1977 segir: „Þá er Hildur húsfreyja / hög á snilldir mannkosta.“ Í kvæði eftir Ingimund Gíslason í Ísafold 1895 segir: „tímanum fylgdi hann með snilldum.“ Í grein eftir Stephan G. Stephansson í Baldri 1907 segir: „Svona koma syndir og snilldir feðranna út í dagdómum barnanna.“ Í kvæði eftir Sighvat Borgfirðing í Þjóðviljanum 1907 segir: „þín var útrétt opt til bjargar / og að vinna snilldir margar / auðsnilld, sterka hjálpar hönd.“

Það er athyglisvert að langflest dæmi um fleirtöluna frá tuttugustu öld eru úr kveðskap, og líklegt að rím og hrynjandi valdi því stundum að orðið er notað í fleirtölu. En þegar kemur fram á þessa öld fer fleirtalan að sjást oftar – í viðtali í Fréttablaðinu 2009 segir: „Barði hefur stofnað hljómplötuútgáfuna Kölska sem er undirmerki hjá Senu og segist ætla að gefa út þrjár snilldir á ári. […] „Ég er langt kominn með að finna snilldirnar þrjár fyrir næsta ár.““ Þessar snilldir eru hljómplötur og snilld merkir því 'snilldarverk'. Allmörg dæmi um fleirtöluna frá síðasta aldarfjórðungi má finna á samfélagsmiðlum og þar er merkingin hliðstæð – yfirleitt vísað til einhvers hlutar eða verknaðar. Sama gildir um enn ein snilldin sem er algengt frá aldamótum.

Þótt fleirtalan sé algeng í óformlegu máli samfélagsmiðla virðist hún enn sem komið er lítið sem ekkert vera notuð í formlegra máli þótt sambönd eins og enn ein snilldin sem fela í sér sams konar vísun til hlutar eða verknaðar séu algeng þar. Þetta er enn eitt dæmi um að farið sé að nota fleirtölu af orði sem áður var yfirleitt aðeins notað í eintölu vegna þess að orðið hefur fengið víkkaða eða nýja merkingu – auk almennrar og óhlutstæðrar vísunar er það farið að vísa til einstakra og oft áþreifanlegra fyrirbæra, eintaks af þeirri tegund sem um er rætt, og þá er fleirtalan eðlileg og sjálfsögð. Í þessu tilviki á fleirtalan sér líka gömul fordæmi og það ætti þess vegna ekkert að vera því til fyrirstöðu að tala um snilldir – við þurfum bara að venjast því.