Posted on Færðu inn athugasemd

Flokkshestar og flokksgæðingar

Orðið flokkshestur er ekki í orðabókum þótt það sé orðið aldargamalt í málinu. Elsta dæmi um það er í Heimskringlu 1927: „gömlu flokkshestunum liggur aftur á móti við fælni, ef þeir sjá einhvern, sem vantar flokksmerkið“. En síðan líður hátt í hálf öld uns það sést næst, í Tímanum 1971: „Í bókum hans eru skúrkarnir frjálslyndir menntamenn, og hetjurnar góðir og íhaldssamir flokkshestar.“ Í Alþýðublaðinu 1973 segir: „í augum flokkanna er þing Sameinuðu þjóðanna einskonar náttúrulækningahæli fyrir útjaskaða flokkshesta.“ Í Alþýðublaðinu 1976 segir: „Þær eru líka skrifaðar af „venjulegu“ fólki og um daglegt líf, en ekki uppsuða misviturra leigupenna lundleiðra flokkshesta.“ Upp úr þessu verður orðið nokkuð algengt.

En hvað merkir flokkshestur? Í Þjóðviljanum 1977 segir: „Ég verð að játa að ég hef ekki verið neinn flokkshestur í starfi en hef þó borgað gíróseðla samviskusamlega.“ Í minningargrein um mann sem vann mikið fyrir flokkinn sinn í Alþýðublaðinu 1985 segir: „Einatt er talað óvirðulega um slíka menn og þeim valdar nafngiftir eins og „flokkshestar“ eða „fótgönguliðar“. Í Bæjarins besta 1997 segir: „Þetta hlutverk mun vera velþekkt hjá hinum svokölluðu flokkshestum sem vaða eld og eimyrju fyrir flokkinn sinn hversu annarlega stefnu sem hann kann að reka.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Ég hef alltaf verið pólitískur en aldrei verið flokkshestur. Ég leyfi mér að vera gagnrýninn og greinandi á þann hátt sem mér sýnist sannast og best.“

Orðið virðist því helst notað um fólk sem styður flokkinn sinn gagnrýnislaust gegnum þykkt og þunnt, vinnur mikið fyrir hann og styrkir hann á ýmsan hátt. Oft fylgir lýsingarorðið gamall – í Vísi 1978 segir: „Þeim hefur verið ýtt til hliðar að kosningum loknum af gömlu flokkshestunum.“ Yfirleitt vísar gamall þá fremur til langrar veru í flokknum og íhaldssemi og sterkrar stöðu sem af henni leiðir fremur en til aldurs þeirra sem um er rætt, enda einnig til ungir flokkshestar – „Alþýðuflokks- og alþýðubandalagsmenn kvarta sáran undan því hve lítið er um unga „flokkshesta“ innan þeirra raða“ segir í Luxus 1985 og þar er væntanlega átt við fólk sem er fúst til að fórna sér fyrir flokkinn og leggja á sig vinnu fyrir hann.

Annað skylt orð er flokksgæðingur sem skýrt er 'valdamikill maður innan stjórnmálaflokks' í Íslenskri nútímamálsorðabók en orðið vísar þó ekki síst til þeirra sem flokkurinn hampar og hyglar á ýmsan hátt. Þetta orð er bæði eldra og mun algengara en flokkshestur – elsta dæmið er í Baldri 1909: „eignum þjóðarinnar, sem þeir eru kærðir um að hafa selt í hendur auðfjelaga og ýmsra flokksgæðinga.“ Í Lögbergi 1915 segir: „óráðvandir flokksgæðingar draga dollarana í miljóna tali úr ríkissjóði.“ Í Eimreiðinni 1916 segir: „eða til að borga skuldir flokkanna frá síðustu kosninga-erjunum, og skuldir flokksgæðinganna.“ Í Skildi 1924 segir: „það er svo handhægt að hafa þessa verslun til yfirráða, ef búa þarf til stöðu handa flokksgæðingi.“

Oftast virðist vera nokkur merkingarmunur á flokkshesti og flokksgæðingi en stundum eru orðin þó notuð í sömu merkingu. Í Morgunblaðinu 2005 segir t.d. um nýjan leiðtoga Kína: „Svarið virðist vera að hinn nýi leiðtogi sé vel taminn flokkshestur […] Flest benti til þess að hann væri fyrst og fremst þægur flokksgæðingur.“ Trúlegt er að orðið flokkshestur sé myndað með hliðsjón af flokksgæðingur sem er eldra eins og fyrr segir – orðið gæðingur er skýrt bæði 'maður í sérstakri náð hjá valdamönnum' og 'mjög góður reiðhestur' í Íslenskri nútímamálsorðabók. En önnur fyrirmynd gæti verið vinnuhestur sem er skýrt 'sá eða sú sem er mjög duglegur við vinnu' – það samræmist vel hlutverki flokkshestanna.

Posted on Færðu inn athugasemd

Heldur betur algengt orðasamband

Orðasambandið heldur betur í merkingunni 'aldeilis, svo sannarlega' er ekki nýtt í málinu. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Vísi 1915: „á laugardagskveldið var ætlaði eg […] á verslunarmannaballið á »Hótel Reykjavík«, og var heldur betur búinn að dubba mig upp í kjól og glansleðursstígvél.“ Í sama blaði sama ár segir: „Eg hefi þá heldur betur ástæðu að muna eftir yður.“ Í Höfuðstaðnum 1916 segir: „Þegar pilturinn fór, var hann trúlofaður stúlku hér, sem honum þótti heldur betur vænt um.“ Í Eimreiðinni 1920 segir: „Tvö glorhungruð bjarndýr ráðast þá alt í einu á þá, sem á ísnum eru, og vandast þá málið heldur betur.“ Í Ljósberanum 1924 segir: „Ætluðum við nú heldur betur að koma að þeim óvörum, sem í skóginum bjuggu.“

Sambandið heldur betur getur tekið með sér neitunina ekki og merkir þá 'alls ekki, aldeilis ekki'. Það sýnir að orðin í sambandinu hafa í raun slitið tengslin við uppruna sinn og heldur betur er farið að haga sér sem ein heild, ígildi atviksorðs. Þessi notkun fer fyrst að sjást upp úr 1970 þegar dæmum um sambandið snarfjölgar. Í Alþýðublaðinu 1972 segir: „Þegar í ljós kom strax í fyrstu forkosningunum, að svo var heldur betur ekki, varð Muskie í fyrstu ráðvilltur.“ Í Vísi 1973 segir: „Svo er nú heldur betur ekki.“ Í Dagblaðinu 1977 segir: „Hinir leikmennirnir níu vildu heldur betur ekki hlíta þessum úrskurði dómarans.“ Í Tímanum 1977 segir: „landsliðsmenn okkar voru heldur betur ekki á þeim buxunum að gefast upp.“

Sambandið heldur betur er mjög oft notað sem ákveðið jákvætt svar við spurningu í merkingunni 'svo sannarlega'. Sú notkun er ekki ný – elsta dæmi sem ég rakst á um hana er í Lögbergi 1941: „Þú hefir sjálfsagt komið til Rocky Mountains (Klettafjallanna)?“ „Já, heldur betur.“ Þarna er heldur betur notað til að hnykkja á -inu en fljótlega var farið að nota það eitt og sér, án – í Degi 1947 segir: „Mundum við ekki vera gáfuleg, að hlæja á meðan sulturinn syrfi að?“ „Heldur betur.“ Á seinustu árum hefur orðið sprenging í þessari notkun sambandsins, en jafnframt er farið að nota það í margvíslegu öðru setningafræðilegu umhverfi, ekki síst í upphafi setninga. Hér eru nokkur dæmi frá síðustu árum um fjölbreytta notkun sambandsins:

„Heldur betur dró annars til tíðinda í þættinum“; „Heldur betur eru þær að toppa á réttum tíma“; „Heldur betur hefði ég viljað sjá meira frá mínum mönnum“; „Heldur betur veit ég það“; „Heldur betur kastaðist í kekki hjá hjónunum í kvöldverðinum“; „Heldur betur er farið að styttast í leikinn“; „Heldur betur að lifna yfir KR-ingum“; „Heldur betur að skemmast“; „Heldur betur kominn tími á nýtt“;  „Heldur betur líkindi með þessum tveim“; „Heldur betur nóg að gerast á Old Trafford“; „Heldur betur óskabyrjun hjá honum í búningi Keflavíkur“; „Heldur betur rassskelling hér á Vodafone vellinum!!“ „Heldur betur ágætis upphitun fyrir skemmtilegt laugardagskvöld“; „Heldur betur góð staða heimamanna þegar gengið er til búningsklefa“.

Í þessum dæmum sem fengin eru úr Risamálheildinni er sambandið yfirleitt í frekar lausum setningafræðilegum tengslum við það sem á eftir kemur – sem getur ýmist verið fullkomin setning með sögn í persónuhætti, nafnháttarsetning eða setningarliður sem ýmist hefst á lýsingarhætti þátíðar, nafnorði eða lýsingarorði. Eins og hér hefur komið fram á þetta samband sér langa sögu í málinu og vitanlega er það góð og gild íslenska. En óneitanlega finnst sumum það ofnotað um þessar mundir og æskilegt væri að huga að meiri tilbreytingu í orðavali – það er til dæmis venjulega hægt að nota aldeilis eða (svo) sannarlega í stað heldur betur en tíðni fyrrnefnda orðsins virðist mjög á niðurleið og þeirri þróun mætti vel snúa við.