Vittu hvort hann er heima

Algengasta merking sagnarinnar vita er 'hafa fullvissu (um e-ð)' en meðal annarra merkinga sem nefndar eru í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'athuga, aðgæta' með dæmunum vittu fyrir mig hvort glugginn er ekki lokaður og ég ætla að vita hvort hann er heima. Þessi merking kemur fram í frægri senu í Njálu þegar óvinir Gunnars á Hlíðarenda fara að honum og senda Þorgrím austmann til að vita (þ.e. 'gá') hvort Gunnar sé heima. Hann fer upp á skálann þar sem Gunnar sér til hans og leggur til hans atgeirnum þannig að hann fellur ofan af þekjunni og gengur til félaga sinna. Gissur hvíti spyr: „Hvort var Gunnar heima?“ Austmaður svarar: „Vitið þér það en hitt vissi eg að atgeir hans var heima“ – og fellur dauður niður.

Ég botnaði aldrei í upphafinu á þessu tilsvari fyrr en ég áttaði mig á því að vita er þarna ekki notuð í algengustu merkingu sinni heldur merkingunni 'athuga, aðgæta' og „vitið þér það“ merkir því 'þið getið gáð að því'. Spurningin er hins vegar hvað vita merkir í seinna skiptið sem sögnin kemur fyrir í tilsvarinu, „hitt vissi eg“. Merkir þetta 'ég fullvissaði mig um það' eða 'ég gáði að því'? Það skiptir svo sem ekki máli fyrir skilninginn á sögunni. En eftir því sem ég best veit er útilokað í nútímamáli að nota vita í merkingunni ‚athuga, aðgæta‘ í framsöguhætti og viðtengingarhætti – ég veit hvort hann er heima getur alls ekki merkt 'ég gái hvort hann er heima' og ég vissi hvort hann væri heima getur ekki merkt 'ég gáði hvort hann væri heima'.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að boðhátturinn vittu sé ekki notaður í algengustu merkingu sagnarinnar vita – það er ekki hægt að skipa neinum að 'hafa fullvissu' um eitthvað en það er hægt að skipa öðrum að 'athuga, aðgæta' eitthvað og ekki óeðlilegt að nota boðháttinn í þeirri merkingu. Það kemur hins vegar ekki fram í orðabókum að sú merking er bundin við ákveðna hætti sagnarinnar – þá sem koma fram í notkunardæmunum úr Íslenskri nútímamálsorðabók, boðhátt og nafnhátt. Langoftast kemur merkingin fram í boðhætti annarrar persónu eintölu en stundum einnig í fleirtölu og stöku sinnum í nafnhætti. Lausleg athugun á tímarit.is bendir þó til þess að notkun nafnháttar í þessari merkingu sé mjög sjaldgæf á síðustu áratugum.