Posted on Færðu inn athugasemd

Öðru hvoru og öðru hverju

Áðan var hér spurt hvort fólk væri „alveg hætt að greina mismuninn“ á öðru hverju og öðru hvoru – en hver er þessi munur? Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2006 sagði Jón G. Friðjónsson: „Spurnarfornafnið hvor vísar til annars af tveimur en hver til fleiri en tveggja. Í samræmi við það er (eða ætti að vera) merkingarmunur á orðasamböndunum öðru hvoru og öðru hverju. Orðasambandið öðru hverju vísar til þess sem gerist aftur og aftur með ákveðnu millibili (endurtekin merking) […]. Öðru hvoru vísar hins vegar til annars tilviks af tveimur […].“ Þrátt fyrir að telja að þarna „ætti að vera“ munur segist Jón hafa „veitt því athygli að í nútímamáli er algengt að enginn munur sé gerður á öðru hverju og öðru hvoru“.

Í pistli frá 2015 í Málfarsbankanum er Jón svo orðinn afdráttarlausari um þetta samfall og segir:Í nútímamáli er t.d. ýmist sagt öðru hverju eða öðru hvoru án merkingarmunar […].“ Hér er rétt að athuga að „í nútímamáli“ er þarna skilgreint nokkuð rúmt – Jón vísar í ýmis dæmi allt frá fyrri hluta 18. aldar þar sem öðru hvoru er notað þar sem hann telur að búast mætti við öðru hverju. Stundum er því þó haldið fram að öðru hverju sé hið eina rétta. Í Einingu 1953 er vitnað í Magnús Finnbogason menntaskólakennara sem var þekktur málvöndunarmaður „og nú minnir hann okkur á að segja […] Ekki: öðru hvoru – heldur: öðru hverju“. Málfarsbankinn er ekki eins afdráttarlaus en segir þó: „Talið er betra mál að segja öðru hverju en „öðru hvoru“.

Þarna eru sem sé komin fram tvö sjónarmið – annars vegar telur Jón G. Friðjónsson rétt að nota ýmist öðru hvoru eða öðru hverju eftir merkingu, og hins vegar vilja Magnús Finnbogason og Málfarsbankinn alltaf nota öðru hverju, óháð fjölda tilvika að því er virðist. Þriðja sjónarmiðið kemur fram hjá Gísla Jónssyni í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1987: „Öðru hvoru eða öðru hverju. Erfitt er að segja að annað sé réttara en hitt. […] Hæpið mun að greina þetta eftir því, hversu oft eitthvað gerist, því að tímaviðmiðunin í þessu er svo afstæð.“ Ég tek undir þetta. Ég hef enga tilfinningu fyrir því að einhver merkingarmunur sé á öðru hvoru og öðru hverju og held að ég noti þessi sambönd til skiptis á tilviljanakenndan hátt.

Ég held nefnilega að tvö fyrri sjónarmiðin byggist á misskilningi – eins og dæmi hjá Jóni G. Friðjónssyni sýna er þar verið að blanda saman atviksorðunum öðru hvoru og öðru hverju annars vegar og beygingarmyndum fornafnanna annar hvor og annar hver hins vegar. Á fornöfnunum er gerður greinarmunur eftir því hvort vísað er til tveggja eða fleiri, en í aviksorðunum sem málið snýst um hér vísar hvor aldrei til fjölda tilvika, annars af tveimur – það er óhugsandi í merkingunni 'við og við'. Það skiptir því ekki heldur máli hvort sagt er öðru hvoru eða öðru hverju vegna þess að merkingarmunur getur ekki verið fyrir hendi – enda eru öðru hvoru og öðru hverju gefin athugasemdalaust í sömu merkingu í orðabókum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Eignarfallsfrumlög

Tvær fyrirsagnir á mbl.is í morgun vöktu athygli ýmissa og voru m.a. gerðar að umtalsefni í Málvöndunarþættinum – „Líklegt að áhrif kerfisbilunar gæti hérlendis“ og „Áhrifin gæta ekki hjá Play“. Myndirnar áhrif og áhrifin gætu formsins vegna verið hvort heldur er nefnifall eða þolfall en fleirtalan gæta sýnir að um nefnifall er að ræða í seinni setningunni a.m.k. Sögnin gæta tekur hins vegar með sér eignarfall í þessari merkingu í hefðbundnu máli þannig að búast hefði mátt við áhrifa og áhrifanna. Báðum fyrirsögnum var líka fljótlega breytt og eru „Líklegt að áhrifa kerfisbilunar gæti hérlendis“ og „Áhrifanna gætir ekki hjá Play“. En er einhver skýring á því að þarna var í upphaflegri gerð fréttanna notað nefnifall í stað eignarfalls?

Í íslensku er frumlag setninga langoftast í nefnifalli. Allnokkrar sagnir taka þó frumlag í þolfalli, svo sem langa, vanta, dreyma, syfja, reka (á land), daga (uppi) en þolfall sem frumlag á þó nokkuð í vök að verjast eins og kunnugt er og margar þessar sagnir hafa tilhneigingu til að breyta um frumlagsfall – fá þágufall eins og langa, vanta og dreyma eða nefnifall eins og dreyma, reka (á land) og daga (uppi), svo að fáein dæmi séu tekin. Fjöldi sagna tekur þágufallsfrumlag, eins og líka, leiðast, finnast, sýnast og sambönd með vera eins og vera kalt, vera illt o.s.frv. Hins vegar taka aðeins örfáar sagnir eignarfallsfrumlag – Jóhannes Gísli Jónsson telur sjö í grein í Íslensku máli: bíða, geta, gæta, kenna, missa við, njóta (við) og þurfa.

Allar þessar sagnir eru einnig til með nefnifallsfrumlagi, ýmist í svipaðri merkingu eða ekki – til er bæði mín bíður erfitt verkefni og ég bíð eftir þessu, hennar getur í þessu kvæði og hún getur gert þetta, verkjanna gætir ekki og ég gæti að mér, það kenndi aflsmunar og ég kenndi hana, hans missti við og ég missti hann, hans nýtur ekki við og hún nýtur þessarar bókar, og þess þarf ekki og ég þarf þess ekki. Við bætist að flestar þessara sagna – sem og fáeinar aðrar sem mætti bæta við listann – eru sjaldgæfar með eignarfallsfrumlagi og sumar mjög sjaldgæfar. Þess vegna er í sjálfu sér ekkert undarlegt að fallstjórn þeirra hafi tilhneigingu til að breytast og dæmigert frumlagsfall, nefnifall, koma í stað eignarfallsins – eins og í umræddum fréttum.

Ef sögn sem hefur svipaða merkingu og gæta en tekur nefnifallsfrumlag eins og t.d. finnast, eða samband eins og koma fram, væri sett í stað gæta í upphaflegri gerð áðurnefndra fyrirsagna væri ekkert við þær að athuga – Líklegt að áhrif kerfisbilunar komi fram hérlendis, Áhrifin finnast ekki hjá Play. Sennilega hefur fréttaskrifurum fundist að gæta tæki nefnifallsfrumlag eins og langflestar sagnir. Almennt séð er meinlaust þótt einstakar sagnir breyti um fallstjórn og ég hef t.d. engar áhyggjur af breyttri fallstjórn með langa, vanta, dreyma og slíkum sögnum. En þar sem sagnir sem taka eignarfallsfrumlag eru svo fáar munar um hverja einstaka, og vegna þess að eignarfallsfrumlög eru eitt af sérkennum íslenskunnar væri mikil eftirsjá að þeim.

Posted on Færðu inn athugasemd

Arfleifð Bítlanna í íslensku

Breska hljómsveitin The Beatles er að mati okkar margra sem ólumst upp á sjöunda áratug síðustu aldar (og ýmissa fleiri) merkilegasta og besta hljómsveit sögunnar. Það er samt ekki ástæðan fyrir því að ég nefni hana hér, enda er þetta ekki hópur fyrir tónlistaráhugafólk. The Beatles Bítlarnir – eru nefndir hér vegna þeirra áhrifa sem þeir höfðu á íslenskt mál. Þetta er ein fárra erlendra hljómsveita, ef ekki sú eina, sem hefur verið gefið íslenskt nafn sem meira að segja varð fullgilt nýyrði í málinu og hefur getið af sér ýmsar samsetningar. Að vísu voru The Rolling Stones stundum kallaðir Rollingarnir en það er annars eðlis – miklu sjaldgæfara og auk þess var rollingur til í málinu fyrir þótt það hafi auðvitað aðra merkingu en í Rolling Stones.

The Beatles sjást fyrst nefndir í íslensku blaði um mitt ár 1963, skömmu eftir að þeir slógu í gegn í Bretlandi. Alls er enskt nafn hljómsveitarinnar nefnt fimm sinnum í íslensku blöðunum það ár samkvæmt tímarit.is, en nærri sjö hundruð sinnum á næsta ári, 1964. En strax í nóvember 1963 er enska heitið búið að geta af sér íslenskt orð. Þá birtist frétt í Þjóðviljanum með fyrirsögninni „Bítilæðið í Bretlandi“ þar sem bítilæði er greinlega notað sem þýðing á enska orðinu Beatlemania sem kom fram í október sama ár. Í fréttinni segir: „Þeir kalla sig „The Beatles“ (framborið Bítils)“ og vitnað er í fyrirsögn í Daily Mail, „This is Beatlemania“, sem þýtt er „Þetta er bítilæði“. Myndin bítlaæði sem er mun algengari sést fyrst í mars 1964.

En fyrsta dæmið um íslenska gerð hljómsveitarheitisins sjálfs er í frétt Alþýðublaðsins með fyrirsögninni „„Beatles“ í Bandaríkjunum“ í febrúar 1964 – þar segir: „Og hvað um áform íbúa Detroitborgar um að útrýma Bítlunum.“ Í sama blaði viku síðar segir: „Við erum fremur ómerkilegir músikantar, segir Bítillinn George.“ Þar er sem sé farið að tala um einstakan Bítil – skilja Bítlar sem fleirtölu af Bítill. Fljótlega var svo farið að nota bítlar sem samheiti um hljómsveitir sem stældu Bítlana eða spiluðu svipaða tónlist. Um miðjan mars 1964 birti Morgunblaðið frétt um tónleika nokkurra íslenskra hljómsveita undir fyrirsögninni „Íslenzkir „Bítlar“ og daginn eftir segir í myndatexta í Alþýðublaðinu: „Hljómar, hinir íslenzku bítlar.“

Orðið bítill er í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrt 'félagi úr hljómsveitinni The Beatles' en það er ófullnægjandi skýring – merking fleirtölunnar er mun almennari. En bítill er frábært orð sem fellur fullkomlega að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins. Það hefur sömu stofngerð og trítill og mítill (sem er reyndar yngra nýyrði) og fellir brott áherslulausa sérhljóðið þegar beygingarendingin hefst á sérhljóði – bítli, bítlar, bítla, bítlum. Þetta er reyndar svokölluð „öfug orðmyndun“ – í stað þess að fleirtalan sé leidd af eintölunni eins og venjulega er fyrst tekin upp fleirtalan Bítlarnir vegna hljóðlíkingar við Beatles og eintalan Bítill sem síðan verður samheitið bítill búin til út frá henni í samræmi við reglur málsins, sbr. lyklar lykill, jöklar jökull o.s.frv.

Á árinu 1964 urðu svo til fjölmargar samsetningar með bítil-/bítl- sem fyrri lið. Í sumum tilvikum vísa þær sérstaklega til Bítlanna en flestar urðu þó samheiti með tímanum. Lýsingarorðin bítilóður og bítilgreiddur sjást fyrst í Alþýðublaðinu snemma í mars, nafnorðið bítilfaraldur er í Þjóðviljanum um sama leyti, bítilhljómleikar, bítlahljómleikar og bítlaútlit sjást fyrst í Alþýðublaðinu um miðjan mars og bítlaskór í Tímanum í ágúst. Orðin bítilhár og bítlahár – sem er það eina af þessum orðum sem er í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrt 'hár niður í augu og niður fyrir eyru (á karlmanni)' – fara hins vegar ekki að sjást í ýmsum blöðum fyrr en um haustið þegar strákarnir hafa fengið nægilegan tíma til að láta hárið vaxa.

Ýmsar fleiri samsetningar komu fram næstu árin. „Hversu lengi eigum við að eyða gjaldeyri þjóðarinnar í þetta bítlagarg“ er spurt í Vísi vorið 1965, „Keflavík hefur með talsverðum sanni verið kallaður „bítlabærinn“ á Íslandi“ segir í Vikunni 1966, og svo mætti lengi telja. Aðrar hafa komið til síðar, eins og bítlaekkja. Sögnin bítlast er líka til – í myndatexta í Alþýðublaðinu vorið 1965 segir: „Ekki fylgdi það með í textanum, sem með fylgdi myndinni, hvort þau væru að bítlast.“ Vissulega náðu sumar þessara samsetninga aldrei flugi en þrátt fyrir að meira en hálf öld sé liðin síðan Bítlarnir sjálfir leystust upp lifir arfleifð þeirra í íslenskunni – eins og sjá má í Risamálheildinni eru furðu margar bítla-samsetningar sprelllifandi enn í dag.