Megnugur

Í dag var hér spurt hvort bæði hvers hann er megnugur og hversu megnugur hann er væri rétt. Til að átta sig á þessu er nauðsynlegt að athuga að setningagerð þessara tveggja dæma er ólík. Í fyrri setningunni er hvers eignarfall af spurnarfornafni og stýrist af lýsingarorðinu megnugur sem er skýrt 'sem er fær um e-ð, sem hefur e-ð í valdi sínu' í Íslenskri nútímamálsorðabók – sagt er vera megnugur einhvers eða vera einhvers megnugur. Í seinni setningunni er hversu spurnaratviksorð sem merkir 'hvað mikið, hve' og stendur venjulega sem ákvæðisorð með lýsingarorði eða atviksorði – hversu gamall, hversu lengi o.s.frv. Setningarnar tvær hafa því ólíka merkingu en geta vissulega báðar verið góðar og gildar ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt.

En í hefðbundinni notkun er lýsingarorðið megnugur eitt þeirra orða sem ekki geta verið án frekari skilgreiningar af einhverju tagi – það er ekki hægt að segja *ég er megnugur á sama hátt og ég er sterkur, heldur verður að segja t.d. megnugur einhvers eða megnugur um eitthvað. Þetta er hliðstætt því að tæplega er hægt að segja *ég er verðugur eða *ég er  hliðhollur eða *ég er vinveittur, heldur verður að vera verðugur einhvers, hliðhollur einhverjum og vinveittur einhverjum. Ef sagt er (ég veit ekki) hversu megnugur hann er verður því að koma eitthvert framhald, t.d um að leysa vandamálið eða eitthvað slíkt. Þrátt fyrir þetta má finna slæðing af dæmum þar sem megnugur er notað án nokkurrar skilgreiningar.

Í Alþýðublaðinu 1928 segir: „Ég hygg því ekki annað ráð vænna, en að þeir […] myndi með sér félagsskap […] og sýni hversu megnugir þeir eru.“ Í Tímanum 1948 segir: „mun þar m.a. reyna á, hversu megnug þessi samtök eru.“ Í Skólablaðinu 1943 segir: „Hélt hún þvi næst fund í kjallaranum og ákvað að sýna forseta hversu megnugir meðlimir klúbbsins væru.“ Í Tímanum 1978 segir: „gömlu jaxlarnir í KR sýndu þá hversu megnugir þeir eru.“ Í Iðnnemanum 1986 segir: „Þetta sýnir hversu megnug samtök iðnnema geta orðið.“ Í DV 1991 segir: „Valsmenn tóku þá við sér og sýndu hversu megnugir þeir eru.“ Í DV 2005 segir: „Hann telur Íslendinga ekki gera sér nægilega grein fyrir þvi hversu megnug náttúran geti orðið.“

Þessi dæmi voru sárafá fram undir 1990 en fjölgaði þá talsvert þótt þau séu ekki ýkja mörg. Það mætti ímynda sér að hversu væri þarna einhvers konar misskilningur eða villa fyrir hvers þannig að merking og setningagerð væri í raun eins og í hvers megnugur en sú skýring gengur ekki upp í dæmum þar sem önnur atviksorð standa með megnugur. Í ræðu á Alþingi 1923 segir: „Hann veit, að þessir menn geta orðið talsvert megnugir innan skamms.“ Í Tímanum 1954 segir: „Hann virðist líklegur til að hafa um sig allfjölmenna deild trúaðra áhangenda, er getur orðið talsvert megnug innan flokks republikana.“ Í Morgunblaðinu 2004 segir: „Við erum nefnilega ótrúlega megnug þegar við sjálf ákveðum að gera eitthvað í okkar málum.“

Bæði setningagerð og samhengi bendir til þess að í þessum setningum sé megnugur ekki notað í merkingunni 'fær um' heldur látið merkja 'öflugur, magnaður'. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að orðið sé (mis)skilið á þann hátt – það er komið af megin eða megn sem merkir ‚kraftur, afl‘ og skylt lýsingarorðinu magnaður. Oft gætu báðar merkingarnar átt við, eins og í „En hann var frábær í þessum leik og sýndi hvers megnugur hann er“ í Morgunblaðinu 2005 og það eru ekki ólíklegt að merkingarbreytingin eigi sér rætur í (mis)túlkun á slíkum setningum. En þessi breyting virðist ekki vera orðin ýkja útbreidd enn sem komið er og því er æskilegt að andæfa henni og leyfa lýsingarorðinu magnaður að halda sinni gömlu merkingu.