Barnamál er ekki skammaryrði

Í málfars- og málvöndunarumræðu er algengt að ýmis málfarsatriði sem fólki þykir athugaverð séu kölluð „barnamál“. Meðal ótal dæma um þetta sem ég man eftir í fljótu bragði eru framburður eins og kondu (í stað komdu), beyging eins og eignarfallið Selfossar (í stað Selfoss), orð eins og  labba (í stað ganga), hringlótt (í stað kringlótt), ristavél (í stað brauðrist) og konuforseti (í stað kvenforseti), orðasambönd eins og klessa á (í stað rekast á) og mikið af fólki (í stað margt fólk), setningagerðir eins og þetta er búið að breytast (í stað þetta hefur breyst), eins og pabbi sinn (í stað eins og pabbi hans), það var barið mig í stað ég var barin(n), og nefið mitt (í stað nefið á mér), merkingin 'hringja bjöllu' í dingla (í stað 'lafa niður, hanga') o.s.frv.

Það er vissulega lítill vafi á því að flest af þessu er upprunnið í máli barna á máltökuskeiði og í sjálfu sér ekkert athugavert við að tala um það sem barnamál í því samhengi – þá merkir það einfaldlega 'mál sem börn tala og þróa með sér frá frumbernsku til unglingsára' eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók. En í áðurnefndum tilvikum hefur orðið verið notað um málfar fullorðins fólks og þá er ljóst að tilgangurinn er sá að gera lítið úr þroska eða andlegu atgervi þeirra sem nota þessi tilbrigði. „Mér kom í hug að þarna mætti sjá skýringu á málglöpum sumra blaðamanna, að þeir hefðu hreinlega ekki náð þeim málþroska að geta tileinkað sér orðfæri fullorðins fólks“ sagði Njörður P. Njarðvík í umræðu um klessa á í Fréttablaðinu 2007.

Það er vont að nota orðið barnamál á þennan hátt. Í fyrsta lagi á það ekki við vegna þess að þarna er verið að tala um fullorðið fólk – hafi það á máltökuskeiði tileinkað sér einhver frávik frá máli fullorðinna og haldi þeim á fullorðinsaldri hætta þessi frávik þar með að vera barnamál. En í öðru lagi felur þessi notkun orðsins barnamál í sér ákveðna lítilsvirðingu við börn og mál þeirra. Í máli allra barna á máltökuskeiði koma fyrir fjölmörg frávik frá máli fullorðins fólks, ekki síst vegna þess að börn alhæfa ýmsar reglur sem þau hafa áttað sig á í máli fullorðinna en eru ekki búin að fínpússa reglurnar eða læra undantekningar frá þeim. Þótt mál barna víki frá máli fullorðinna á ýmsan hátt er það ekki endilega ófullkomnara – og alls ekki ómerkilegra.

Þvert á móti – mál barna er oft mjög rökrétt, miklu rökréttara en mál fullorðinna. Um daginn voru sögð hér dæmi úr máltöku þriggja ára stráks sem á tæplega sex ára systur sem er eðlilega fyrirmynd hans í mörgu. Hann sagði til skamms tíma „Ég er södd“ eins og hann heyrði systur sína segja. Nú er hann farinn að átta sig á kynbeygingu lýsingarorða og segir „Ég er söddur“ – hefur tekið eftir því að þegar talað er um stráka er oft bætt -ur við orðin sem notuð eru um stelpur. Hann hefur hins vegar ekki enn áttað sig á því að þar sem er ö í orðum um stelpur er oft a í orðum um stráka. Það kemur örugglega fljótlega, en út frá hans forsendum er söddur á þessu stigi fullkomlega eðlileg og rökrétt mynd – eðlilegt barnamál, í jákvæðri merkingu.

Strákurinn alhæfir líka þessa nýuppgötvuðu reglu um að -ur einkenni orð sem notuð eru um stráka og harðneitar því að systir hans sé snillingur – segir að hún sé snilling af því að hún er stelpa. Við vitum að nafnorð beygjast ekki í kynjum og snillingur er karlkynsorð sem er notað um fólk af öllum kynjum – en hvernig á strákurinn að átta sig á því? Hann heyrir sagt þú ert duglegur og þú ert snillingur – lýsingarorðið duglegur og nafnorðið snillingur hafa sömu stöðu í setningunni og þess vegna eðlilegt að álykta að þau hagi sér á sama hátt – fyrst sagt er þú ert dugleg um stelpu hlýtur líka að vera sagt þú ert snilling. Eins og í dæminu á undan er þetta  fullkomlega eðlileg og rökrétt ályktun – út frá þeim forsendum sem strákurinn hefur.

Börn ná valdi á því máli sem þau heyra talað í kringum sig – jafnvel fleiri en einu máli – á ótrúlega stuttum tíma. Þau eru einstaklega nösk á að átta sig á reglum málsins og byggja upp sitt eigið málkerfi út frá þeim brotakenndu og oft misvísandi upplýsingum sem þau fá úr málumhverfinu. Stundum túlka þau þessar upplýsingar á annan hátt en fullorðna fólkið og draga af þeim ályktanir sem ekki samræmast máli fullorðinna og það getur leitt til frávika frá málhefðinni. Flest frávikin hverfa smátt og smátt eftir því sem börnin fá meiri upplýsingar og greining þeirra á málumhverfinu verður nákvæmari, en einstöku frávik haldast til fullorðinsára. Þá eru þau ekki lengur barnamál – og það er rangt að nota það orð sem eins konar skammaryrði.