Tvem

Í Málvöndunarþættinum sá ég að einu sinni sem oftar var verið að gera athugasemd við framburðinn tvem(ur) í stað tveim(ur) í þágufalli af töluorðinu tveir. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2007 sagði Jón G. Friðjónsson: „Í nútímamáli gætir þess allnokkuð að framburðarmyndinni tvem bregði fyrir, sbr. myndina þrem við hlið þremur (af to. þrír) […]. Myndin tvem er ekki viðurkennd sem gott mál.“ Í grein á Vísindavefnum 2008 segir Guðrún Kvaran: „Myndirnar tvem og tvemur heyrast alloft í töluðu máli og sjást jafnvel á prenti […] en þær eru ekki taldar réttar.“ Í málfarshorni Morgunblaðsins 2019 segir: „Þó segjum við stopp við „tvem“ eða „tvemur“. Það er klárlega smit frá þrem og þremur og verður ekki liðið.“

Þessi framburður er þó fjarri því að vera nýjung heldur hefur þekkst í a.m.k. hálfa aðra öld. Á tímarit.is eru hátt í 400 dæmi um tvemur, það elsta í Baldri 1869: „Á tvemur seinustu mánuðum áður en skýrsla þessi var gefin.“ Næsta dæmi er í Þjóðólfi 1878: „rauð hryssa óaffext með síðu tagli og tvemur hvítum röndum á kviðnum.“ Dæmin um tvem eru tæp 120, það elsta í Lögbergi 1909: „Fyrir hér um bil tvem árum var eg ákaflega horuð orðin.“ Næstu tvö dæmi eru líka úr Lögbergi en fyrsta dæmið úr blaði gefnu út á Íslandi er í Fréttum 1915: „En þegar hann loks gat hrært sig úr sporunum, mætti hann tvem öðrum augum.“ Dæmum um bæði tvemur og tvem á tímarit.is hefur farið smátt og smátt fjölgandi, einkum eftir 1990.

Það er hins vegar alkunna að ritháttur prófarkalesinna texta, eins og megnið af textunum á tímarit.is er, getur gefið mjög villandi mynd af tíðni framburðarmynda sem ekki njóta viðurkenningar, eins og tilfellið er með tvem(ur). Þetta kemur vel fram í Risamálheildinni – í samfélagsmiðlahluta hennar er hátt á fjórða þúsund dæma um tvem og tvemur. Þetta gefur vísbendingu um að þessi framburður hafi lengi verið töluvert algengari en fram kemur á prenti. En þessar myndir eru þó ekki bundnar við óformlegt málsnið því að um 450 dæmi eru um þær í öðrum textum Risamálheildarinnar og það er margfalt hærra hlutfall en í sambærilegum textum á tímarit.is sem bendir til þess að þessi framburður sé í töluverðri sókn.

Það leikur lítill vafi á að í tvem(ur) gætir áhrifa frá þrem(ur) eins og áður segir og þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem beyging töluorðsins þrír hefur áhrif á beygingu orðsins tveir. Upprunalega þágufallsmyndin mun vera tveim, en myndin tveimr (síðar tveimur) er talin tilkomin fyrir áhrif frá þremr (áður þrimr – sérhljóðið þar hefur nefnilega líka breyst). En fleira en áhrif frá þrem(ur) gæti ýtt undir breytingu ei í e – eignarfallið tveggja gæti líka átt hlut að máli, því að þar er stofnsérhljóðið e eins og í tvem(ur). Við það bætast skyld orð með tve- eins og lýsingarorðið tvennur og nafnorðin tvenna, tvennd og tvenning, auk lýsingarorðsins tvefaldur sem var algengt áður fyrr. Aftur á móti er ei hvergi að finna í skyldum orðum.

Beyging tveir er mjög óregluleg – tveir um tvo í nefnifalli og þolfalli karlkyns, tvær í báðum þessum föllum í kvenkyni, og tvö í þessum föllum í hvorugkyni, en tveim í þágufalli og tveggja í eignarfalli allra kynja. Þessi óregla þýðir að tvíhljóðið ei í tveim(ur) hefur lítinn stuðning af öðrum beygingarmyndum orðsins og stendur því veikt – fyrir utan þágufallið kemur ei bara fyrir í nefnifalli karlkyns. Vissulega gildir það sama um e-ið í þrem(ur) – það hefur jafnvel enn minni stuðning af öðrum myndum. En einhljóðun er miklu algengari en tvíhljóðun í áherslulítilli stöðu eins og þessar myndir hafa oft. Þegar við þetta bætist að tvem(ur) er a.m.k. 150 ára gamalt, og orðið mjög útbreitt, leikur enginn vafi á því að sjálfsagt er að viðurkenna það sem rétt mál.