Seiðin smoltuðust

Á vefmiðlum var í dag vitnað í frétt um „Strok laxfiska úr landeldisstöð“ í Öxarfirði á vef Matvælastofnunar en þar segir: „Seiðin voru u.þ.b. 70-80 gr. og ósmoltuð. Ekki er hægt að útiloka að seiðin hafi smoltast í settjörn og komist út í sjó.“ Lýsingarorðið (ó)smoltaður og sögnina smolta(st) er ekki að finna í neinum orðabókum í merkingu sem þarna geti átt við og ekki furða að þau komi ýmsum ókunnuglega fyrir sjónir enda var spurt út í merkingu smoltast í tveimur málfarshópum í dag. Við athugun reynist sögnin komin úr ensku en nafnorðið smolt (einnig til sem sögn) er skýrt 'a young salmon at the stage when it migrates from fresh water to the sea' eða 'ungur lax á því stigi sem hann færir sig úr ferskvatni til sjávar'.

Orðið er ekki alveg nýtt í íslensku – elsta dæmi sem ég finn um sögnina er í Frey 1987: „Á tímabilinu maí–júlí „smolta“ seiðin og eru þá tilbúin að fara í sjó.“ Miðmyndin smoltast kemur einnig fyrir – í Morgunblaðinu 1989 segir: „Þegar laxaseiðið hefur náð vissri stærð […] tekur það á sig sjógöngubúning, „smoltast“. Af sögninni er leitt nafnorðið smoltun – „Þegar laxaseiðin eru orðin þyngri en 20–25 g. ganga þau að vori til í gegnum líffræðilega þróun sem nefnist „smoltun“ segir í Frey 1984. Nafnorðið smolt kemur einnig fyrir – í viðtali við Skúla Pálsson á Laxalóni í Helgarpóstinum 1985 segir: „„Smolt“, það er það sem við köllum þau, þegar seiðin fara að taka mat.“ Lýsingarorðið smoltaður kemur einnig fyrir.

Í Morgunblaðinu 1997 segir: „þegar vissri stærð er náð eru seiðin sett í sleppitjarnirnar og þar dvelja þau þar til ákveðnum þroska er náð. Þau „smolta“ eins og sagt er á afleitri íslensku, en ekkert orð í ylhýra málinu er til yfir þetta ástand á seiðinu.“ Það er samt ekki alveg rétt – í Morgunblaðinu 1987 segir: „laxaseiði með „fingraförum“, áður en þau taka að smolta eða silfrast.“ Sögnin silfrast hefur sem sé eitthvað verið notuð í þessari merkingu – í myndatexta í Veiðimanninum 1975 segir: „Lengst til hægri […] eru stífalin eins árs seiði, sem ekki hafa silfrast.“ En í Morgunblaðinu 1990 er rökstutt að þetta sé óheppilegt orð og sagt: „Hentugra myndi að taka upp hinar alþjóðlegu orðmyndanir „smoltun“, að „smolta“ og að „afsmolta“.“

Ég er ekki laxveiðimaður og þekki ekki orðafar á því sviði, en ef marka má texta á tímarit.is og í Risamálheildinni eru sögnin smolta(st), nafnorðin smolt og smoltun og lýsingarorðið smoltaður fremur notuð á seinustu árum, þótt öll séu orðin mjög sjaldgæf í þessum textum, en silfra(st), silfrun og silfraður virðast vera að hverfa. Nafnorðið smolt er reyndar til í málinu fyrir og merkir 'bráðin fita á yfirborði vökva, einkum fuglafeiti' eða 'flot' samkvæmt Íslenskri orðabók. Sögnina smolta er hins vegar ekki að finna í orðabókum en í athugasemd við áðurnefnda fyrirspurn um smoltast í hópnum Skemmtileg íslensk orð var sagt: „ég þekki, og nota, sögnina að smolta, sem þýðir að fleyta froðu ofan af þegar maður sýður kjötsúpu.“

En þessi merking orðanna er sárasjaldgæf í nútímamáli og stendur ekki í vegi fyrir að þau séu tekin upp í annarri merkingu. Þau falla ágætlega að málinu, enda til í því fyrir eins og áður segir, og ástæðulaust að amast við hinni nýju merkingu þeirra þótt hún sé tekin að láni. Á hinn bóginn má velta fyrir sér ábyrgð fjölmiðla í þessu sambandi. Þegar frétt um málið var birt á vef Ríkisútvarpsins var sagt til skýringar: „Seiði teljast smoltuð þegar þau hafa þroskast nóg til að lifa í sjó“, en í fréttum Vísis og mbl.is í dag var sögnin smoltast tekin skýringalaust upp úr frétt MAST. Vegna þess hversu sjaldgæf sögnin er leyfi ég mér að efast um að margir lesendur hafi skilið hana og það hefði mátt ætlast til að þeir miðlar sem notuðu hana skýrðu hana í leiðinni.