Öðru hvoru og öðru hverju

Áðan var hér spurt hvort fólk væri „alveg hætt að greina mismuninn“ á öðru hverju og öðru hvoru – en hver er þessi munur? Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2006 sagði Jón G. Friðjónsson: „Spurnarfornafnið hvor vísar til annars af tveimur en hver til fleiri en tveggja. Í samræmi við það er (eða ætti að vera) merkingarmunur á orðasamböndunum öðru hvoru og öðru hverju. Orðasambandið öðru hverju vísar til þess sem gerist aftur og aftur með ákveðnu millibili (endurtekin merking) […]. Öðru hvoru vísar hins vegar til annars tilviks af tveimur […].“ Þrátt fyrir að telja að þarna „ætti að vera“ munur segist Jón hafa „veitt því athygli að í nútímamáli er algengt að enginn munur sé gerður á öðru hverju og öðru hvoru“.

Í pistli frá 2015 í Málfarsbankanum er Jón svo orðinn afdráttarlausari um þetta samfall og segir: „Í nútímamáli er t.d. ýmist sagt öðru hverju eða öðru hvoru án merkingarmunar […].“ Hér er rétt að athuga að „í nútímamáli“ er þarna skilgreint nokkuð rúmt – Jón vísar í ýmis dæmi allt frá fyrri hluta 18. aldar þar sem öðru hvoru er notað þar sem hann telur að búast mætti við öðru hverju. Stundum er því þó haldið fram að öðru hverju sé hið eina rétta. Í Einingu 1953 er vitnað í Magnús Finnbogason menntaskólakennara sem var þekktur málvöndunarmaður „og nú minnir hann okkur á að segja […] Ekki: öðru hvoru – heldur: öðru hverju“. Málfarsbankinn er ekki eins afdráttarlaus en segir þó: „Talið er betra mál að segja öðru hverju en „öðru hvoru“.

Þarna eru sem sé komin fram tvö sjónarmið – annars vegar telur Jón G. Friðjónsson rétt að nota ýmist öðru hvoru eða öðru hverju eftir merkingu, og hins vegar vilja Magnús Finnbogason og Málfarsbankinn alltaf nota öðru hverju, óháð fjölda tilvika að því er virðist. Þriðja sjónarmiðið kemur fram hjá Gísla Jónssyni í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1987: „Öðru hvoru eða öðru hverju. Erfitt er að segja að annað sé réttara en hitt. […] Hæpið mun að greina þetta eftir því, hversu oft eitthvað gerist, því að tímaviðmiðunin í þessu er svo afstæð.“ Ég tek undir þetta. Ég hef enga tilfinningu fyrir því að einhver merkingarmunur sé á öðru hvoru og öðru hverju og held að ég noti þessi sambönd til skiptis á tilviljanakenndan hátt.

Ég held nefnilega að tvö fyrri sjónarmiðin byggist á misskilningi – eins og dæmi hjá Jóni G. Friðjónssyni sýna er þar verið að blanda saman atviksorðunum öðru hvoru og öðru hverju annars vegar og beygingarmyndum fornafnanna annar hvor og annar hver hins vegar. Á fornöfnunum er gerður greinarmunur eftir því hvort vísað er til tveggja eða fleiri, en í aviksorðunum sem málið snýst um hér vísar hvor aldrei til fjölda tilvika, annars af tveimur – það er óhugsandi í merkingunni 'við og við'. Það skiptir því ekki heldur máli hvort sagt er öðru hvoru eða öðru hverju vegna þess að merkingarmunur getur ekki verið fyrir hendi – enda eru öðru hvoru og öðru hverju gefin athugasemdalaust í sömu merkingu í orðabókum.