Eignarfallsfrumlög

Tvær fyrirsagnir á mbl.is í morgun vöktu athygli ýmissa og voru m.a. gerðar að umtalsefni í Málvöndunarþættinum – „Líklegt að áhrif kerfisbilunar gæti hérlendis“ og „Áhrifin gæta ekki hjá Play“. Myndirnar áhrif og áhrifin gætu formsins vegna verið hvort heldur er nefnifall eða þolfall en fleirtalan gæta sýnir að um nefnifall er að ræða í seinni setningunni a.m.k. Sögnin gæta tekur hins vegar með sér eignarfall í þessari merkingu í hefðbundnu máli þannig að búast hefði mátt við áhrifa og áhrifanna. Báðum fyrirsögnum var líka fljótlega breytt og eru „Líklegt að áhrifa kerfisbilunar gæti hérlendis“ og „Áhrifanna gætir ekki hjá Play“. En er einhver skýring á því að þarna var í upphaflegri gerð fréttanna notað nefnifall í stað eignarfalls?

Í íslensku er frumlag setninga langoftast í nefnifalli. Allnokkrar sagnir taka þó frumlag í þolfalli, svo sem langa, vanta, dreyma, syfja, reka (á land), daga (uppi) en þolfall sem frumlag á þó nokkuð í vök að verjast eins og kunnugt er og margar þessar sagnir hafa tilhneigingu til að breyta um frumlagsfall – fá þágufall eins og langa, vanta og dreyma eða nefnifall eins og dreyma, reka (á land) og daga (uppi), svo að fáein dæmi séu tekin. Fjöldi sagna tekur þágufallsfrumlag, eins og líka, leiðast, finnast, sýnast og sambönd með vera eins og vera kalt, vera illt o.s.frv. Hins vegar taka aðeins örfáar sagnir eignarfallsfrumlag – Jóhannes Gísli Jónsson telur sjö í grein í Íslensku máli: bíða, geta, gæta, kenna, missa við, njóta (við) og þurfa.

Allar þessar sagnir eru einnig til með nefnifallsfrumlagi, ýmist í svipaðri merkingu eða ekki – til er bæði mín bíður erfitt verkefni og ég bíð eftir þessu, hennar getur í þessu kvæði og hún getur gert þetta, verkjanna gætir ekki og ég gæti að mér, það kenndi aflsmunar og ég kenndi hana, hans missti við og ég missti hann, hans nýtur ekki við og hún nýtur þessarar bókar, og þess þarf ekki og ég þarf þess ekki. Við bætist að flestar þessara sagna – sem og fáeinar aðrar sem mætti bæta við listann – eru sjaldgæfar með eignarfallsfrumlagi og sumar mjög sjaldgæfar. Þess vegna er í sjálfu sér ekkert undarlegt að fallstjórn þeirra hafi tilhneigingu til að breytast og dæmigert frumlagsfall, nefnifall, koma í stað eignarfallsins – eins og í umræddum fréttum.

Ef sögn sem hefur svipaða merkingu og gæta en tekur nefnifallsfrumlag eins og t.d. finnast, eða samband eins og koma fram, væri sett í stað gæta í upphaflegri gerð áðurnefndra fyrirsagna væri ekkert við þær að athuga – Líklegt að áhrif kerfisbilunar komi fram hérlendis, Áhrifin finnast ekki hjá Play. Sennilega hefur fréttaskrifurum fundist að gæta tæki nefnifallsfrumlag eins og langflestar sagnir. Almennt séð er meinlaust þótt einstakar sagnir breyti um fallstjórn og ég hef t.d. engar áhyggjur af breyttri fallstjórn með langa, vanta, dreyma og slíkum sögnum. En þar sem sagnir sem taka eignarfallsfrumlag eru svo fáar munar um hverja einstaka, og vegna þess að eignarfallsfrumlög eru eitt af sérkennum íslenskunnar væri mikil eftirsjá að þeim.