Með sjálfstraustið í botni
Nafnorðið botn hefur ýmsar merkingar en aðalmerkingin sem aðrar merkingar eru væntanlega komnar af er '(flatur) neðsti hluti e-s' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið er oft notað um neðsta eða síðasta sæti í einhverri röð, ekki síst í íþróttakeppnum. „Þróttur frá Neskaupstað er nú aftur kominn á botninn í deildinni“ segir í Tímanum 1973; „Fylkir lenti á botninum“ segir í Þjóðviljanum sama ár. En einnig hefur það lengi verið notað um ástand fólks. Í Tímanum 1975 segir: „Leið hans hefur legið niður á við um árabil, en nú er hann kominn á botninn, því hann þambar kaffi og reykir Winston.“ Í Vikunni 1979 segir: „Ég var aftur kominn á botninn bæði andlega og fjárhagslega.“ Í DV 2002 segir: „Hún endaði á botninum í neyslu.“
Það er sem sé yfirleitt ekki gott að lenda á botninum eða vera kominn á botninn – þarna merkir botn 'lágmark, lægsta hugsanleg staða' eða eitthvað slíkt. En hins vegar bregður svo við að botn er einnig notað um jákvætt ástand, svo sem vera með sjálfstraustið í botni þar sem botn virðist merkja 'hámark' sem er eiginlega þveröfugt við önnur sambönd. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru reyndar tilgreind orðasambönd með botn þar sem þessi sama merking kemur fram, svo sem gefa allt í botn í merkingunni 'keyra mjög hratt, stíga fast á bensínið' og <stilla tónlistina> í botn í merkingunni '(stilla tónlistina) mjög hátt'. Hvernig stendur á því að botn er notað á þennan hátt sem virðist vera í andstöðu við grunnmerkingu orðsins?
Upprunans er án efa að leita í sambandinu stíga bensínið í botn sem er a.m.k. hátt í 90 ára gamalt – kemur fyrst fyrir á prenti 1938. Í Skólablaðinu það ár segir: „Benzínið er stigið í botn, en vélin gengur jafn silalega og áður.“ Í Morgunblaðinu sama ár segir: „bílstjórinn segir, að hann hafi þurft „að stíga bensínið í botn“ til að fá vjelina til að vinna.“ Þetta samband, oft með bensíngjafann eða bensíngjöfina í stað bensínið, var lengi mjög algengt en dregið hefur úr tíðni þess á seinni árum. En það var hægt að stíga fleira í botn en bensínið. Í Alþýðublaðinu 1962 segir: „Um leið og ökumaðurinn steig bremsurnar í botn, heyrðist ægilegt öskur yfir höfðum þeirra.“ Í Austra 1958 segir: „Með fastri spyrnu stíg ég allt í botn, tengsli og hemla.“
Í þessum dæmum hefur botn í upphafi bókstaflega merkingu, þ.e. 'botn bílsins' – þótt vissulega sé algengara að tala um gólf í bílum kemur botn þó fyrir í þeirri merkingu og er auðskiljanlegt. En vegna þess að langalgengast var að tala um aflgjafann bensín í þessu sambandi hefur fólk farið að skilja botn sem 'hámark' – vera með bensínið í botni er þá skilið sem 'nota hámarksafl' eða 'vera á hæstu stillingu' og þá opnast leið fyrir að nota botn í öðru samhengi. Í Dagblaðinu 1976 segir: „Meiri hlutinn vill músík til að hreyfa sig eftir, æsa sig upp, til að drekka með, til að syngja með og „fíla allt í botn“.“ Í Skólablaðinu 1977 segir: „Mikil (og vaxandi) þörf fyrir það að nota sterk og „sláandi“ orð, t.a.m. […] (að) fíla (eitthvað í botn).“
Þarna er augljóslega um að ræða merkinguna 'hámark', og í langflestum tilvikum merkir í botn / botni 'hámarksstillingu hljóðstyrks'. Slík dæmi koma til á níunda áratugnum. Í Þjóðviljanum 1983 segir: „Djasssíða Þjóðviljans hvetur alla ærlega djassgeggjara að setja græjurnar í botn.“ Í Helgarpóstinum 1985 segir: „Ég þótti víst ekkert sérstaklega efnilegur unglingur, baldinn og alltaf með músíkina í botni.“ Í Morgunblaðinu 1986 segir: „hann er að gera æfingarnar sjálfur í takt við tónlistina og útskýra þær með tónlistina í botni.“ Í Morgunblaðinu 1988 segir: „bílstjórinn setur útvarpið í botn með grísku hljómlistinni og syngur með.“ Í Degi 1988 segir: „Hann trommaði svo í stofunni heima hjá sér með plötuspilarann í botni.“
Svo var farið að nota í botni í merkingunni 'hámark' um ýmislegt sem ekki er stillanlegt. Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Það væri mjög huggulegt að geta borgað leiguna á réttum tíma og vera ekki alltaf með yfirdráttinn í botni.“ Í Austurglugganum 2003 segir: „Fram kom í svari frá sveitarfélögunum að hjá þrettán af fimmtán væri útsvarið í botni.“ En einnig var farið að nota þetta um fólk, einkum með orðinu sjálfstraust – í DV 1997 segir: „KR-ingar eru á bullandi siglingu og með sjálfstraustið í botni.“ Alls eru 63 dæmi um sjálfstraustið í botni á tímarit.is, öll hin frá þessari öld, og hátt í tvö hundruð í Risamálheildinni. Einnig eru dæmi um egóið, metnaðinn, sjálfsálitið o.fl. með í botni – yfirgnæfandi meirihluti dæma er úr íþróttafréttum.
Þetta er mjög áhugavert og skemmtilegt dæmi um það hvernig merking orðs snýst í raun alveg við í ákveðnu sambandi – í stað þess að merkja 'neðsti hluti, lágmark' fer botn að merkja 'hámark' þannig að vera með sjálfstraustið í botni merkir það sama og vera með sjálfstraustið í toppi sem einnig kemur fyrir, þótt toppur og botn séu venjulega andstæður. Öll stig þessarar breytingar eru fullkomlega eðlileg og skiljanleg og eiga sér ýmsar hliðstæður en útkoman gæti samt verið ruglandi – ef ég væri að sjá sjálfstraustið í botni í fyrsta skipti myndi ég sennilega telja það merkja sama og „Ég hef verið algerlega á botninum með sjálfstraust“ á Bland.is 2009. En samhengið sýnir yfirleitt hvað sambandið merkir og við lærum það.