Ferðamannaiðnaður og ferðaþjónusta

Orðið ferðamannaiðnaður bar á góma hér í gær í umræðu um annað efni. Oft hefur verið amast við þessu orði, m.a. vegna þess að seinni liðurinn, -iðnaður, eigi ekki heima þarna vegna þess að hann merki 'vélvædd eða sjálfvirk framleiðsla efna og varnings úr hráefnum' svo að vitnað sé í Íslenska nútímamálsorðabók. En þar er reyndar líka gefin önnur merking orðsins í samsetningum – 'umfangsmikil atvinnugrein, s.s. kvikmyndaiðnaður, ferðamannaiðnaður'. Þess ber einnig að geta að orðið iðnaður eitt og sér virðist stöku sinnum hafa getað merkt 'atvinnugrein' áður fyrr – í Þjóðólfi 1854 segir: „Enginn iðnaður er eins gamall, eða hefur jafnlengi verið stundaður af mannkyninu, eins og jarðyrkjan.“ En þetta er mjög sjaldgæft.

Elsta dæmi um orðið ferðamannaiðnaður á tímarit.is er frá 1949: „En þau hafa mikla þýðingu fyrir ferðamannaiðnaðinn í Manitoba.“ Þetta er úr vesturíslenska blaðinu Lögbergi og lítill vafi á að þarna er um að ræða beina þýðingu á travel industry í ensku. En fyrsta dæmi í blaði á Íslandi er í Tímanum 1962: „og er það ekki sú tegund gesta, sem hinn svonefndi ferðamannaiðnaður sækist mest eftir.“ Sárafá dæmi eru þó um orðið fram um 1970, og í Tímanum 1972 er enn notað orðalagið „hinn svokallaði ferðamannaiðnaður“. Tíðnin eykst svo ört og náði hámarki um miðjan níunda áratuginn, en hefur verið á hægri niðurleið síðan. Alls eru tæplega 2.500 dæmi um orðið á tímarit.is en hátt í fjögur þúsund í Risamálheildinni.

Annað orð sömu merkingar en aðeins eldra í málinu er ferðamannaþjónusta. Elstu dæmi um það eru fyrirsagnirnar „Ferðamannaþjónustan“ í Samvinnunni 1946 og Alþýðublaðinu sama ár. Í Þjóðviljanum 1948 segir: „Sú stétt manna sem stundar ferðamannaþjónustu í Ítalíu er gersamlega afturúr.“ Alls eru þrjú þúsund dæmi um þetta orð á tímarit.is og það varð mjög algengt um miðjan níunda áratuginn en hefur síðan verið á hraðri niðurleið og er t.d. ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók – í Risamálheildinni eru þó um 1.450 dæmi um það.  En það hefur látið í minni pokann fyrir orðinu ferðaþjónusta sem kom fyrst fram um svipað leyti en hafði þá yfirleitt aðra og nokkru þrengri merkingu en það hefur nú.

Elsta dæmi um orðið ferðaþjónusta er í Degi 1950: „þ.á.m. hefur Gunnar umboð ferðaþjónustu ýmissa flugfélaga, járnbrauta- og skipafélaga.“ Þarna snýst málið um ferðir sem eru í boði. Annað dæmi er í Samtíðinni 1951: „að loknu námi fór hann á vegum verksmiðjunnar til Erfurt og gegndi síðan svonefndri ferðaþjónustu fyrir hana til 1942.“ Hér virðist rætt um þjónustuferðir til viðskiptavina. Þriðja dæmi er í Tímanum 1952: „Þórir sonur hans byrjaði snemma á bílaakstri og hóf strax ferðaþjónustu á vegum út frá Ísafirði.“ Þarna vísar orðið til þess að halda uppi ferðum. Árið 1957 var stofnsett Ferðaþjónusta stúdenta þar sem ferðaþjónusta var þýðing á travel service og samsvaraði einna helst því sem nú heitir ferðaskrifstofa.

Fram um 1980 var orðið einkum notað í þessari merkingu, þ.e. 'þjónusta í sambandi við ferðir' eins og í auglýsingu frá ferðaskrifstofu í Morgunblaðinu 1960: „Farpantanir og farseðlar, ásamt allri ferðaþjónustu annast sérhæfðir afgreiðslumenn okkar.“ Fyrsta dæmi sem ég finn um orðið ferðaþjónusta í núverandi merkingu eins og hún er skilgreind í Íslenskri nútímamálsorðabók, 'atvinnugrein sem tengist ferðamönnum, t.d. skipulagðar hópferðir og hótelrekstur', er í Frjálsri verslun 1961: „Ferðaþjónusta er stöðugt vaxandi atvinnugrein um víða veröld.“ Þessari merkingu bregður stöku sinnum fyrir næstu árin en verður ekki áberandi fyrr en eftir 1980. Í Íslendingi 1980 segir: „Ferðaþjónusta er í raun bæði útflutningsatvinnuvegur og þjónustugrein.“

Eftir 1980 jókst notkun orðsins í þessari merkingu mjög og tíðni þess margfaldaðist á níunda áratugnum og aftur á þeim tíunda. Gísli Jónsson fjallaði margoft um orð á þessu sviði í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu og mælti eindregið með orðinu ferðaþjónusta en fannst ferðamannaiðnaður afleitt. En hann nefndi einnig orðið ferðaútvegur sem fyrst kemur fyrir í Vikunni 1970: „Ýmsir gera sér vonir um að Íslendingar geti haft góða atvinnu af ferðaútvegi.“ Gísli vildi nota ferðaútvegur um atvinnugreinina en ferðaþjónusta um starfsemina og gera þannig svipaðan mun og er á orðunum sjávarútvegur og fiskveiðar. Öðrum fannst samt óþarft að gera þennan mun, og ferðaútvegur er nær horfið úr málinu – aðeins 180 dæmi á tímarit.is.

Í Morgunblaðinu 1986 segir Birna G. Bjarnleifsdóttir að á ferðamálaráðstefnu í Vestmannaeyjum haustið áður hafi verið „samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að halda sig við orðið ferðaþjónusta“ frekar en taka upp orðið ferðaútvegur og árið 1998 var heiti Sambands veitinga- og gistihúsa breytt í Samtök ferðaþjónustunnar. Það er því ljóst að í samkeppni orða á þessu sviði hefur ferðaþjónusta orðið ofan á, enda styttra og liprara en keppinautarnir – á tímarit.is eru hátt í sextíu þúsund dæmi um orðið og yfir hundrað og sextíu þúsund í Risamálheildinni. Þrátt fyrir það er orðið ferðamannaiðnaður enn töluvert notað eins og áður er nefnt, en mér finnst ástæða til að mæla eindregið með því að nota ferðaþjónusta.