Óþörf orð í orðabókum
Hér var í morgun spurt um nafnorðið heiðrun – hvort það væri nýtt í málinu. Svo er ekki – elsta dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar um það er úr Minnisverðum tíðindum 1796: „að hann med sínu lidi fengi burtfararleyfi í fridi med veniulegri hermanna heidrun.“ Tvö dæmi eru einnig í safninu frá séra Jóni Þorlákssyni á Bægisá sem var fæddur 1744. En spurningin var samt eðlileg því að orðið er ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, ekki í Íslenskri orðabók, og ekki í Íslenskri nútímamálsorðabók, enda þótt dæmin um það á tímarit.is séu á sjötta hundrað og hafi farið fjölgandi í seinni tíð – dæmin í Risamálheildinni eru tæplega tvö hundruð. Það er þó að finna í Íslenskri samheitaorðabók með samheitunum göfgun, vegsauki, virðingarvottur.
Orðið heiðrun er augljóslega myndað af sögninni heiðra með verknaðarviðskeytinu -un eins og fjölmörg önnur nafnorð – -un er eitt frjóasta viðskeyti málsins. Það bætist yfirleitt aðeins við sagnir sem enda á -aði í þátíð þótt örfá dæmi séu um annað, svo sem (upp)lifun. Það má spyrja hvers vegna orðið heiðrun sé ekki að finna í helstu orðabókum, þrátt fyrir að vera meira en tvö hundruð ára gamalt í málinu. Fyrir því geta verið mismunandi ástæður. Ein er sú að þrátt fyrir að slæðingur af dæmum sé um orðið í textum og fari fjölgandi er það (enn) frekar sjaldgæft og gæti einfaldlega hafa farið fram hjá orðabókasemjendum. En önnur skýring gæti verið sú að ekki hafi þótt ástæða til að skýra orðið vegna þess að merking þess þyki liggja í augum uppi.
Merking nafnorða sem eru mynduð af sögn með -un er oftast fullkomlega fyrirsegjanleg út frá merkingu sagnanna – X+un merkir 'það að gera X'. Þannig merkir ritun 'það að rita', könnun merkir 'það að kanna', söfnun merkir 'það að safna', þurrkun merkir 'það að þurrka' o.s.frv. Vissulega getur merking þessara orða stundum víkkað með tímanum þannig að þau vísi ekki einungis til verknaðarins heldur líka til einhvers sem notað er við verknaðinn eða einhvers sem hann leiðir til – stofnun er bæði verknaðurinn að stofna og afurð verknaðarins, skipun er bæði verknaðurinn að skipa og orðin sem notuð eru til að skipa fyrir, o.s.frv. En þessi fyrirsegjanleiki getur stundum valdið því að ekki þyki þörf á að taka orð eins og heiðrun inn í orðabækur.
Þetta er þá svipað því að t.d. fleirtölumyndir orða sem beygjast reglulega eru ekki sérstakar flettur í orðabókum – mynd eins og hestar þarf ekki að vera uppflettimynd vegna þess að merking hennar er fullkomlega fyrirsegjanleg út frá eintölunni hestur og reglum sem við kunnum um tengsl eintölu og fleirtölu. En ef tengsl milli eintölu og fleirtölu eru á einhvern hátt óvenjuleg eða ófyrirsegjanleg er fleirtalan líka uppflettimynd, eins og t.d. lög sem er ekki bara fleirtala af lag heldur hefur líka merkinguna 'formleg, skrifleg fyrirmæli og reglur löggjafans' sem eintalan hefur ekki. Viðskeytið -un er sprelllifandi og orðmyndun með því fullkomlega gagnsæ – ef við vitum hvað sögnin heiðra merkir vitum við líka hvað heiðrun merkir.