Að vera búinn
Sambandið vera búinn að í merkingunni 'hafa lokið einhverju' er mjög algengt í nútímamáli – ég er búinn að lesa bókina, ég er búinn að slá garðinn o.s.frv. Þetta samband er líka til í fornu máli en merkir þar 'reiðubúinn, tilbúinn'. Það er stundum augljóst eins og í setningunni „Þú hefir og enn fyrr tekið mig með valdi og varst þá búinn að veita mér bana“ í Hallfreðar sögu – þarna er óhugsandi af merkingarlegum ástæðum að búinn sé í nútímamerkingu. En í setningum eins og „En er Haraldur konungur var búinn að stíga á hest sinn þá bað hann kalla til sína Áka búanda“ í Heimskringlu er þetta ekki augljóst – þarna gæti nútímalesandi skilið „búinn að stíga á hest sinn“ sem 'kominn á bak' en rétta merkingin er 'tilbúinn að stíga á bak'.
Ef við vitum að um er að ræða texta frá 16. öld eða fyrr leikur þó í raun enginn vafi á því að um merkinguna 'reiðubúinn, tilbúinn' er að ræða. Nútímamerkingin kom fyrst fram í lok 16. aldar en eins og venja er um málbreytingar tók það hana töluverðan tíma að ganga yfir og þess vegna getur stundum leikið vafi á því hvor merkingin á við í 17. aldar textum, en frá og með 18. öld er væntanlega óhætt að gera ráð fyrir nútímamerkingunni. Um þetta hefur töluvert verið skrifað – m.a. gerði Mörður Árnason þessari breytingu skil í BA-ritgerð sinni, „Búinn er nú að stríða“ en heiti ritgerðarinnar er tilvitnun í Passíusálma Hallgríms Péturssonar þar sem nýja merkingin kemur fram: „Fyrir blóð lambsins blíða / búinn er nú að stríða / og sælan sigur vann.“
Samspilið milli sambandanna vera búinn að (gera eitthvað) og hafa (gert eitthvað) er mjög margbrotið – stundum er hægt að nota bæði samböndin í u.þ.b. sömu merkingu, stundum er hægt að nota þau bæði en með einhverjum merkingarmun, og stundum gengur bara annað sambandið. Við þetta bætist að tilfinning málnotenda fyrir þessum samböndum, merkingu þeirra og notkun, virðist vera talsvert mismunandi og gæti verið að breytast. Þótt sambandið sé fjögur hundruð ára gamalt í málinu og hafi lengi verið mjög algengt er iðulega er hnýtt í það og það talið ofnotað og fremur tilheyra óformlegu málsniði. Um þetta hefur heilmikið verið skrifað og ekki stendur til að reyna að gera þessu máli skil hér – aðeins nefna örfá atriði.
Jón G. Friðjónsson segir að vera búinn að sé „jafnan notað með lifandi frumlagi (ekki hlutum)“. Það má þó finna fjölmörg dæmi frá ýmsum tímum um að frumlag sé ekki lifandi vera. Í Íslendingi 1862 segir: „háskóli vor er búinn að standa í hálfa öld.“ Í Íslendingi 1875 segir: „Hann er nú einn, sem vjer álítum að seint muni lækna kindur sínar fyrri en stjórnin er búinn að lækna hann sjálfan.“ Í Norðanfara 1878 segir: „vaninn er búinn að rígbinda og blinda skynsemi og samvizku manna.“ Jón segir einnig: „Ýmsar hömlur eru á notkun þess, t.d. munu fæstir geta notað það með sögnunum sofna, vakna, deyja, lifna við og mörgum fleiri.“ Þetta er sjálfsagt misjafnt milli málnotenda, en gömul dæmi má þó finna um búinn að sofna og búinn að deyja.
Mestöll skrif um vera búinn fjalla um vera búinn að (gera eitthvað), sem er vissulega elsta sambandið með vera búinn, en nokkur önnur hafa smátt og smátt orðið til. Sambönd þar sem forsetningarliður með að kemur í stað nafnháttar virðast koma til um miðja 19. öld – elsta dæmi sem ég finn er í Þjóðólfi 1852: „Þegar spásagnarmaðurinn var búinn að því, heimtar hann peninga af bónda fyrir.“ Fallorð forsetningarinnar er alltaf fornafn í þessu sambandi – búinn að því, búinn að þessu, búinn að öllu, búinn að einhverju. Þótt að komi á eftir búinn bæði í búinn að lesa og búinn að þessu er það nafnháttarmerki í fyrra tilvikinu, forsetning í því seinna. Jón G. Friðjónsson telur líklegast að þágufallið á fornafninu sé tilkomið fyrir áhrif frá vera að því.
En á eftir búinn getur einnig komið forsetningin með og engar hömlur eru á þeim orðum sem hún tekur með sér. Slík sambönd eru a.m.k. síðan á fyrri hluta 19. aldar – „var hann búinn með hana seinast í ágústó“ segir í Skírni 1833; „Aptur borgfirzka vinnumanninum verðum við að svara, þegar hann er búinn með brjefið sitt“ segir í Fjölni 1836. Einnig er til sambandið vera búinn á því í merkingunni 'vera örmagna, uppgefinn' og vera (alveg) búinn í sömu merkingu. Auk þess er búinn oft notað án þess að nokkuð komi á eftir þegar ljóst er af samhengi hvað það er sem er búið. Allt eru þetta atriði sem eru bundin við búinn en eiga ekki við sambönd með hafa þótt bæði vera búinn að (gera eitthvað) og hafa (gert eitthvað) gangi oft í sama umhverfi,
Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2006 segist Jón G. Friðjónsson hafa „veitt því athygli að notkun orðasambandsins vera búinn að + nh. hefur aukist talsvert á kostnað hafa + lh.þt.“ og í pistli í Málfarsbankanum segir Jón: „Mikill (of)vöxtur hefur færst í þetta nýmæli í nútímamáli.“ Það má vera rétt að notkun sambandsins hafi aukist á undanförnum áratugum og notkunarsvið þess víkkað. Ég fæ þó ekki betur séð en á seinni hluta 19. aldar hafi það verið mikið notað og ekki ólíkt því sem er í nútímamáli – jafnvel frekar óformlegu. Ég hef grun um, án þess að geta fært sönnur á það, að sambandið hafi orðið fyrir barðinu á einstrengingslegri málvöndun 20. aldarinnar sem hafi komið á það hálfgerðu óorði – en þetta þarf að skoða nánar.