Forsetningar með dalanöfnum

Með staðanöfnum er ýmist notuð forsetningin á eða í, eins og alkunna er. Iðulega taka staðanöfn með sama seinni lið mismunandi forsetningar – á Húsavík en í Reykjavík; á Akranesi en í Borgarnesi; á Seyðisfirði en í Hafnarfirði; á Blönduósi en í Grafarósi; á Djúpavogi en í Kópavogi; á Fellsmúla en í Holtsmúla; á Kaldadal en í Skorradal; o.s.frv. Reynt hefur verið að finna reglur um þetta en gengið misjafnlega. Guðrún Kvaran hefur fjallað um þetta í grein á Vísindavefnum – að einhverju leyti fer það eftir landshlutum, að einhverju leyti eftir aðstæðum á hverjum stað, o.s.frv. – en yfirleitt eru þó einhverjar undantekningar frá reglunum. En nýlega rakst ég á forvitnilega athugasemd um forsetninganotkun með staðanöfnum í grein í Degi 1957:

Konráð Vilhjálmsson skrifar: „Þegar dalur telst láglendur, er forsetningin í notuð fyrir nafninu. En liggi hann hærra í landinu er notuð forsetningin á. Þess vegna er sagt: Í Reykjadal, í Vatnsdal, en aftur á móti: Á Jökuldal, á Flateyjardal, á Þegjandidal, á Laxárdal (í Húnav.sýslu). Þessi fylgd staðanafna og forsetninga hefur haldizt að mestu óbreytt frá fornu fari allt fram yfir síðustu aldamót. En á síðustu áratugum hefur um þetta gætt nokkurra breytinga: Nú hef ég heyrt menn segja og séð menn rita: Í Jökuldal, í Flateyjardal, og fleiri dalanöfn hafa fyrir slíkri brenglun orðið. En þess ber vel að gæta, að hér eigum við að segja og rita á, en ekki í. Engin finnanleg ástæða er til að hverfa hér bæði frá fornum rithætti og málvenju.“

Konráð bætir við: „Um þau bæjanöfn, sem kennd eru við nes, er það að segja, að fyrir sumum þeirra hefur verið höfð forsetningin í, en á fyrir öðrum, og sú skipan haldizt lengstum óbreytt á hverjum stað. Hefur þar enn ráðið úrslitum afstaða eða landslag jarðanna. Sagt er með fullum rétti: Í Nesi í Höfðahverfi og í Nesi í Aðaldal. En á hinn bóginn hefur allt af verið sagt og ritað á Sauðanesi; stendur og sá staður hærra en hinir eða á nokkurs konar ási, enda þótt nes sé þar einnig réttnefni.“ Kannski er þessi regla um tengsl forsetninga við afstöðu í landslagi vel þekkt þótt ég minnist þess ekki að hafa séð hana áður og hef ekki athugað hversu traustum fótum hún stendur, en sýnist í þó að Konráð hafi nokkuð til síns máls a.m.k. hvað varðar dala-nöfnin.