Við hittumst aðra hvora helgi

Í framhaldi af umræðu um samböndin öðru hvoru og öðru hverju í atvikslegri merkingu, 'við og við', fór ég að hugsa um notkun þessara sambanda sem fornafna í merkingunni 'einn af hverjum tveimur í röð (með nafnorði án greinis)' eins og skýringin á annar hvor er í Íslenskri nútímamálsorðabók, með dæmunum ég á að skúra aðra hvora viku og við hittumst annan hvorn sunnudag. En við skýringuna er bætt innan sviga: „(réttara er þó talið að nota hér 'annar hver': annan hvern sunnudag)“. Sambandið annar hver er skýrt 'einn af hverjum tveimur á víxl í samfelldri röð' með dæmunum annar hver nemandi lærir á hljóðfæri, það er mynd á annarri hverri blaðsíðu, önnur hver fjölskylda er áskrifandi að blaðinu og hún vinnur aðra hverja helgi.

Í Málfarsbankanum er svo hnykkt á því hvað er talið „réttara“ í þessu: „Annar hvor, önnur hvor, annað hvort merkir: Annar (önnur, annað) af tveimur. Þau fara þangað aðra hvora helgina, annaðhvort þá næstu eða þá þarnæstu.“ En hins vegar: „Annar hver, önnur hver, annað hvert. Þau fara þangað aðra hverja helgi, þ.e. að jafnaði 26 helgar á ári.“ Þetta samræmist því sem Málfarsbankinn segir um greinarmun hvor og hver – „Óákveðna fornafnið hvor á við þegar rætt er um annan af tveimur“ og „Fornafnið hver á við þegar rætt er um einn af þremur eða fleirum“ Sá greinarmunur hefur reyndar ekki alltaf verið gerður – í skýringu orðanna í Íslenskri orðabók segir: „á 14.–19. öld var enginn greinarmunur á hver og hvor.“

Það er líka alkunna að algengt er í nútímamáli að ekki sé gerður munur á þessum orðum. En þótt við höldum okkur við að gera merkingarmunur á hvor og hver leiðir það ekki endilega til þess að annan hvern sunnudag og aðra hverja helgi sé réttara en annan hvorn sunnudag og aðra hvora helgi í dæmunum að ofan. Þegar við segjum aðra hvora helgi er nefnilega hægt að líta svo á að viðmiðið sé í raun ekki allar 52 helgar ársins, heldur einungis tvær og tvær í einu. Það má sem sé líta svo á að aðra hvora helgi merki 'aðra af tveimur í hverjum viðmiðunarhópi' og því sé eðlilegt að nota þarna fornafnið hvor. En einnig kemur til greina að líta á allar helgar ársins sem viðmiðunarhóp og þá er eðlilegt að segja aðra hverja helgi.

Á tímarit.is má finna fjölda gamalla dæma um sambandið annar hvor í þessari merkingu. Elsta dæmi um annan hvorn dag og annan hvern dag eru jafngömul, frá 1872 – elsta dæmi um aðra hvora viku er frá 1887 en um aðra hverja viku frá 1906. Dæmi með hver eru vissulega mun fleiri, en dæmin um hvor skipta samt þúsundum og fráleitt vegna aldurs, tíðni og þess sem áður segir um viðmiðunarhóp að telja þau röng. Áðurnefnd skýring um að hvor miðist við hóp tveggja og tveggja gengur vitanlega ekki upp í dæmum eins og þriðju hvora helgi sem slæðingur er af í Risamálheildinni. En þau dæmi eru eingöngu af samfélagsmiðlum og því trúlegt að þau megi skýra með almennu samfalli hvor og hver sem er algengt í óformlegu máli.